LEIKNIR 0 - 2 Fjölnir
Jóhann Árni Gunnarsson 14.
Ingibergur Kort Sigurðsson 70.
Áhorfendur: 248
Topplið Fjölnis úr Grafarvogi kom í heimsókn í kvöld í 10. umferð Inkasso-deildarinnar og fór sanngjarnt með sigur af hólmi. Það vantaði ekkert uppá að okkar menn mættu klárir í slaginn og gáfu gestunum leik. Það verður ekki tekið af þeim eða okkur.
Eftir góðan 1-3 sigur í Keflavík í síðustu viku hélt Siggi trú við sama byrjunarlið og í þeim leik. Lítið við því að kvarta. Gestirnir voru án lykilmannsins síns í Alberti Brynjari Ingasyni en það kom ekki í ljós fyrr en byrjunarliðin voru kynnt og því jákvæð teikn fyrir okkur stuðningsmenn þar sem hann sá nánast einn og óstuddur um að pakka Leikni saman í bikarnum á gervigrasinu í vor.
Leikurinn byrjaði líflega og okkar menn greinilega með mikil og góð fyrirmæli um að halda línunni og tala saman enda Fjölnisliðið einstaklega gott í að refsa minnstu mistökum. Menn voru samt sem áður óhræddir við að sækja þegar tilefni var til. En strax á 13.mínútu bar til tíðinda þegar Nacho fór í skallaeinvígi sem hann átti lítinn sjéns í og uppskar aukaspyrnu sem virtist vera inni í teig en dómari leiksins gaf hana alveg á línunnni fyrir framan teig. Þetta var óþarfa harður dómur en að sama skapi ekki snjallt af Spánverjanum knáa að láta gabba sig út í þetta. Fjölnismenn gerðu 2 gabbhreyfingar í spyrnunni áður en Jóhann Árni setti hann í markmannshornið. Eyjó var alveg í þessu en kraftur skotsins virtist bera hann ofurliði og í netið fór boltakvikindið.
Eins og áður segir er Fjölnisliðið vel skipulagt og beitt fram á við og því mátti búast við að þeir myndu grípa gæsina þarna og þjarma verulega að okkar mönnum. Það verður að segja strákunum okkar það til hróss að sú varð ekki raunin. Vissulega voru Fjölnismenn alltaf líklegri en þeir áttu ekki náðugan dag í dag í Breiðholtinu. Þeir þurftu að hafa fyrir öllu og í raun er ekki hægt að telja mörg hættuleg færi í fyrri hálfleik eða mistök í liði Leiknis. Menn virtust spila áfram eins og staðan væri 0-0. Gyrðir átti meira að segja óvænt skot af löngu færi í þverslá Fjölnismanna um miðjan hálfleikinn. Það var ekkert annað í stöðunni en að þrusa og átti markvörðurinn ekki sjéns ef þetta hefði verið 10 sentímetrum neðar.
Seinni hálfleikinn byrjuðu okkar menn nokkuð vel án þess að ná að þræða sig eða skot sín í gegnum þéttan varnarmúr gestanna. Ingó kom inná fyrir Danna Finns þegar 10 mínútur voru liðnar af seinni en hann náði ekki að sýna sitt rétta andlit á þessum rúma hálftíma sem hann fékk. Valdi reglulega erfiðar sendingar yfir auðveldar og náði ekki takt við leikinn. Maður bindur vonir við svona skiptingar í þessari stöðu og hafði hún lítil sem engin áhrif.
Þegar tæpur hálftími var eftir af leiknum skipti Siggi Gyrði útaf fyrir Birki Björnsson sem fékk sitt fyrsta tækifæri með liðinu í sumar. Gyrðir hafði verið í baráttuhlutverki sem fyrr í stöðu djúps miðjumanns en hefði mátt vera aðeins sleipari með boltann og völlinn fyrir framan sig, fyrir utan þrumuskotið á slána auðvitað. Kemur sterkur til baka í næsta. Með þessari skiptingu gerði Siggi taktíska breytingu með því að þrýsta Nacho upp og var Birkir vinstri bak með Ósvald í miðverði. Birkir kom ágætlega út og bauð sig heilmikið í baráttunni. Ekkert við hann að sakast.
