top of page
Writer's pictureLjón

Dásamlegt drama á Seltjarnarnesi

Updated: May 25, 2019

Okkar menn tryggðu sér öll 3 stigin á Seltjarnarnesi í kvöld í kaflaskiptum en þó aldrei bragðdaufum leik við Gróttumenn.


 

Grótta 2 - 3 LEIKNIR

0-1 Vuk Óskar Dimitrijevic ('1) 0-2 Nachoman ('3) 0-3 Stefán Árni Geirsson ('46) 1-3 Óliver Dagur Thorlacius ('60) 2-3 Pétur Theódór Árnason ('77)

Sumarið er loksins komið í almennilegan gang eftir þetta frábæra kvöld á Seltjarnarnesinu. Geggjað veður, flott umgjörð hjá heimamönnum og strákarnir okkar mættu galvaskir til leiks og gengu í verkið af áræðni. Það þarf ekkert meira til að staðfesta að þetta er besta föstudagskvöld mánaðarins til þessa....en þetta var enginn göngutúr í garðinum sko.



Eftir tap á heimavelli fyrir Njarðvíkingum fyrir nákvæmlega viku síðan voru margir stuðningsmenn Leiknis að glíma við það sem á góðri íslensku kallast "reality check" þessa vikuna. Væru örlög Leiknis að berjast við að skilja sig frá botnliðum deildarinnar eða búa hæfileikar í þessu liði til að spila aðlaðandi og árangursríkan bolta sem getur tryggt einhvers konar stíganda fyrir næsta tímabil með vonarglætu um að spila einhvern tíma aftur í Pepsi? Þessum spurningum var kannski ekki svarað til fullnustu í kvöld en það má allavega staðfesta að það er virkilega spennandi og gaman að horfa á strákana okkar spila. Þetta var 1. deildarbolti í sinni bestu mynd.


Það ber að hrósa Gróttumönnum fyrir flotta umgjörð. Undirritaður dansaði inn á þeirra útgáfu af Ljónahittingi og var virkilega sáttur að sjá fína mætingu, bjór á krana á mjög svo vægu verði ásamt fínustu pizzum frá Rauða Ljóninu, einnig á vægu verði. Svo mætti aðstoðarþjálfarinn og tók nettan töflufund a la Heimir Hallgríms, með myndböndum og öllu. Hann hafði orð á því að byrjunarlið Leiknis kæmi mönnum á óvart og að okkar menn virtust ætla að pakka í vörn miðað við leikmannavalið. Annað átti eftir að koma á daginn.


Svona leit þetta út í kvöld í upphafi leiks

En það voru ekki bara andstæðingarnir sem voru hissa á leikmannavali Stebba Gísla. Í byrjunarliðið vantaði Sólon Breka, stormsenterinn okkar og virtist Sævar Atli eiga að sjá um sóknarspilið einn. Hjalti Sigurðs, sem öllu jafna er talinn miðjumaður, tók byrjunarliðssæti Stjána í hægri bak. Þar að auki var ekkert pláss fyrir Ingó sem hafði tekið út bann í síðasta leik. Annað hvort var stjórinn okkar að reyna að vera mjög varkár eða hann hafði tromp á hendi sem við vorum ekki að sjá. Sem betur fer var það hið síðarnefnda. Árni Elvar og Ernir, sem komu inná í hálfleik gegn Njarðvík, fengu nú byrjunarliðssæti á miðjunni.


Skemmst er frá því að segja að okkar menn mættu dýrvitlausir til leiks, gargandi skipunum á milli sín og staðráðnir í að taka frumkvæðið frá fyrstu sekúndu. Þeir gerðu gott betur og tók forystuna á 2.mínútu leiksins þegar Árni Elvar átti flotta fyrirgjöf á Vuk inni í teig sem skallaði boltann í netið og róaði taugar allra gestanna. Heimamenn voru einfaldlega teknir í bólinu sem sást helst í því að Leiknismenn pressuðu á þá í útspörkum sem Gróttumenn vilja spila stutt og okkar menn glímdu boltann af þeim og sköpuðu ítrekað glundroða í markteig heimamanna. Annað markið kom á 4.mínútu. Aftur var það fyrirgjöf frá Árna (gott ef það var ekki horn) og aftur var það skallamark. Nacho var þar að verki. Keimlíkt marki Vuk en þó úr hinni áttinni ef ég man rétt. Þvílík byrjun, mikil gleði í stúkunni þar sem vel var mætt af Leiknisfólki....og Binna Hlö :)


3 stig ahooooy!

