top of page

Lið áratugarins 2010-2019

Síðasti áratugur er sá farsælasti í sögu félagsins til þessa. Félagið spilaði hann allann í efstu 2 deildum og átti nokkur tímabili í mikilli baráttu ásamt því að komast hársbreidd frá bikarúrslitaleik í fyrsta sinn í sögu félagsins. Það er því hægt að segja að þegar 5 manna dómnefnd Leiknisljóna valdi lið áratugarins að um er að ræða nokkra af bestu spilurum í sögu félagsins yfir höfuð. 

Valinu var þannig háttað að hvert Leiknisljón í 5 manna dómnefnd átti að velja byrjunarlið með uppstillinguna 4-3-3 eða 4-4-2 og 5 manns á bekk. Fyrir hvert byrjunarliðssæti fengu menn 5 stig en fyrir bekkjarsetuna 2 stig. Það var því mest hægt að fá 25 stig ef allir voru sammála um byrjunarliðssæti og svo fór hjá 6 mönnum í byrjunarliðinu sem afdráttarlaust allir eru sammála um að eigi heim þar.  

lineup.png

Eyjólfur Tómasson-Markvörður- 224 leikir á áratugnum

Það er enginn annar í liðinu sem er eins sjálfvalinn og Eyjó. Hann var lykilmaður öll þessi ár og spilaði reyndar 93% allra leikja liðsins í deild og bikar á þessum áratug. Hann tók svo við fyrirliðabandinu af Ólafi Hrannari síðustu tímabil áður en hann lauk ferlinum eftir síðasta tímabil áratugarins. Hann er því ekki bara besti markvörður í sögu félagsins, heldur líka leikjahæsti leikmaður í sögu félagsins og því þarf ekkert að fjölyrða mikið meira um þetta val. Hann er sjálfkjörinn og fékk fullt hús atkvæða ef það lá einhver vafi á því. 

Kristján Páll Jónsson-Bakvörður/Kantmaður- 211 leikir á áratugnum

Þarf að ræða þetta eitthvað? Fyrir utan kjánalegt hliðarspor með Fylki, þá var þessi yndisdrengur alltaf til staðar í liði Leiknis á þessum áratug. Hann skoraði 28 mörk á þessum tíma sem er þriðju flest mörk áratugarins hjá félaginu. Hann var meginhlutan hægri kantmaður en í seinni tíð færði hann sig niður í bakvörðinn og þar grípur hann sæti sitt í okkar liði þrátt fyrir skiptar skoðanir dómnefndar með hvar hann ætti að spila á vellinum. Það fór þó aldrei á milli mála að þessi dansaði inn í liðið með fullt hús atkvæða. 

Óttar Bjarni Guðmundsson-Miðvörður- 145 leikir á áratugnum

Hinn snillingurinn sem enn er að í Úrvalsdeild. Eftir bekkjarsetu í Garðabæ blómstraði okkar maður á Skaganum síðastliðið sumar en nóg um það. Hann var búinn að vera fastamaður í miðri vörninni í nokkur ár þegar Davíð og Freysi náðu sögulegum árangri með liðið og þá munaði miklu um að þessi drengur tók skrefið upp. ÓBG var líka fyrirliði á þessum árum þegar Ólafur Hrannar var ekki við. Þessi fékk fullt hús atkvæða eins og við var að búast. 

Halldór Kristinn Halldórsson-Miðvörður- 85 leikir á áratugnum

"Stóðhesturinn" var nýttur snemma til útflutnings úr Breiðholtinu á ferlinum og var hann hokinn af reynslu eftir 4 tímabil í efstu deild með Val og Keflavík þegar hann snéri heim til að heyja baráttu með uppeldisklúbbnum sumarið 2015, einmitt í efstu deild. Hann var valinn leikmaður ársins það ár enda láku gæðin af drengnum þó liðið hafi strögglað. Hann tók tvö sumur í víðbót áður en hann hætti að gefa kost á sér í aðalliðið þó honum bregði nokkrum sinnum fyrir í röðum KB núorðið. Fullt hús á þennan. Allir sammála. 

