Strákarnir okkar leggjast á koddann í kvöld á kunnuglegum slóðum eftir fyrirtaksleik í Safamýrinni í dag. Þeir eru nefnilega komnir í 3. sæti í deildinni og í flottri stöðu fyrir framhaldið.
Það skal tekið fram að þegar þeir leggjast til hvílu annað kvöld gætu þeir verið komnir niður í 4. eða 5. sæti aftur en þeir gerðu það eina sem þeir gátu í dag með því að leggja myndarlega af (úti)velli lið sem hafði fullt hús stiga fyrir þessa umferð. Með því fylgir ákveðin yfirlýsing frá okkar mönnum um að þó hikst hafi komið í leik liðsins í byrjun tímabilsins er ekki tímabært að gefa upp á bátinn drauminn um Pepsi Max að ári. Takk fyrir það strákar!
Sterkt byrjunarlið var kynnt og sterkasti bekkur tímabilsins að sama skapi þar sem menn eins og Vélin, Daði og Gyrðir voru klárir þegar kallið kæmi. Það var hins vegar byrjunarliðið sem svæfði leikinn áður en nokkur þeirra kom inná. Fyrsta markið kom eftir nokkrar mínútur og á nokkuð einkennilegan máta. Fyrirgjöf og markvörður heimamanna sveif hátt upp og greip tuðruna en lenti illa og missti boltann skoppandi inní markið. Í 100% tilfella býst maður við að dómarinn eða línuvörður sjái aumur á hanskaklædda manninum en í þetta sinn náðu þeir þessu fullkomlega rétt. Hann hafði stokkið uppá samherja, alveg óstuddur af okkar mönnum og skoraði einfaldlega klunnalegt sjálfsmark með því móti. Við þiggjum það.
Þetta slóg óneitanlega Framara aðeins út af laginu en þeir eru góðir og fullir sjálfstrausts svo það var ekkert í hendi og okkar menn áttu alveg eftir að stíga á bensíngjöfina og klára leikinn sjálfir. Þá hringir maður bara í Vuk Óskar Dimitrijevic og pantar 1 stykki screamer! Við sjáum myndband:
Það sást til Óla Kristjáns, þjálfara FH, yfirgefa völlinn nokkru síðar. Hann var þá líklega búinn að kalla til neyðarfund með lögfræðingum Hafnarfjarðarstórveldisins og munu þeir vinna fram á nótt við að finna einhvern lagabókstaf sem nota mætti til að rifta lánssmningi leikmannsins og fá hann strax í brunastarfið sem bíður í Kaplakrika.
0-2 í hálfleik og okkar menn með þetta, nokkuð létt bara. Guy hafði ekki verið kallaður til að neinu verulegu leyti en Framarar voru ekki með Eyjamönnum efstir með fullt hús stiga fyrir að gefast upp í fyrri hálfleik. Þess vegna setti Vuk bara á þá 3. markið eftir 8 mínútna leik í seinni. Töluvert meira hefðbundið en það fyrra en við þiggjum það auðvitað og menn farnir að horfa fram á stórkostleg úrslit til að hugga sér við með heila viku í fótboltaleysi framundan!
En okkar menn voru einfaldlega ekki hættir. Frá fremsta manni voru menn einbeittir og áreittu illa fyrirkallað heimamenn með enn einu markinu. Í þetta sinn frá duglegasta sóknarmanni deildarinnar og leiðtoga liðsins, Gulldrengnum Sævari Atla Magnússyni. Flott sending á hann á hlaupum með 2 eða 3 í sér og maður beið alltaf eftir að hann tæki snertinguna og aukaspyrnuna en einhvern veginn kláraði stráksi glæsilega framhjá markverðinum og staðan orðin 0-4, nánast hættulega snemma.
Siggi byrjaði strax að rótera og sendi þarna inn til leiks Vélina, Daða og Birki og kallaði þetta gott hjá Danna, Ósvald og Árna. 6 mínútum síðar voru heimamenn komnir með 2 mörk og ljóst að okkar menn voru ekki enn komnir í fyrrnefnt vikufrí frá baráttunni.
Þeir svöruðu kallinu og Máni markamaskína lagði smiðshögg á verkið með því að setja boltann snyrtilega í netið 20 mínútum áður en flautað var til leiksloka. Stórsigur í 6 stiga leik og mikil gleði meðal Leiknisfólks innan vallar sem utan.
Nú tekur við röð 4 leikja sem eru fullkomið tækifæri til að komast á mikið skrið fyrir seinni umferðina. Magni og VíkingurÓ koma í heimsókn og svo er það rúntur í Mósó áður en nafnar okkar frá Fáskrúðsfirði koma í heimsókn. Þetta eru leikir næstu vikna með aðeins meira millibili en hefur verið hingað til og ef menn ætla upp, þá verða þeir að klára þessa leiki. Það er þó auðveldlega hægt að færa rök fyrir því að Leiknir 2020 eigi mikið auðveldara með að mæta jafningjum í deild heldur en fallbyssufóðri sem ætlar að spilla fyrir partýinu. Það má ekki endurtaka Vestra-leikinn, fyrir utan hreina lakið auðvitað.
Áfram veginn! Takk fyrir í dag.
Comments