top of page
Writer's pictureLjón

Gredda í Grenivík

Magni 0 - 3 LEIKNIR

0-1 Daníel Finns ('29) 0-2 Vuk ('72) 0-3 Sveinn Óli Birgisson ('77, sjálfsmark)


Einbeitingin uppmáluð fyrir leik


Það var fallegt um að litast á Grenivík í dag þegar Magnamenn tóku á móti Breiðhyltingum með hlýju og frestun á rigningunni sem búið var að spá. Virkilega vel til fundið hjá staðarhöldurum sem við kunnum bestu þakkir fyrir.


Okkar menn mættu graðir til leiks norður á Grenivík í dag og urðu fyrsta liðið til að sópa til sín öllum stigunum í viðureign við Magna á þeim vígvelli í sumar. Ekki nóg með það heldur tókst þeim að halda hreinum skyldi í fyrsta sinn síðan í maí og skora 3 mörk í leik í fyrsta sinn síðan... á þriðjudag! Þetta var aldrei spurning í dag og það er langt síðan við gátum sagt það eftir 5 mínútna leik hjá Leikni. Frískandi.


Mynd eftir Sævar Geir hjá .net

Byrjunarliðið var þónokkuð breytt en einhvern veginn virðist maður vera farinn að venjast smá hreyfingum alltaf svo engin breyting kom verulega á óvart. Birkir kom inn fyrir Ósa, Hjalti fyrir Stjána, Danni fyrir Vuk, Ernir fyrir Árna og Gyrðir fyrir Daða. Að sögn Sigga í viðtali við .net eftir leik voru þessar heildsölubreytingar eingöngu vegna leikjaálagsins sem er í gangi um þessar mundir en eitthvað segir mér að þetta séu hreint ekki heildsölubreytingar heldur það sem koma skal. "Gefum öllum leik" fær nýja meiningu með nýjum aðalþjálfara.


Einn maður sem tók tækifæri sínu í byrjunarliðinu með báðum höndum var Hjalti Sigurðs sem var maður leiksins í dag, að öllum öðrum ólöstuðum. Danni skoraði sitt fyrsta mark í Inkasso og Ernir kom inn öflugur að venju. Það gæti verið mjög sterkur leikur hjá þjálfa að halda mönnum á tánum í leikmannavali.


Leikurinn spilaðist frá fyrstu mínútu í hag Leiknismanna. Völlurinn virtist vera nokkuð þungur yfirferðar til að byrja með og menn fundu ekki allar sendingar alveg strax en það var strax ljóst að okkar menn ætluðu sér öll stigin og sóttu nokkuð stíft frá upphafi. Magnamenn mættu, þvert á móti, nokkuð líflausir til leiks eftir hetjudáðir í vikunni suður með sjó. Með sigri í dag hefðu þeir híft sig uppúr fallsæti en það kom aldrei til greina að svo færi.


Þrátt fyrir að ekki mörg færi litu dagsins ljós fram að fyrsta marki, voru okkar menn mikið meira með boltann og sýndu jákvæða takta í átt að marki. Að sama skapi voru gestgjafarnir lítið að hafa sig í frammi nema þá kannski í tuði við dómaratríóið sem verður að viðurkennast að var arfaslakt í dag. Ég legg ekki í vana minn að ræða frammistöðu dómara en það voru svona 5 línur settar af dómaranum í dag og það vissi enginn nokkurn tíma hvaða línu hann var að nota. Mjög handahófskennd dómgæsla.


Óumdeildur MoM

Danni Finns skoraði, eins og áður segir, sitt fyrsta mark fyrir meistarflokk Leiknis með aukaspyrnu sem hann þrykkti einfaldlega á nærstöng úr aukaspyrnu og "Stubburinn" svokallaði í marki Magna réð ekki við boltann. Segjum að spyrnan hafi verið svo kröftug að hann hafi hreinlega skotist inn í markið með og aðeins náð að banda hönskunum í boltann eftir að hann var kominn yfir línuna. Glæsilegt hjá þessum unga, uppalda dreng.


0-1 í hálfleik og góður gangur í leik okkar manna en sumarið hefur kennt okkur að eitt mark dugar sjaldnast fyrir öllum stigunum þegar við erum annars vegar og því ljóst að það væri ekki hægt að pakka í vörn og vona það besta í seinni.