Ósvald Jarl Traustason-Bakvörður- 68 leikir á áratugnum

Í vinstri bakverði er enginn betri. Ósi hefur á 3 árum fest sig í sessi og ber uppi vörnina með Bjarka inn í nýjan áratug. Öflugur fram á við og skapstór afturfyrir. Einn af tveimur ættleiddum Leiknismönnum í þessu liði. Það er afrek útaf fyrir sig. 

 

Ernir Bjarnason-Miðjumaður- 43 leikir á áratugnum

Það má með sanni segja að á aðeins tveimur árum og einu marki er Vélin okkar búin að festa sig í sessi sem uppáhald Leiknisljónanna og stuðningsmanna yfirhöfuð enda var hann valinn leikmaður ársins á þessu ári af stuðningsmönnum. Hann fékk fullt hús atkvæða hjá dómnefnd okkar og er einn af aðeins tveimur í byrjunarliði sem er ekki alinn upp í 111. Meira svona, næsta áratug, takk!  

Brynjar Hlöðversson-Miðjumaður- 151 leikir á áratugnum

Binni Hlö er karakter. Uppalinn Leiknismaður sem er hluti af gullkynslóðinni sem fór upp í Pepsi-deildina en klárlega allt öðruvísi týpa en t.d. Hilmar Árni. Binni var baráttujaxlinn á miðjunni sem enginn hafði gaman af að mæta. Hann var heldur ekki besti vinur dómaranna enda er hann með langflest gul spjöld meðal Leiknismanna á þessum áratug með 44 stykki. Hann lét sér þó segjast og fékk ekki nema 2 rauð spjöld. Binni fór frá Leikni til Færeyja þar sem hann spilaði tvö tímabil með Heimi Guðjónssyni við góðan orðstír með gleði í hjarta. Það er aldrei að vita nema hann snúi aftur í rendur Leiknis en hann á alltaf þetta sæti í liði áratugarins víst. 

Sindri Björnsson-Miðjumaður- 86 leikir á áratugnum

Sindri er hæfileikamaður mikill og var ofurmaðurinn sem tryggði okkur sæti í Pepsi sumarið 2014 með 13 mörkum í 21 leik. Uppalinn og allt það en við bíðum spennt eftir því að Úrvalsdeildarliðin sem hann hefur séð aumur á eftir Pepsi-ævintýrið fari að nýta drenginn almennilega. Annars verðum við bara að hrifsa hann aftur til okkar og þiggja þessi 13 mörk aftur, takk kærlega.  

Hilmar Árni Halldórsson-Sóknarmaður- 133 leikir á áratugnum

Breiðholts-Messi-inn elskaði er uppalinn Leiknismaður og sennilega farsælasti leikmaður í sögu félagsins. Hann var alger lykilmaður í liðinu sem sigraði 1.deildina sumarið 2014 og einnig í baráttunni sem endaði þó á falli í einu heimsókn félagsins í efstu deild. Eins og alþjóð veit, er Hilmar svo búinn að vera meðal bestu leikmanna í Pepsi-deild síðan hann yfirgaf herbúðir Leiknis fyrir Stjörnuna. Borðleggjandi lykilmaður í liði áratugarins og hann verður það fyrir Úrvalsdeildina alla, ekki bara litla uppeldisfélagið sitt. Þarf að taka fram að hann fékk fullt hús stiga hjá dómnefnd. Njeeeee.

Sævar Atli Magnússon-Sóknarmaður/Miðja- 69 leikir á áratugnum

Gulldrengurinn er valinn í liðið fyrir tvítugt með þátttöku í innan við 30% leikja á áratugnum en það segir meira en flest um mikilvægi hans fyrir félagið. Hann er nýr og öðruvísi Ólafur Hrannar, kominn með fyrirliðabandið og leiðir félagið inn í nýja tíma frá og með núna! 

Ólafur Hrannar Kristjánsson-Sóknarmaður- 154 leikir á áratugnum

Hr. Leiknir, fyrirliði fyrrihluta áratugarins, markahæstur með 40 mörk, 3. leikjahæstur og lengi vel andlit félagsins á þessum áratug. Þetta er einn af þeim sem engin leið var fyrir nokkuð ljón að horfa framhjá og fékk hann augljóslega fullt hús atkvæða hjá öllum. 

