top of page
Writer's pictureLjón

Draumurinn lifir!

Sólon Breki Leifsson tryggði Leikni sigur í uppbótartíma gegn sprækum Keflvíkingum og hélt þar með von Breiðhyltinga um að spila meðal þeirra bestu á lífi. Þvílíkt lið! Þvílík leiktíð. Partýið heldur áfram.

 

LEIKNIR 1 - 0 Keflavík

1-0 Sólon Breki ('92)

Áhorfendur: 238


Sjáiði hvernig eins leiks bann fer með #GAMEFACE tveggja leikmanna?


Eins og kom fram í upphitun fyrir þennan leik var Keflavík í besta 5-leikja formi Inkassodeildarinar og því sýnd veiði en ekki gefin. Þeir unnu Þór í síðasta leik og það mátti búast við hörkuleik á Leiknisvelli. Við fengum það svo sannarlega.



Nokkuð jafnræði var með liðunum í upphafi leiks en uppúr 15.mínútu fóru okkar menn að finna fjölina betur og hið alræmda svægi (á ég að hætta að nota þetta orð?) þeirra fór að kræla á sér. Á meðan Keflvíkingar ætluðu greinilega að treysta á skyndisóknir voru okkar menn léttir á fæti og komust í mörg færi. Fullt af hornspyrnum og alls konar spila milli kanta og bara yfir það heila virkilega gaman að horfa á það sem strákarnir voru að gera. Það eina sem vantaði var markið, helst tvö. Nacho poppaði upp með skalla í stöng undir lok fyrri hálfleiks og svo átti Sólon gott skot sem Sindri í marki gestanna varði vel og Sævar var stuttu frá að klára úr frákasti. Ef Leiknisfólk hefði fengið að velja þá hefði fyrri hálfleikur verið cirka 15 mínútum lengri því markið lá í andskotans loftinu. En 0-0 í hálfleik og menn þurftu þá bara að spýta í lófana og taka á móti því sem Suðurnesjamenn ætluðu að henda í seinni hálfleikinn. Það er eitthvað sem myndi vera kvíðavaldanandi í fyrri umferðinni en þið munið....svægið!



Eins og við var að búast breyttist leikurinn aðeins í seinni hálfleik en það er ekki hægt að segja að Leiknir hafi gefið frumkvæðið frá sér þó að gestirnir hafi fengið fleiri færi í þeim seinni en þeim fyrri. Það var ekki alveg sami léttleiki yfir spili okkar manna enda gestirnir farnir að færa sig uppá skaftið en engu að síður voru menn að spila sig í góðar stöður og þreifa fyrir sér efst á vellinum. Skipulagið var skrambi gott og maður nagaði sig í handabökinn að hafa ekki fengið 1 til 2 mörk í fyrri hálfleik. Þá hefði þessi seinni hálfleikur verið að spilast alveg eins og síðasti leikur með yfirvegun og fagmannlegar tæklingar í fyrirrúmi. Á 66. var þeim Erni og Hjalta skipt út fyrir Ingó og Gyrði. Ernir hefur verið tæpur í bakinu en Ingó hefur komið inn í taktískum tilgangi.


Það tók smá tíma að ná jafnvægi í liðinu eftir þessar skiptingar. Undirritaður furðaði sig á því að Gyrðir væri framar á miðjunni en Árni Elvar á tíðum en var sokkaður þegar Gyrðir átti flotta sendingu í gegn upp kantinn og hætta skapaðist. Ingó var svoldið fastur á hægri kantinum og með Stjána í sóknarhug fyrir aftan hann voru gestirnir svolítið að uppskera upp þann kant til að byrja með.


Þegar 15 mínútur lifðu af venjulegum leiktíma komust gestirnir í gott færi einmitt upp þann kant og fengum við óverjandi þrusu á okkur í þverslána og allavega 40% yfir línuna áður en boltinn fór út aftur. Það var einhver að nota "Get out of Jail Free" kortið sitt þarna! Nú var að drulla þessu í gang eða sjá tímabilið fjara út í jafntefli eða tap.



Sólon og Sævar voru sprækir eftir þetta. Fengu færi hvor sem nýttust ekki alveg nógu vel en restin af liðinu var ekki alveg með á nótunum og menn voru svolítið að tapa áttum í baráttunni enda erfitt að bæði sækja 3 stig og halda strúktúr í vörninni þegar seint er liðið á leikinn.



