top of page
Writer's pictureLjón

2. flokkur með jafntefli í Kórnum

Í kvöld mættu 2.flokks drengirnir okkar HK-ingum í hörkuslag inni í Kórnum og fara bæði lið frá borði nokkuð vonsvikin með aðeins eitt stig í pokanum.



 

HK 1-1 LEIKNIR

HK mark 10.mín.

Cristian Andres Catano 14.mín.


Leikurinn átti að spilast á grasvellinum við Kórinn en að sögn starfsmanna láðist Kópavogsbæ að senda línumálara í dag og því var völlurinn ónothæfur fyrir þessa iðju. Við þurftum því að láta okkur nægja að hanga inni í blíðunni. Það var þó vel þess virði.


Strákarnir okkar voru sprækir í byrjun leiks og bæði lið komin til að taka öll stigin. Heimamenn voru og eru áfram í nokkurri fallhættu á meðan okkar menn hafa ekkert að keppa að nema stoltið. Og þeir sýndu það alla leið.


HK skoraði þó fyrsta markið og var það í kringum 10. mínútuna. Það kom skot á markið og úr frákastinu náðu þeir að þrusa í markið. Ekki endilega alveg gegn gangi leiksins en mér hafði þó samt þótt meira til spilamennsku okkar manna koma fram að markinu.


Það var töluverður léttir að strákarnir okkar náðu að svara fyrir sig aðeins 3 mínútum eftir að hafa lent undir. Róbert Vattnes fyrirliði komst upp vinstri kantinn og inn í teig. Þar kom hann boltanum fyrir Cristian Andres Catano með Maradonnadúið og sá kláraði færið smekklega.


Ólíkt leiknum í síðustu viku gegn Fram fannst mér enginn daufur punktur koma í þessum leik. Það var eitthvað fútt allan tímann þó að mörkin hafi ekki orðið fleiri. HK-ingar komust í fleiri færi sem þeir hefðu átt að klára en Patryk bjargaði á línu og Arnór Ingi í marki okkar var sprækur í bolta sem hefðu hæglega getað endað í markinu.


En þrátt fyrir að færin hafi verið hættulegri hjá HK var meira vit í spilamennsku Leiknismanna og þeir fengu sín færi líka. Þau voru bara ekki eins hættuleg þegar allt var búið og gert.


Danni Finns var ekki eins áberandi í kvöld og hann var í síðustu viku. Hann átti nokkrar góðar sendingar og er öryggið uppmálað en menn voru ekkert að bíða eftir honum að gera eitthvað. Catano er lítill orkubolti sem skemmtilegt er að fylgjast með. Muniði þegar við vorum með japanskan smástrák í meistaraflokki að reyna að leika listir sínar og ekkert kom út úr áður en hann yfirgaf svæðið. Catano er margfalt skemmtilegri leikmaður, fljótur, leikinn og baráttuglaður. Vonandi nær hann að stíga skrefið upp sem nothæfur Meistaraflokksleikmaður.


Viktor Marel var sívinnandi einn frammi í liði Leiknis en tók nokkrum sinnum vondar ákvarðanir þegar hann hefði betur mátt gefa boltann á samherja í betra færi. En hann varð nokkrum sinnum fyrir því að vera á hinum enda slíkst spils líka. Kominn í gott færi en fékk ekki boltann þar frá félögunum. Viktor átti svo engan smá sprett upp völlinn með boltann þar sem hann sólaði nokkra leikmenn, var með aðra í eftirdragi og átti svo skot yfir markið. Ef það hefði endað í netinu hefði það sennilega verið geggjaðasta mark sem ég hef séð á þessum áratug. Það er fullt spunnið í þennan dreng.


Það var einkar áhugavert að sjá hversu góður stuðningurinn er við strákana í 2. flokki. Það var meira að segja kreist út ein "Leiknir!!!" syrpa og heimamenn áttu margfalt færri stuðningsmenn í stúkunni. Þetta var fínasta skemmtun aftur og enn meiri skemmtun en síðast. Nú eru 2 leikir eftir af sumrinu hjá strákunum. Sá næsti er 11.sept. heima á Leiknisvelli gegn Völsurum. Ég stefni á mætingu þá. Mæli með....


110 views0 comments

Comments


bottom of page