TRÉVERKIÐ

Sólon Breki-Sóknarmaður- 40 leikir- 16 atkvæði

Á bara tveimur tímabilum hefur þessi snillingur gert sig að Leiknisgoðsögn. Það er langt síðan við höfum haft svona hreinræktaðan sóknarmann í okkar röðum og 20 mörk í 40 leikjum segir alla söguna. Hann á heima í byrjunarliðinu en vantaði kannski eitt tímabil uppá. Hann er fyrstur inn ef eitthvað vantar uppá. 

Aron Fuego Daníelson-Kantmaður-114 leikir- 14 atkvæði

Einn af gullkynslóðinni sem gaf sig allan í þetta en var oft meiðslagrýlunni að bráð. Eins og frægt er orðið leiddi Aron Leiknisljónin í stúkunni til áður óþekktra metorða innan íslensku knattspyrnusögunnar þegar hann gat ekki lagt sitt af mörkum inni á vellinum í efstu deild. Þessi maður er Leiknir í gegn og sér til þess að allt gangi smurt fyrir sig í Austurbergi nú þegar hann er hættur að reima á sig skóna. En burtséð frá öllu utanvallar á þessi leikni kantmaður skilið að vera í byrjunarliðinu hér en ef við þekkjum hann rétt kæmi hann ávallt ferskur og jákvæður inn af bekknum. 

Eiríkur Ingi Magnússon-Bakvörður-67 leikir- 12 atkvæði

Gone too soon! Eiríkur Ingi kom inn eins og stormsveipur í hægri bak hjá Leikni sumarið 2014 og lagði grunninn að því að liðið komst upp um deild. Það var ekki við hann að sakast að illa gekk að skora í efstu deild enda ekki þekktur fyrir það með engin mörk fyrir félagið. Svo tók hann 2016 í Inkasso og kvaddi borgina eftir það. Hann hefur verið að sprikla eitthvað með Augnabliki í neðri deildum og er Crossfit-skrímsli en þetta er dæmi um að yfirburðagóður leikmaður hætti að spila með sterku liði Leiknis allt of snemma. Eiríkur var óhugnalega sterkur og ómistækur bakvörður sem vonlaust var að plata og barðist alltaf rúmlega 90 mínútur í hverjum leik. Mikil eftirsjá af þessum. 

Bjarki Aðalsteinsson-Miðvörður-66 leikir-10 atkvæði

Bjarki er núna kletturinn í vörn Leiknis og maðurinn sem verður að endanlega taka yfir allt skipulag varnarinnar eftir að Eyjó hvarf á brott. Bjarki er að skrifa næsta kafla í sögu félagsins í þessum töluðu orðum og missir af sæti í byrjunarliðinu aðeins af því að það eru tveir ógnarsterkir miðverðir sem skrifuðu stærri kafla í sögu félagsins fyrir nokkru síðan. Þegar Bjarki er búinn að klára #OperationPepsiMax er klárt mál að við Leiknisljónin þurfum að endurskoða stöðu Dóra og Óttars alvarlega. Sem betur fer getum við skrifað það á nýjan áratug. Yfir til þín Bjarki! 

Vigfús Arnar Jósepsson-Miðjumaður-101 leikir-9 atkvæði

Þennan þekkja allir. Það fer svosem ekki mikið fyrir honum en hann var með í að vinna Inkasso sumarið 2014 og hætti svo í fótbolta. Allavega að spila hann. Fúsi er í eldri árgangi gullkynslóðarinnar og sýndi glæsilega takta á miðjunni með yfirvegun og eldmóð. Hann er vel að sætinu kominn á bekknum enda kom hann sterkur inn með þjálfaramenntun sína þegar hann stýrði stúkunni úr fárviðri sumarið 2018 eftir hriklega byrjun með ekkert milli handanna. 

Aðrir sem fengu atkvæði: 

Fannar Þór Arnarsson

Vuk Óskar Dimitrijevic

Elvar Páll Sigurðsson

Gunnar Einarsson

Atlir Arnarson

Steinarr Guðmundsson

bottom of page