Okkar menn sóttu sigur gegn ferskum lærisveinum Magnúsar Más í Mosó í kvöld. Það var afrekað með miklum yfirburðum í rétt rúmlega einn hálfleik og svo með því að rétt svo standa af sér 40 mínútna áhlaup. En þrjú stig og toppsætið okkar í aðra viku!
Það var við flottar aðstæður sem boltinn fór að rúlla í Mosfellsbæ í kvöld. Og okkar menn byrjuðu leikinn af krafti með því að opna vörn gestgjafanna strax og skora svo á 6. mínútu. Þar var Daði Bærings arkítektinn með geggjaðri sendingu, a la Danni Finns inn fyrir vörnina á Sólon sem var ekki lengi að finna Vúk Óskar Dimitrijevic sem klikkar ekki óvaldaður þessa dagana. Ljúft að vera komnir yfir snemma leiks enn eina ferðina og geta andað rólegar í framhaldinu.
Restina af fyrri hálfleik spiluðu Leiknismenn af sama öryggi og toppliði deildarinnar sæmir. Það kom ekkert fát á menn, þeir töluðu vel saman sín á milli og héldu boltanum innan sinna raða meira og minna öllum stundum. Virkilega ánægjulegt að sjá. Einhverjir vildu kannski sjá þá aðeins graðari en það vita allir sem vilja vita að Afturelding getur skorað og því mikilvægt að velja tímasetningu árása af kostgæfni. Okkar menn áttu nokkur færi á meðan Smitarinn snerti boltann aldrei með höndum í fyrri hálfleik. Hann fékk sendingar á sig líklega bara til að honum yrði ekki kalt.
Vondar fréttir bárust þegar Djúsflugan Danni Finns lagðist í plastið og hélt um lærið að mér sýndist. Man ekki til þess að það hafi verið eftir högg en vonandi er hann ekki lengi frá. Árni Elvar kom inn og leysti hann af á 38. mínútu.
Rétt undir lok fyrri hálfleiks skoraði Sólon eftir stoðsendingu frá Sævari Atla. Hann lætur segja sér tvisvar að klára þannig færi. Algerir yfirburðir okkar manna og ekki laust við að meistarabragur sé yfir liðinu. Ef við gætum bætt við öðru marki í snemma í seinni hálfleik væri hægt að byrja að hvíla menn og taka fagmennskuna á þetta.
Seinni hálfleikur byrjaði svo með látum. Sólon komst í gegn eftir flotata sendingu frá Daða aftur og skoraði 3. markið þegar 2 mínútur voru liðnar. Stormsenterinn er kominn í gang og þá er voðinn vís. Allt eftir bókinni og afslöppuð þrjú kortér framundan.
Djók! Ég var að pósta seinna marki Sólons á Insta þegar boltinn var kominn í okkar net. Bara eitthvað sprellispil inn í teiginn og allt opið og heimamenn búnir að klóra aðeins í bakkann með 40 mínútur til stefnu.
Það sem á eftir fylgdi var í raun eins og að horfa á útbrenndan fyrrum heimsmeistara í þungavigtarhnefaleikum mæta ungum og efnilegum verðandi meistara. Markið var eins og upper-cut sem vankaði okkar menn og það varði út leikinn. Þeir voru á köðlunum það sem eftir lifði leiks og tóku fullt af höggum en stóðu þau af sér að mestu. Allt í einu voru þeir seinni í alla bolta, töpuðu skallaeinvígum og heimamenn óðu í færum. Miðjan var gefin eftir til þeirra rauðklæddu og Smitarinn þurfti allavega einu sinni að taka verulega á honum stóra sínum. Maður var hálft í hvoru að fara yfirum af stressi og imponeraður að sjá hversu ágengir strákarnir hans Magga voru þrátt fyrir að vera búnir að grafa sér svona djúpa holu til að byrja með. Það má eiginlega segja að liðið okkar var jafnlélegt í seinni hálfleik og það var gott í þeim fyrri. En það voru þeir sem skoruðu mörkin 3 og fyrst þeir sigldu þessu með herkjum í 2-3 sigur á útivelli, þá kvartar maður ekki. 2. mark heimamanna kom semsagt loksins í uppbótartíma en þar við sat.
Okkar menn voru vel þreyttir löngu fyrir lokaflautið enda 3. leikurinn á 9 dögum. Menn eins og Sævar og Sólon gáfu allt í baráttuna samt og þó liðið náði ekki að þétta sig og taka völdin aftur í seinni hálfleik, þá var þetta ekkert andleysi eða aumingjaskapur. Bara eitthvað smá bögg sem þeir náðu að lifa af sem betur fer fyrir okkur öll. Þetta var önnur svona törnin í röð og nú fá þeir vikufrí fyrir heimsókn hinna Leiknismannanna á Domusnovavöllinn á frídegi verslunarmanna. Siggi og strákarnir koma þeim aftur í stand, og vonandi Bjarka, Ósa og Danna líka.
Júlímánuður hefur verið okkur fjandi góður í Breiðholtinu. 5 sigrar og 1 tap. Toppsætið er okkar og það ætti ekki að breytast í næstu umferð ef menn hvílast vel og mæta rétt stemmdir gegn nöfnum okkar. Operation Pepsi Max er svo sannarlega í fullum gangi og það er gaman hjá okkur í 111.
Comments