Magnamenn byrjuðu aðeins hressari í seinni hálfleik en fyrir utan einn skalla og eitt langskot næstum beint á Eyjó í markinu var ekki mikið að frétta frá þeim annað en pirring. Strákarnir okkar héldu aftur á móti áfram að tala saman, spila boltanum flott á milli sín og þó þeir hafi ekki vaðið í færum allan seinni hálfleik, virtist aldrei vera hætta á að frumkvæðið væri gefið gestgjöfunum.


Okkar menn áttu erindi sem erfiði á endanum þegar Vuk var mættur nánast óvaldaður inni í teig að setja flotta fyrirgjöf Hjalta í markið á 73.mínútu. Þremur mínútum síðar smellti Sveinn Óli í liði Magna hvíta flagginu á loft með því að skalla í eigið mark. Leiknismenn sigldu þessu í örugga höfn í kjölfarið og frekar áhyggjulaus 3 stig í hús með hreinu laki og öll Ljónin bruna urrandi glöð heim í Breiðholtið í kvöld.


Hnetuskel:

Menn mættu tilbúnir til leiks út á land gegn liði sem gæti vel talist óútreiknanlegt eftir síðustu úrslit. Okkar menn létu gæðamuninn telja og refsuðu á endanum faglega. Það er ekkert að kvarta yfir í þessu.


Leiknismaður Leiksins: Hjalti Sigurðsson:

KR-ingurinn kom virkilega öflugur til leiks í dag eftir að hafa lítið komið við sögu í síðasta leik. Hann veit að hann á ekki hægri bakvarðarstöðuna skuldlaust með goðsögnina Stjána andandi í hálsmálið á honum og hegðaði sér samkvæmt því í dag. Hann var sprækur upp og niður völlinn endilangan, átti fullt af gæðasendingum þvert yfir völlinn sem opnaði vörn heimamanna og tók þátt í sóknarspili á kantinum án þess að sína nokkurn bilbug í varnarvinnunni. Þrusuflottur leikur hjá þessum unga leikmanni sem við viljum ekki sjá aftur á miðjunni. Þetta er hans heimahöfn.


Geggjað vallarstæði sem er vel þess virði að heimsækja. Mynd eftir Árna Þór

Aðrir ferskir:

Það var enginn vondur í þessum leik en sérstaklega ferskir voru menn eins og Stefán Árni aftur. Hann var sleipur í uppbyggingum sókna og hundleiðinlegur í varnarleiknum. Vuk kom inn í stöðunni 0-1 þegar 69 mínútur voru búnar og sprengdi sóknarleikinn svoldið upp enda uppskárum við mark frá honum strax 4 mínútum síðar. Alltaf gaman að sjá að hann hefur áhrif á leikinn af bekknum. Birkir var flottur eftir smá ráðaleysi snemma leiks en gaman að sjá mann sem var kominn til KB fá tækifæri með aðalliðinu. Ernir kom sterkur inn að venju með krúsjal tæklingar og baráttu. Allir aðrir sem við ætlumst til mikils af, stóðust væntingar og þökkum kærlega fyrir :)


Hvað má betur fara?:

Afskaplega lítið. Eiginlega vonlaust að segja það. Mér fannst menn fullmikið pirra sig á getuleysi dómarans en skil það fullkomlega því hann hélt engri línu og því erfitt að dansa eftir henni. Það kom ekki að raunverulegri sök því strákarnir kláruðu þetta fagmannlega þrátt fyrir þessar aðstæður.


Hvað nú?:

5. sætið er okkar í bili og leiðréttingin á vondri byrjun sumarsins er í fullu fjöri. Hún heldur áfram á fimmtudag með heimsókn í Njarðvík og vonandi verðum við komnir í þægilegt sæti ofar í deildinni þegar Grótta kemur í heimsókn með blóð á tönnunum 30. júlí. Markmiðið hlýtur að vera að taka amk 4 stig úr næstu tveimur leikjum. Byrjum samt á því að raða saman fyrstu 3 sigurleikjunum í röð með seinni heimsókn sumarsins á Reykjanesið.



149 views0 comments

Commentaires


bottom of page