top of page
Writer's pictureLjón

"2. flokks" Leiknismenn sigruðu 2. deildar ÍR-inga

Í gær fór fram annar leikur okkar manna í Reykjavíkurmótinu þetta árið og lauk honum með naumum 0-1 sigri í neðra Breiðholti.


Siggi henti fullt af kjúklingum inn í liðið og fyrirliðabandinu á Birki Björns en tryggði sig með öflugum byrjunarliðsmönnum á bekknum. Skemmst er frá því að segja að það var margt flott í leik liðsins, einkum og sér í lagi þar sem þessi hópur hefur lítið spilað saman áður í keppnisleik.


Okkar menn höfðu völdin meira en litla liðið í 109 og það sást nokkur gæðamunur en heimamenn fengu sín tækifæri, meðal annars skalla slána í fyrri hálfleik eftir hornspyrnu. Eina mark leiksins skoraði Viktor Marel á 38. mínútu leiksins. Hann er kominn aftur til félagsins eftir að hafa farið á láni til Ægis síðasta sumar. Ungstirnin framávið, þeir Shkelzen og Róbert Quental voru sprækur sitthvoru megin við Viktor Marel en náðu ekki að setja mark. Róbert kom næst því þegar hann var einn á móti markverði í fyrri hálfleik en náði ekki að koma boltanum framhjá markverðinum. Andi Hoti kom skemmtilega út sem djúpur miðjumaður og fer sterk orð af þeim framförum sem hann er að taka í þroska sínum sem leikmaður. Hann hefur að mestu spilað miðvörðinn í 2.flokki en það væri gaman að sjá meira frá honum í þessari stöðu. Þeir Ernir Bjarna (Vélin), Sævar Atli og Danni komu inná í seinni hálfleik en gerbyltu leiknum ekkert. Þvert á móti lá Sævar Atli í valnum inni í teig þegar tveir varnarmanna ÍR-inga brutu fólskulega á honum. Þetta var stórhættulegt og að sjálfsögðu víti en dómarinn dæmdi ekki baun. Það kom næstum til handalögmála milli þjálfara liðanna áður en Sævar komst á fætur enda ekki til mikilvægari leikmaður hjá félaginu uppá allar fyrirætlanir félagsins í sumar. Skapofsinn endaði með faðmlögum en undirritaður þykist viss um að ef sjúkrabörur hefði þurft til á fyrirliðann okkar, þá hefði þetta getað orðið kveikur að djúpu hatri milli liðanna um óákveðinn tíma.


Undir blálok leiksins sóttu heimamenn nokkuð fast að marki Bjarka Arnaldar sem var að spila sinn fyrsta keppnisleik í meistaraflokki. Hann stóð sína vakt vel og hélt hreinu. Fullt hús stiga í Reykjavíkurmótinu eftir tvær umferðir. Nú taka við andstæðingar úr okkar deild. Deild þeirra bestu. Víkingar á þriðjudagskvöld í Víkinni og svo Valsmenn á Origo vellinum sunnudaginn eftir það.


Það verður gaman að máta hópinn við sterka andstæðinga strax í janúar þó að flest lið séu langt frá því að vera fullmönnuð eða komin í PepsiMax form.


Við höldum áfram að fylgjast með liðinu með öllum tiltækum ráðum.


50 views0 comments

留言


bottom of page