Þá var næsta verkefni. Að halda haus eftir draumabyrjun og ekki leggjast í nauðvörn því Grótta er víst stórhættulegt lið sem sækir hratt þegar menn gleyma sér. Þar hafði Stebbi Gísla undirbúið strákana vel líka. Það var áfram gott tal milli manna og héldu þeir boltanum mikið betur en í síðustu 2 leikjum. Bakverðirnir voru varkárari framávið en í síðustu leikjum en engu að síður skunduðu þeir þangað og sköpuðu alls konar áskoranir fyrir vörn heimamanna. Holningin á okkar mönnum var bara allt önnur en áður. Vil ég í því samhengi sérstaklega nefna Erni sem kom inn í byrjunarliðið eins og maður sem ætti harma að hefna og fór spólgraður í allar tæklingar til að vinna þær. Það er í raun erfitt að finna leið fyrir Ingó aftur inn í byrjunarliðið miðað við spilamennskuna á miðjunni í kvöld. Fyrri hálfleik lauk án áfalla og menn glaðir í bragði í stúku og á (gervi)grasinu.


Seinni hálfleikur hófst eins og sá fyrri, með draumamarki strax á 2. mínútu hálfleiksins. Stefán Árni fann sig mjög nálægt markinu með lappir alls staðar í kring en náði að tálga út æskilegt færi og einfaldlega sett´ann í netið. 0-3 og allir úr 111 voru hlæjandi glaðir í sambafíling. Stefán Árni hefur sýnt þvílík gæði í byrjun móts og hafði einhver í stúkunni orð á því að hann þyrfti að fara að róa sig enda var Rúnar Kristinsson, raunverulegur eigandi drengsins, mættur í stúkuna og við viljum ekki missa hann í júlí af þessum lánssamningi.


Það var ekki hægt að ætlast til að Gróttumenn legðust niður í volæði og á 61.mínútu voru þeir búnir að taka völdin í leiknum áður en góð fyrirgjöf á fjærstöng endaði hjá Óliver Degi sem afgreiddi þrususkot í netið framhjá Eyjó. Ekkert við þessu að kvarta. Þeir héldu svo pressunni á okkur næstu mínúturnar og enduðu með því að skora annað mark á 78.mínútu þegar Gyrðir var að reyna einhverja bringusendingu inn í eigin teig sem gæti alveg eins verið skráð sem stoðsending á hann. Þetta gerðist eftir mörg horn og álag á Bjarka, Nacho og félaga í vörninni. Þetta skyldi þó aldrei enda með gagnslausu stigi eða verra fyrir okkar menn?


Gróttumenn tóku vel á móti okkur með veitingum og vingjarnlegu viðmóti. Kunnum við þeim bestu þakkir fyrir

Sólon og Daði Bærings komu inná eftir markið fyrir Vuk og Gyrði og Sólon lét strax til sín taka í að halda boltanum uppi og búa sér til pláss með dólgslátum á réttum vallarhelmingi fyrir boltann. Síðustu 15 mínúturnar voru ekki fyrir hjartveika Leiknismenn. Okkar menn lönduðu sigrinum og við í stúkunni fengum spennu fyrir allar eittþúsundogfimmhundruðkrónurnar okkar en í sannleika sagt þá voru strákarnir heldur glæfralegir með lokamínúturnar. Eins og áður segir er Grótta með ungt lið sem sækir hratt og það var algerlega óþarfi að vera með 5-6 Leiknismenn inni í teig Gróttu að reyna að skora 4. markið þegar Bjarki og co. voru að hreinsa háloftabolta og rétt ná að bjarga í horn ítrekað og Eyjó þurfti meðal annars að taka heimsklassa vörslu í einu slíku tilviki. Það er ekki nokkur spurning að Stebbi Gísla og þjálfaraliðið fara yfir þetta og við vonumst til að eiga náðugri lokamínútur næst þegar við sitjum í stúkunni með krosslagða fingur, sveitt enni og eins marks forystu. En ég ítreka að það vantaði ekki eitt prósent uppá skemmtanagildið.

