top of page
Writer's pictureHalldór Marteinsson

Góður sigur á ÍR

Leiknir spilaði í gærkvöldi síðasta leik sinn áður en liðið heldur til Spánar í æfingaferð. Þetta var baráttan um Breiðholt í æfingaleikjaformi þar sem nágrannarnir úr ÍR komu í heimsókn á gervigrasið í Efra-Breiðholti.


Það er skemmst frá því að segja að þetta var hörkufínn leikur hjá okkar mönnum. Liðið hafði töluverða yfirburði úti á vellinum, var mun meira með boltann heilt yfir og náði oft upp alveg ótrúlega skemmtilegu og flottu spili.

Fyrsta mark leiksins kom í fyrri hálfleiknum þegar Vuk skoraði eftir virkilega flott samspil. Það heyrðist jafnvel í einhverjum nota hugtakið tiki-taka þegar kom að því að lýsa aðdraganda marksins.

Leiknir hélt yfirburðunum út fyrri hálfleikinn en náði ekki að bæta við mörkum. En seinni hálfleikurinn var alls ekki gamall þegar Stefán Árni, annar af nýju lánsmönnunum úr KR, átti einn af fjölmörgum ógnandi sprettum upp vinstri kantinn og inn í teiginn. Þar var hann felldur og víti dæmt, hárréttur dómur. Ingó steig á punktinn og skoraði af miklu öryggi, 2-0 og allir kátir.


Það var töluvert af áhorfendum á leiknum, sumir þeirra voru líka mættir til að fara á aðalfund Leiknis sem hófst þegar seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður (Óskar Clausen er nýr formaður og Elvar Geir kominn í stjórn, skemmtilegar fréttir) en þá hafði Leiknir náð að bæta þriðja markinu við. Aftur var um virkilega skemmtilegt spila að ræða þar sem Leiknir nýtti hraða og leikna leikmenn til að sundurspila vörn ÍR. Sóknin endaði svo með flottri fyrirgjöf frá vinstri á fjærstöngina þar sem Sólon Breki lúrði og skoraði ekta framherjamark. Mjög vel gert hjá liðinu.

ÍR-ingar náðu að klóra aðeins í bakkann. Þá áttu þeir langskot vel utan teigs sem stefndi í hægra hornið, jafnvel framhjá, þegar boltinn hrökk af varnarmanni og endaði í hinu markhorninu. Eyjó var þegar farinn af stað í hægra hornið og gat ekkert gert í þessu. Þetta var í raun varla marktækifæri enda náði ÍR lítið að skapa sér í leiknum gegn fínum varnarleik Leiknismanna. Nacho fékk tækifæri í byrjunarliðinu og spilaði þá í miðverðinum við hlið Bjarka. Þeir voru flottir saman og verður áhugavert að sjá hvort þetta sé miðvarðaparið okkar fyrir sumarið.



Leiknir átti þó enn eftir að bæta við einu marki. Magnús Andri hafði átt hörkuskot rétt fyrir utan D-bogann sem markvörður ÍR varði vel en stuttu síðar fékk Magnús Andri boltann aftur af svipuðu færi, hafði tíma til að stilla boltanum upp og lét vaða. Í þetta skipti söng boltinn í netinu, niðri í vinstra horninu. Virkilega flott mark sem kórónaði mjög gott kvöld hjá Leikni.


Ef það er eitthvað að marka þennan leik þá verður stuð að horfa á Leikni í sumar. Sóknarleikurinn var beittur og hugmyndaríkur, skipulagið var gott, þeir sem komu inn á voru fljótir að detta í synk með liðinu og bara heilt yfir verulega góð frammistaða sem fyllir mig bjartsýni fyrir sumarið (þótt þetta hafi vissulega bara verið æfingaleikur og bara ÍR...). Það var ekki bara það að liðinu leið vel að stjórna leiknum og finna lausnir gegn liði sem sat aftarlega heldur fékk ég á tilfinninguna að Leiknir geti líka verið mjög sterkt í því að sitja aftarlega, verjast skipulega og refsa svo grimmt með skyndisóknum.

89 views0 comments

Comments


bottom of page