top of page
Writer's pictureLjón

Hverfishetjurnar enn í sjéns!

Besta lið Inkassódeildarinnar er komið upp í Peffsídeildina góðu en þeir þurftu að hafa heilmikið fyrir því eins og við vissum öll. Öllu sem var lofað í upphitun fyrir leikinn, gekk eftir...fyrir utan skemmtanagildið. Það var fyrsta flokks þrátt fyrir aðstæður.


Fjölnir 1 - 1 LEIKNIR

1-0Ingibergur Kort ('77) 1-1 Gyrðir ('81)




Það var flott mæting í Grafarvoginn hjá stuðningsmönnum beggja liða í dag. Miðað við aðstæður allavega. Heimaliðið þurfti stig til að tryggja sig aftur í deild þeirra bestu og okkar menn þurftu að ná í eitthvað og vona það besta annars staðar til að halda spennu í þessu fyrir lokaumferðina. Gestgjafarnir, með markatöluna 13-1 í síðustu 2 leikjum, voru vissulega ógnvekjandi tilhugsun en það er víst búið að þurrka sögnina "að tapa" úr hugum Breiðhyltinga og ekki skemmdi fyrir að Eyjó, Nacho og Bjarki voru búnir að múra fyrir markið á sama tíma og Fjölnismenn höfðu verið að setja upp handboltaúrslit í knattspyrnuleikjum.



Leikurinn fór nokkuð fjörlega af stað og að mestu okkur í hag. Árni Súper stýrði kórnum vel sem skilaði sér vonandi heim í stofu fyrir aumingjana með margumrætt hor. Maður hefði fyrirgefið Sigga fyrir að leggja leikinn upp einfalt og láta strákana hreinsa línurnar og berjast bara fyrir lífi sínu alls staðar en einhvern veginn var mikill gæðabragur á leik okkar manna frá fyrstu mínútu burtséð frá erfiðum aðstæðum. Reyndar var uppstillingin (skv. Twitter-reikningi Leiknis) einhvern veginn á þann veg að Gyrðir, Bjarki og Nacho væru í vörn með Spánverjann í hægri bak og Stjáni uppi á kanti. Það var mikil færsla á liðinu og því lítið að marka uppstillinguna þó að nöfnin í byrjunarliðinu hafi auðvitað stemmt.


Sem fyrr var Stefán Árni sleipur á miðjunni og færði boltann vel upp en Vuk, á vinstri kantinum, var líka skemmtilegur í þessum leik og opnaði vörn gestanna nokkrum sinnum vel í fyrri hálfleik í það minnsta. Fotbolti.net krýndu hann meira að segja mann leiksins. Það er úr mörgum að velja eins og kemur í ljós neðar í þessum pósti. Þó að Leiknismenn hafi reynt að spila boltanum og voru skapandi fram á við voru færin ekki galopin og liðið sem er búið að tróna á toppi deildarinnar meira og minna í allt sumar var alltaf líklegt til að þurfa færri tækifæri til að klára leikinn en okkar menn. Okkur í stúkunni var þó samt sem áður létt að komast inn í hlýjuna á Extra-vellinum í hálfleik með ekkert mark á bakinu og 1-1 í Njarðvík þar sem Grótta var í heimsókn. Það var þó allavega hægt að segja að við værum ekki að fara að fá á okkur 5 eða 7 mörk í dag. En að sama skapi smá áhyggjuefni að ekki væri búið að skora í andlitið á gestgjöfunum miðað við nokkra yfirburði í spilinu.


En hvað um það. Meðvindur með okkur í seinni og aftur mikilvægt að taka á móti taktískum breytingum ef þær væru einhverjar frá verðandi meisturum deildarinnar. Það gekk mjög vel. Frumkvæðið fluttist ekki frá okkar mönnum og jafnvægið hélst í leiknum áfram þó að fyrirsjáanleg væru einhver færi fyrir heimamenn sem þeir nýttu ekki. Sævar Atli kom inná fyrir Árna Elvar að klukkustund spilaðri. Skipting sem sýndi vilja Sigga til að taka leikinn hreðjartökum og sigla þessu í höfn en hafði kannski ekki tilætluð áhrif þegar upp var staðið. Sævar náði ekki að setja stimpil sinn á leikinn eins og hann hefur svo oft áður gert.