Ef maður vissi ekki betur var eins og bæði lið væru að sætta sig við gagnslaust jafntefli á lokamínútunum en menn skora víst ekki með því að hlaða inn bara sókndjörfum mönnum og opna á allt í vörninni. Þessir strákar eru ekki fæddir í gær. Eftiráaðhyggja var augljóst að þetta mark kæmi og alger óþarfi að æsa sig yfir neinu. Stefán Árni, sem var því sem næst tekinn úr sambandi í seinni hálfleik, komst í gegn á vinstri kantinum og á einhvern ótrúlegan hátt var Sólon óvaldaður inni í teig. Hann fékk langa sendingu fyrir og... draumurinn lifir með flautumarki. Það skyldi þó aldrei vera.


Hnetuskel:

Ótrúlega sterkt að klára svona leik á heimavelli. Við sáum flott spil og góðan varnarleik og fínustu baráttu líka gegn sterku liði sem þorði ekki að gefa of mikinn sjéns á sér. Það er hrós fyrir okkar menn að þeir krefjist meiri virðingar en áður á vellinum.



Leiknismaður leiksins: Eyjólfur Tómasson varði dauðafæri sem hann sá seint og var á leiðinni í netið og var öruggur í öllum sínum aðgerðum. Hávær að skipa fyrir og er að stíga upp feiknasterkur núna þegar félagið er löturhægt að færa alla spilapeningana inn á miðju borðsins. Við getum haldið áfram að veðja á Eyjó!


Aðrir ferskir: Þeir eru fjölmargir. Nacho heldur áfram að sýna hörkuleik og var óþolandi í bakinu á öllum sem þóttust ætla að ná að búa til eitthvað inni á okkar vallarhelmingi í rólegheitum. Það skemmir svo ekki að af honum stafar alltaf ógn í hornspyrnum. Munaði engu í kvöld. Bjarki kom aftur inn í liðið eins og flís við rass eftir bannið alræmda. Nacho hafði tekið meira af skarið í síðasta leik en það var enginn misskilningur í gangi því Bjarki var að venju að skipa mönnum fyrir verkum í hæstu hæðum vallarins og var, ótrúlegt en satt, næstum búinn að skora sitt fyrsta Leiknismark og það með fætinum! Ósvald og Stjáni voru mjög sprækir fram á við og til í þetta. Þeir áttu báðir nokkar fyrirgjafir sem hefðu hæglega getað endað sem stoðsendingar. Sólon og Sævar voru báðir nokkrum sinnum nálægt því að skora. Sá fyrrnefndi yfirleitt í færum sem voru sköpuð af öðrum að miklu leyti á meðan gulldrengurinn var nokkuð í því að spila sig sjálfur í færi en það vantaði svo bara herslumuninn á því að boltinn drullaði sér yfir línuna. Sólon tekur forrystuna í markahrókskeppninni en þeir geta tekið það stríð inn í Fjölnisleikinn í næstu umferð.


Hvað má betur fara?: Góð spurning. Ekkert! Skora fyrr? Undirritaður er ekki nógu fróður um knattspyrnu til að geta bent á eitthvað sem vantaði uppá í kvöld. Baráttan og viljinn voru til staðar og þá er rúmlega hálfur sigur unninn. Að hafa svo hæfileikamenn innan liðsins í öllum stöðum, fleytir liðinu restina af leiðinni.


Hvað nú?: Draumurinn um sæti í Pepsi-Max deildinni næsta sumar lifir enn og það fram á leik við Fjölni laugardaginn 14.sept. Það er ekki ónýtt að vera enn með sjéns þegar hitamælirinn er kominn niður fyrir tveggja stafa! Það þarf enn margt að fara okkur í vil og markatalan í sumum af þessum tilfellum sem gætu komið upp er okkur óhagstæð en hvað um það? Við erum með og þetta er ennþá gaman. Ég vitna bara í setningu frá góðu NFL liði í denn: "Why not us? Why not now?"


Sjáumst á Extravellinum í næstu viku! PSA: Það er ekki hægt að kaupa tyggja þar!


P.S. misstir þú af Ljónavarpinu í vikunni? Drífðu þig að hlusta áður en þetta selst upp. Við ræddum við "Vélina" um allt milli himins og jarðar. Aðallega fótbolta samt. Nálgast þetta hér.



111 views0 comments

Comentários


bottom of page