En rothöggið kom svo á 70.mínútu þegar Ingibergur Kort lék snilldarlega á Ósvald og smellti honum framhjá Eyjó. Þetta lið er hlaðið hæfleikum og þarna kom markið sem þeir verðskulduðu í opnu spili. Eftir þetta var öllum ljóst að það þyrfti kraftaverk til að koma sér aftur inn í leikinn. Það hengdi þó enginn haus og gestirnir fengu að hafa fyrir því að sigla þessu í höfn en það er engu að síður nákvæmlega það sem þeir gerðu.
Hnetuskel:
Mættum betra liði sem stefnir beint upp. Svipað og gegn Þór vorum við bara ekki á sama plani og þeir. Ólíkt Þórsleiknum lögðust okkar menn ekki niður og létu afhöfða sig. Því ber að fagna og vonandi verðum við til enn meiri vandræða á Extra-vellinum í næstsíðustu umferð í september. Það væri ekki leiðinlegt að setja strik í Pepsi-reikning þessa annars ágæta liðs.
Leiknismaður Leiksins: Vuk Óskar
Félagið valdi Vuk og undirritaður samþykkir það svosem. Hann var ekki með boltann í annarri hverri sókn en þegar hann komst á sprett með boltann var hann flinkur og skapaði hættu og gegn svona þéttu liði virtist það allan tímann vera ein líklegasta leiðin til að brjóta múrinn. Hann er að vaxa og finna sig líka í varnarspilinu með restinni af liðinu. Það hefur ekki alltaf verið hans sterkasta hlið.
Aðrir Ferskir:
Bjarki var virkilega hávær og setti tóninn með samskipti liðsins inni á vellinum. Hann verður seint talinn sneggsti leikmaður liðsins og ætti aldrei að fara yfir miðju í opnu spili en það var mjög gaman að sjá hann skipa mönnum fyrir og stíga svoldið uppúr skugga Nachos sem átti líklega sinn versta leik fyrir Leikni í kvöld.
Kristján Páll kom sterkur inn með fínustu upphlaup án þess að hundsa varnarskyldur sínar og gæti hafað hrist Hjalta (sem var meiddur í kvöld) af sér í baráttunni um hægri bakstöðuna í bili.
Þá var Sævar Atli að venju framarlega í flokki að skapa hættu þó hann hafi búið við þröngan kost að þessu sinni. Hann náði að kreista fram einhver skot og fyrirgjafir en átti ekki erindi sem erfiði í kvöld.
Hvað má betur fara?
Það er ekkert launungamál að vörnin okkar er ekki að halda nógu vel. Það eru bara 2 lið í deildinni búin að leka fleiri mörkum. Þau gætu farið uppí 4 áður en 10.umferðinni lýkur en við viljum öll meina að það sé hægt að gera betur. Eini hreini skjöldur sumarsins kom gegn Víking Ó. sem hefur skorað færri mörk en allir í deildinni nema Njarðvík. Þetta er verkefnið fyrir Sigga áður en seinni hluti tímabilsins hefst. Ég er ekki með svörin frekar en hann eða Stebbi Gísla hingað til.
Hvað nú?
Það ætti að vera næsta auðvelt að setja þennan leik í baksýnisspegilinn. Strákarnir stóðu sig ágætlega þrátt fyrir dræma uppskeru í kvöld og því þarf menn ekkert að halda krísufundi eða gera upp eitthvað þrot. Við mættum liði sem var of sterkt fyrir okkur að þessu sinni og leikplanið sem sett var upp til að sneiða framhjá þeirri staðreynd, gekk ekki upp í þessu tilviki. Fram eru andstæðingar okkar í Safamýrinni að viku liðinni. Þeir mæta Þórsurum annað kvöld fyrir norðan og eru í góðum gír. Þeir virðast í rólegheitum vera að reyna að gera upp hug sinn um það hvort stefna eigi upp um deild eftir mörg mögur ár og margumtalað heimilsleysi. Við mætum í stúkuna til móts við Kringluna og styðjum strákana okkar í að kippa þeim á jörðina.
Comments