Fyrsta markið kom svo á 77.mínútu. Ingibergur Kort fékk boltann inni í teig, með hjálp handleggsins að mati okkar manna og gott ef hann hafi ekki verið rangstæður í þokkabót. Allavega, subbulegt mark sem kom á vondum tíma og ekkert mikið við því að gera. Ekta svona meistarabragur yfir því að ströggla á heimavelli í erfiðum aðstæðum gegn hörkuandstæðingi en klára þetta svo. En við þekkjum okkar menn í núverandi ham. Þetta er ekki búið fyrr en flautað er leikinn af.


4 mínútum síðar var Gyrðir búinn að jafna leikinn. Hornspyrna sem virtist verulega mislukkuð þegar hún lak inn í teig en það var mikið klafs í gangi og Gyrðir Okkar kláraði færið eftir það, ekki í fyrsta sinn sem hann er réttur maður á réttum stað í sumar. Menn reyndu áfram að klára þetta en það var erfitt með heimamenn sem þurftu ekki að sækja sigur frekar en þeir vildu. Þeir komnir í Pepsi og við þurfum að krossleggja fingurna enn fastar fyrir næstu helgi.


Hnetuskel: Annar karaktersigur fyrir okkar menn og okkur Ljónin í stúkunni. Besti stuðningur ársins og vonandi fundu strákarnir fyrir því, skítkaldir í vetrarhörkunum. Við löbbum allir kokhraustir frá Extra-vellinum. Strákarnir unnu sér inn jafntefli og hefðu hæglega getað hirt öll stigin. Þeir unnu baki brotni að því að geta í það minnsta kallað sig áfram ósigraða í seinni umferðinni og uppskáru í þokkabót veika von um að geta gerst laumufarþegar í Pepsi-deildina um næstu helgi.



Leiknismaður Leiksins: Gyrðir Hrafn

Drengurinn skoraði markið okkar sem öðrum, sókndjarfari mönnum tókst illa að skapa. Hann átti líka stuttu áður hættulegasta færi Leiknis sem hefði hæglega getað endað í netinu. Fyrir utan það var hann óþreytandi í baráttunni um allan völl. Ég hef oft haft áhyggjur af því að hann fái ekki bara niðurneglt stöðu miðvarðar eða afturliggjandi miðjumanns svo hann geti haldið áfram þroska sínum í þeirri stöðu. Í staðinn sýndi hann í þessum leik að hann getur hvoru tveggja með ágætum og truflaði spil gestgjafanna í allan dag ásamt því að eiga þó nokkur hlaup upp völlinn með boltann fyrir fæturna eins og hann væri einhver helvísit Stefán Árni! Það komu margir til greina í dag en markið verður að gera útslagið og er hann vel að þessu kominn.


Aðrir ferskir:

Vuk sýndi sitt rétta andlit í fyrsta sinn í nokkurn tíma og uppskar "Maður Leiksins" hjá .net-liðum. Hann hélt spilinu uppi vinstra megin á vellinum og skapaði nokkrar spennandi stöður. Hann átti líka skot yfir markið sem hefði líklega verið mark aldarinnar í Inkasso ef það hefði tekist. Hann var líka duglegri en venja hans er í varnarvinnunni. Við svona aðstæður hefði maður haldið að svona lúxusleikmaður myndi hverfa frekar í fjöldann en hann steig upp og var meðal fremstu liðsfélaga í baráttunni.

Nacho kemur sterklega til greina sem maður leiksins líka. Hann var alls staðar fastur fyrir og steig ekki feilspor. Það var aldrei tilfelli sem hann kom aðvífandi sem maður fékk á tilfinninguna að hann væri að fara að tapa einvígi. Ef hann er ekki í úrvalsliði umferðarinnar er eitthvað mikið að. Það er ekki sjéns að annar miðvörður í deildinni hafi slegið honum við í dag. Þetta er maður "on a mission". Getur verið að framtíð hans hjá félaginu ráðist af því hvort Pepsi-sæti tryggist í sumar? Hann er allavega að spila eins og svo sé.

