top of page
Writer's pictureLjón

Þungur rigningarróður

Tækifæri til að taka toppsætið í Lengjudeildinni aftur, rann úr greipum okkar manna í gær þegar Framarar í hefndarhug mættu á Domusnovavöllinn og hirtu öll stigin í því sem hægt er að kalla fyrsta haustleikinn af mörgum.


Mynd eftir: Hauk Gunnars

Gestirnir mættu grimmari til leiks í gær, inni á vellinum og í stúkunni merkilegt nokk. Á báðum vígstöðvum náði Leiknir aldrei almennilega vopnum sínum og því fór sem fór. Það er ekki þarmeð sagt að okkar menn hafi mætt andlausir og lélegir í leikinn. Alls ekki. Það er frekar þannig að Framarar hafi vitað nákvæmlega hvernig þeir ætluðu að spila leikinn og okkar menn hafi kannski ætlað að koma aðeins tilbúnari til að breyta til eftir því hvernig gestirnir kæmu til leiks. Það er gott og blessað að nálgast hlutina þannig og hefur líklega gefið góða raun nokkrum sinnum í sumar en það gekk bara ekki upp í gær.


Það varð snemma ljóst að Framarar ætluðu að sanna að þeir væru verðugir þess að eiga 1. sætið fyrir sig einir og ætluðu ekki að láta Stolt Breiðholts þrykkja 5 mörkum á sig aftur. Þeir voru mjög þéttir fyrir aftan miðju og ákafir í alla bolta þegar þeir voru lausir. Okkar menn svöruðu því svosem ágætlega en því miður fengum við á okkur vont og nokkuð ódýrt mark tiltölulega snemma leiks eða á 18. mínútu þegar Alexander Már skallaði í stöngina og inn. Vélin átti þennan mann en þrátt fyrir mjög flotta frammistöðu í leiknum að öðru leyti, þá voru þetta mistökin sem kostuðu okkur á endanum leikinn.


Til að taka það góða úr þessu þá má segja að það hafi alls ekki komið fát á okkar menn og þeir héldu áfram að reyna gegn öflugu liði og það var nóg eftir af tíma til að jafna. Gestirnir gáfu þó ekkert eftir og héldu fengnum hlut fram að hálfleiksflautunni.


Daði Bærings í skallanum. Mynd: Haukur Gunn

Í leikhléi fengum við stuðningsmenn skammir í hattinn verðskuldað. Það rigndi alveg jafnmikið á þessa 20 Framara sem sungu og kölluðu okkur í kaf. Skammarlegt beinlínis! Það sem er enn meira skammarlegt var að það virtist ekki nema helmingur stuðningsmanna mæta aftur í stúkuna í seinni hálfleik. Leikurinn var á skjá inni í félagsheimili en vonandi sátu stuðningsmenn ekki þar að svamli meðan strákarnir (og við hin) stóðu í barningi í hellidembu að reyna að landa stigi eða stigum útivið. Við sem mættum eftir hléið gerðum okkar besta til að svara kallinu og styðja strákana áfram en það verður að segjast að þetta var niðurlægjandi fyrir okkur stuðningsmenn. Fram er ekki þekkt fyrir að styðja vel við sitt lið í seinni tíð og þeir voru sungnir í kaf af okkur í blíðunni í Safamýri fyrr í sumar. Þetta var sérstaklega sárt í ljósi þess. Við eigum ekki nema 3 heimaleiki eftir í sumar og ef við gerum ekki betur en þetta, þá eigum við ekki skilið lið sem er að berjast til síðasta blóðdropa um sæti meðal þeirra bestu. Við verðum að svara þessu kalli sem stuðningsmenn ef við ætlum að gera væntingar til liðsins á móti.


Í seinni hálfleik var svipað uppi á tengingnum. Framarar voru betri aðilinn yfir það heila en þeir yfirspiluðu okkar menn engan veginn. Bjarki stýrði klappinu og hann átti virkilega góðan leik. Gestirnir gáfu okkur eftir frumkvæðið það mikið að turninn í treyju #4 var margoft kominn vel yfir miðjan völl að hjálpa við að opna virkið sem Framarar höfðu byggt þar. Róðurinn þyngdist eftir því sem á leið og ljóst var að Framarar voru ekki að springa á úthaldi eða viljastyrk. Mistök fóru að láta á sér kræla og lykilsendingar klikkuðu.

Það var svo á lokamínútunum sem boltinn fór í hönd Framara í eigin teig þegar liðsfélagi hans var að hreinsa frá. Þá var það gert að aðalumfjöllunarefni leiksins. Það er gott og blessað ef fólk vill fá 1 stig gefins úr þessum leik og afskrifa það að við vorum lengst af skrefinu á eftir toppliðinu. Ég veit að enn eina ferðina er ég í miklum minnihluta með mína skoðun en ég vil að við vinnum leiki (eða stig) á eigin verðleikum, ekki einhverjum álitadómi sem er tilviljanakenndur og ég neita að hengja mig við þetta eina atvik og nota það sem afsökun.



Hver er þá staðan núna? Þetta var klárlega tapað tækifæri í baráttunni um sæti í Pepsi Max. En 6 stig af 9 í baráttunni við sterkustu liðin er ekki svo slæmt. Það er bara slæmt ef þetta eru þau lið sem við eigum auðveldast með að vinna. Nú þurfa Siggi og strákarnir að sýna okkur að þeir séu búnir að læra á litlu liðin og þá getur allt ennþá gerst. Eins og staðan er núna, þá eru Framarar komnir með forystu í efsta sætið og Keflavík komnir í 2. sætið með leik til góða. ÍBV heldur áfram að safna jafnteflum en þeir og Grindavík gætu hæglega siglt framúr okkur í 3. sætinu ef menn klára ekki sín verkefni á lokasprettinum sem framundan er.



Það verður barist og við verðum að sýna okkar réttu renndur í stúkunni líka kæru Leiknisljón. Nú er loksins búið að opna fyrir fleiri áhorfendur og við höfum 3 heimaleiki til að sýna okkar mönnum að okkur er alvara með að vilja máta okkur aftur við öflugustu stuðningsmannafélög landsins í efstu deild.


Leiknir Fásk í heimsókn næstu helgi. Komasvoooooo!



105 views0 comments

Comments


bottom of page