Strákarnir sigldu skyldusigri gegn Magna Grenivík í höfn af festu og það var margt gott að sjá í leik þeirra í 4-1 sigri.
Áhorfendur: 211
Okkar menn mættu vel stemmdir til leiks í deildinni þetta árið, meðvitaðir um væntingarnar og að um skyldusigur var að ræða gegn því liði sem er spáð verstu gengi í deildinni þetta sumarið. Magnamenn eru sýnd veiði en ekki gefin og mátti búast við líkamlega krefjandi leik fyrir ungu strákana okkar. Spilað var á gervigrasinu fyrir framan á að giska 250-350 áhorfendur í blíðskaparviðri. 5 leikmenn af 11 í byrjunarliðinu voru að spila sinn fyrsta deildarleik fyrir félagið. Ósvald Jarl braut á sér höndina í Bikartapinu gegn Fjölni og því kom Eddi inn í vinstri bakvörðinn í hans stað.
Menn byrjuðu beittir og þjörmuðu strax að norðanmönnum. Sólon lét finna fyrir sér inni í teig og við fengum fyrsta markið á 12. mínútu þegar Sævar Atli tók eigið frákast og kláraði inni í teig. Stefán Árni bætti við öðru marki 4 mínútum síðar eftir arfaslakan varnarleik Magnamanna. Hann kom upp vinstri kantinn og inn í teig og fékk einhvern veginn að skunda upp að markteig þar sem hann dúndraði í markvörðinn og inn. 2-0 og engar taugar að finna hjá okkar mönnum. Þannig stóð í hálfleik.
Við þurftum bara að bíða 10 mínútur í seinni hálfleik eftir því að sigurinn væri tryggður. Flott fyrirgjöf frá Stjána og Sólon setti mark. Hver annar? Magnamenn klóruðu svo í bakkann með marki eftir hornspyrnu á 59.mínútu en það var eini hiksti varnarinnar í þessum leik. Vuk kláraði svo gestina með "Zlatan" kaliber marki á 82. mínútu leiksins. Lokatölur 4-1.
Í Hnetuskel:
Leiknismenn, fyrir utan vond varnarmistök í marki Magna, komu einbeittir og glaðir til leiks. Þeir skákuðu líkamsburðum og hæfileikum gestanna alls staðar á vellinum og sigldu sigrinum í höfn af fagmennsku. Mikið gaman fyrir okkur á áhorfendahólnum.
Maður Leiksins: Stefán Árni Geirsson
18 ára lánsmaður frá KR sem við vissum lítið um en hann hafði greinilega gengið í augun á innanbúðamönnum á æfingum og í æfingaleiknum um síðustu helgi. Hann vann vel til baka, kom sér í góðar stöður og átti fullt af gæðasendingum. Spennandi leikmaður þarna á ferð.
Aðrir Ferskir:
Nacho Heras fékk loksins að spila sinn fyrsta leik fyrir félagið og sýndi glöggt að hann á eftir að nýtast okkur virkilega vel í sumar. Hann er ekki ósvipaður Miro (frá því í fyrra) í fasi en mikið yfirvegaðari á boltanum og fljótari að lesa uppspil andstæðinganna. Hann tók sóknir Magnamanna iðulega úr sambandi áður en þær þróuðust.
SOS (Sævar og Sólon) héldur uppteknum hætti frá því í fyrra með því að skora báðir og skapa. Innkoma fleiri leikmanna í þeirra stöður hefur ekkert nema hvetjandi áhrif á þessa menn.
Vuk kom mjög sterkur inn af bekknum og tilbúinn að hamast. Hann skoraði flott mark en fram að því var hann höfuðverkur fyrir varnarmenn Magna um leið og hann kom inná.
Ingólfur Sigurðsson var í sviðsljósinu vegna væntingar okkar stuðningsmanna og klárlega miðpunktur í uppspili og hefði hæglega getað sett allavega eitt mark en var ekki alveg á skotskónum. Hann fékk nokkrar álitlegar aukaspyrnur en skotin rötuðu illa fyrir hann í dag. Ingó sér völlinn vel en að mati undirritaðs var hann aðeins of oft að leita að erfiðum eða flottum sendingum þegar hann hefði getað látið boltann flæða náttúrulega til þeirra sem voru að taka hlaupin í kring. Það flæði jókst þegar hann fór útaf og Vuk tók við hans hlutverki. Ingó er mikill hæfileikadrengur og því er öll gagnrýni á hann miðuð við væntingarnar sem honum fylgja. Að hafa hann í Leikni er eins og að Reading fengi Gylfa aftur frá Everton. Hann verður lykilmaður í hverjum leik.
Hvað má betur fara?
Liðið fékk þónokkuð af aukaspyrnum og öðrum föstum leikatriðum. Eitt mark uppskarst úr þeim en menn voru virkilega slakir í að nýta aukaspyrnuskot sín í leiknum. Þau lentu yfir markið eða mjög hnitmiðað í varnarveggnum í flestum tilfellum. Vonbrigði þar.
Hvað nú? Það er fullt til að gleðjast yfir og peppstuðullinn fór bara upp ef eitthvað er eftir þennan leik. Þá er mikilvægt að leikmenn haldi sér á jörðinni og þjappi sér saman aftur fyrir næsta leik. Nú er það Afturelding í Mosó á föstudagskvöld og við mætum að sjálfsögðu þangað.
Comments