Vélin var greinilega búinn að hrista af sér bakmeiðslinn eða keyrði á 100% adrenalíni í dag. Hann var óþolandi duglegur. Við svona aðstæður koma upp alls kyns tilfelli þar sem þarf að elta menn uppi og hann gerði það af fullum krafti í allan dag. Hann tók sér ekkert stöðu fyrir framan mann með boltann heldur hjólaði bara í boltann eins og brjálaður hundur og það var bara bónus ef andstæðingurinn lá eftir blautur og hissa í grasinu. Ernir er yfirburðamiðjumaður og hjartað í þessu liði á svona stundum. Upp með pennann!

Ósvald átti sinn besta leik sumarsins í dag. Hann var sprækur fram á við. Klókur gegn stærri, aðgangsharðari mönnum og átti sjálfur flott skot sem hefði alveg mátt enda í markinu. Hann steig ekki feilspor og var flott ógn framávið.

Stjáni var að sama skapi mjög öflugur í dag. Hann fékk (að nafninu til allavega) að sinna sínu gamla hægri kanthlutverki á ný og það kom vel út. Hann var sprækur framávið, lék vel á andstæðinginn og kom boltanum nokkrum sinnum fyrir í góð færi sem hefði mátt nýta betur. Hann vann til baka eins og aðrir en að vera með Nacho í bakverði og jafnvel með Stebba að vernda hans svæði fyrir aftan hann, hjálpaði honum greinilega að skapa meira fram á við.

Stefán Árni var að venju afburðargóður. Eins og með Vuk mátti maður alveg búast við því að svona sleipur og teknískur leikmaður hverfi svolítið við svona aðstæður. Hið gagnstæða gerðist. Leikmenn gátu alltaf leitað til hans til að koma boltanum undan andstæðingunum og nýtti hann hraðabreytingar sínar til hins ítrasta til að færa boltann upp völlinn og reyna að skapa eitthvað fyrir liðið. Hann mætti fara að dúndra meira á markið svo þessi uppspil hans fari að uppskera meira en jedúddamía, hans verður svo innilega saknað næsta sumar!


Hvað má betur fara?:

Menn mega skjóta meira. Sérstaklega við svona aðstæður. Að mark Leiknis sé eftir klafs og frekar laust í þokkabót frá manni sem verður seint talinn hættulegast vopn liðsins sóknarlega, segir okkur að ef hinir hleyptu oftar af, gætum við uppskorið töluvert meira í þeirri deild. Það var ekki fleira.


Hvað nú?:

Nú fáum við Fram í heimsókn í síðustu umferðinni að viku liðinni. 21. september klukkan 14:00. Takið daginn og kvöldið frá því Lokahóf Leiknis fer fram um kvöldið í Austurbergi. Það er enn vonarglæta fyrir okkur að spila meðal þeirra bestu næsta sumar. Grótta þarf að tapa fyrir Haukum og við þurfum að vinna Fram. Og markamunurinn í þessum leikjum þarf samanlagt að vera 3 mörk okkur í hag. Semsagt, ef Grótta tapar með 1 marki, þurfum við að sigra Fram með 2 mörkum. Þetta er semsagt ekki í okkar höndum en úr því sem komið er og miðað við hvernig tímabilið byrjaði þá er ótrúlegt að við séum að sigla inn í lokaumferðina með nokkurn möguleika á að lauma okkur með í efstu deild. Það væri saga til neðra-Breiðholts ef svo færi. En hvernig sem fer höfum við harma að hefna gegn Fram sem var síðasta tap okkar í deildinni. Þetta verður sigur sem fylgir stefnuyfirlýsingu fyrir næsta sumar hjá félaginu og við fögnum árangri sumarsins saman hvernig sem fer.


82 views0 comments

Comments


bottom of page