Hnetuskel:

Baráttusigur og fullt fyrir menn að læra af og gleðjast yfir. Það er greinilega flottur andi í hópnum og góð samkeppni um stöður, sérstaklega á miðjunni. Í fyrri hálfleik sérstaklega virtist vera dagsskipun að halda boltanum betur innan liðsins og örvænta ekki þó að það þyrfti að senda boltann afturábak og jafnvel á Eyjó í markinu til að fá andstæðingana aðeins framar. Þetta svínvirkaði og þó að fullt af sendingum hafi farið á mis var pælingin yfirleitt góð og maður getur gert sér vonir um að mistökum fækki hægt og bítandi og það fari að styttast í fyrsta hreina lak sumarsins.


Leiknismaður Leiksins: Eyjó bjargaði 2 stigum á lokamínútunum og átti fullt af háloftainngripum sem hefðu getað farið á versta veg hjá óreyndari og smeykari markverði. Það er ekki að ástæðulausu að hann er talinn bestur í deildinni. Hann var líka óvenjuhávær í að skipuleggja vörnina og leik liðsins þarna úr öftustu línu. Fíla það. Áfram þú, Eyjó!


Aðrir Ferskir:

Margir! Flestir!

Ernir var, eins og áður segir, óður í að sanna sig og minnti á hund með bein í kjaftinum. Hann sleppir þessu sæti seint held ég. Árni Elvar tók föst leikatriði og horn og átti tvær stoðsendingar á 4 mínútum. Það var ljúft að fylgjast með honum taka byrjunarliðstækifærið opnum örmum. Stefán Árni hafði aftur heilmikil áhrif á leikinn og skoraði markið sem á endanum tryggði okkur sigurinn. Hann komst oft í opin svæði en nýtti sér það ekki nógu vel. Hann er ekki leiftursnöggur á sprettinum en þeim mun betri í návígi með hraðabreytingar og að leika á menn. Það er ekki hægt að fá allan pakkann í 18 ára pilt á lánssamningi, en þessi er fjandi nærri því. Hands off þartil í október Rúnar! Sævar Atli var að venju sprækur frammi og fékk fullorðinsskammt af hnjaski í verðlaun frá heimamönnum. Hann skoraði ekki en það var hreinræktuð óheppni frekar en framtaksleysi. Kemur bara næsta föstudag.


Sumir þurfa meira en uppbótartímann til að róa taugarnar

Hvað má betur fara?

Stóri hluturinn sem er enn ólagaður í leik liðsins er að fyrirgjafir fá allt of oft að rata á höfuð illa valdaðra andstæðinga inni í okkar teig. Það er sérstaklega vont að sjá hversu oft boltar fá að skoppa í teignum og menn taka ekki af skarið með að hreinsa þetta bara burt. Það er spurning hvort Bjarki og Nacho þurfi smá meiri tíma til að læra inná hvorn annan og finna leið til að stjórna umferðinni í teignum betur saman. Þeir virðast vera alveg með þetta annað slagið en það eru undantekningarnar og hikið sem skapa mörkin og þau hafa einfaldlega verið of mörg hingað til.


Hvað nú?

Nú setjum við after-sun á smettið og jafnvel 2-3 bjóra í það og vonumst eftir áframhaldandi blíðu á himninum. Það er ólíkt skemmtilegra að sigla inn í helgina með svona sigur í farteskinu. Takk fyrir það strákar! Þeim hlýtur að vera létt eins og stuðningsmönnum. Svo er það bara myndbandsgreining og heimsókn frá Ólafsvíkurstórveldinu eftir viku. Nacho verður ekki í vandræðum með að peppa liðið fyrir gömlu félagana (ef það er eitthvað af þeim ennþá þarna) og eftir að Víkingar sigruðu Þórsara í kvöld eru þeir í 2. sæti deilarinnar með bestu vörnina. Bara búnir að fá 1 mark á sig. Þessir leikir verða ekkert auðveldari eftir því sem á líður en þeir verða vonandi áfram skemmtilegir. Við erum í 5.sæti sem stendur en endum 4.umferðina í 6.sæti ef Framarar sækja 3 stig til Grenivíkur á morgun.




211 views0 comments

댓글


bottom of page