top of page
Writer's pictureLjón

Illviðráðanlegt ofurefli úr Heimaey

Klárum þetta bara strax. Nei, Gary Martin vann ekki leik kvöldsins með hendinni sinni. Hann skoraði mark með hendinni, af 0.10 metra færi. Lið sem skilur hann eftir á línunni með opið mark, á skilið að tapa leiknum. Það er tilviljun að hann hafi svindlað, helvískur. Það var ekkert grín að reyna að halda þessum öfluga sóknarleik ÍBV í skefjum og það tókst að mestu vel en þeir voru í stuði og vörnin okkar einfaldlega ekki nógu góð til að útrýma færunum og hópurinn ekki nógu heill til að halda í við þá út allan leiktímann. Það er það sem gerði útslagið í kvöld.


Byrjunarlið kvöldsins í boði Hauks Gunnarsson

En góðu fréttirnar eru að þó við höfum tapað 2-4 í kvöld, var leikurinn hin mesta skemmtun og fullt til að vera glaður yfir, eftir að maður dustar af sér vonbrigðin að hafa ekki náð að sigra langbesta lið deildarinnar og mögulega að sama skapi horfast í augu við að okkar lið sé í besta falli það næstbesta.


Það var bongó í Breiðholti að venju og meiraðsegja BBQ sósa í boði á borgarann. Gamechanger. Það sem var meira áhyggjuefni var að sjá byrjunarliðið. Enginn Bjarki, enginn Dagur og því miður enginn Hjalti ennþá. Vörnin endurheimti þó Ósvald í byrjunarliðið og þeir Binni og Gyrðir tóku miðvörðinn á meðan Vélin hélt áfram að þykjast vera bakvörður í einhverri mynd. Að horfa á bekkinn olli manni líka smá áhyggjum fyrir það sem átti pottþétt eftir að vera mikill baráttuleikur. Máni Austmann var einn manna þar búinn að spila einhverja alvöru rullu hingað til og líklegur til að geta komið sterkur inn. En líklega var hann á bekknum einmitt af því að hann var tæpur eftir hnjask í Keflavíkurleiknum.


Siggi alveg grautfúll í lok leiks.


Það var mjög uppörvandi að sjá Binna með Gary, nokkurn, Martin í gjörgæslu. Hann var óþreytandi allan leikinn að atast í stórstjörnunni og þrátt fyrir úrslit leiksins gaf gamli rauður allt sitt í þetta. Annað sem var gaman að sjá var að það var ekki snefill af skjálfta í okkar mönnum. Gestirnir voru stór biti og sóknarlína þeirra fjandi öflug og ágeng en menn héldu ró sinni og gáfu boltann ágætlega sín á milli, óhræddir við að senda aftur á Hollendinginn í teignum og spila nokkuð tæpt reglulega. Þetta var flott statement um að það yrði ekki hreinsað upp á Fellaskólaþak í hvert skipti sem menn ógnuðu. Sólon komst svo í gegn og vippaði yfir markvörð gestanna á 5.mínútu og virtist skelfileg óheppni ein ráða því að tuðran endaði bakvið markið en ekki inni í því. Áfram gakk.


Ömurlegt var að sjá á 13. mínútu að Vuk Óskar Dimitrijevic þurfti að kveðja leikinn meiddur og því þurfti að taka sjénsinn með Mána mun fyrr en þjálfaraliðið hefur líklega ætlað sér. Eins og við var að búast, söknuðu menn Vuk til að byrja með og áður en 5 mínútur voru liðnar var Jonathan Glenn búinn að skora nokkuð auðvelt mark þar sem gestirnir fífluðu vörn okkar. En okkar menn eru þekktir fyrir allt annað en að leggja árar í bát og láta strauminn bera sig út á haf. Sólon jafnaði leikinn einn á móti markverði á 27. mínútu eftir klúður hjá vörn gestanna og mikill léttir að sjá okkar mann finna skotskóna aftur eftir að efasemdum hefur verið varpað um eljusemi hans af vitleysingum úti í bæ og auðvitað gagnrýni fyrir rautt spjald í bikarleiknum fyrir norðan. Eftir jöfnunarmarkið var kassinn út og mikil barátta í okkar mönnum. Það var virkilega gaman að sjá liðið í þessum ham gegn verðugum andstæðingi þó að reglulega hafi þurft að treysta á Smitarann í markinu að bjarga deginum. Til þess er hann þarna. Þvílík kaup! 1-1 í hálfleik.


Gulldrengurinn ekki sáttur með silfur í þessum leik


Það verður seint sagt að okkar menn hafi mætt andlausir í seinni hálfleik en barátta fyrri hálfleiks hafði líklega tekið sinn toll eða þjálfarateymið jafnvel lagt það þannig upp að láta gestina taka frumkvæðið í seinni og sjá hvort við gætum pirrað þá og svo stolið stigunum. Í öllu falli þá voru gestirnir ívið sterkari allan seinni hálfleikinn. Með sókn eins og þeirra, má ekki nokkur maður draga andann lengur en eina sekúndu og það kom á daginn. Löng sending inn í okkar teig á Martin, og hann lagði boltann til baka á aðvífandi Óskar Elías sem þrusaði framhjá Guy í markinu. 1-2 eftir 56 mínútur og enn þyngdist róðurinn.


Baráttan hélt þó áfram og virkilega gaman að sjá okkar menn sýna að þeir voru hvergi bangnir. Sævar fiskaði svo loksins vítaspyrnu og gaf Sóloni tækifæri til að bæta við markareikning sinn á 77. mínútu. Hann kláraði það með viðkomu í markverði og allt hægt með kortér til stefnu. Mínútu síðar vaknaði illa skipulögð vörn okkar manna við vondann draum, aftur marki undir þökk sé vinstri hönd Gary Martins. Augljóst og strákurinn frá Darlo neitar ekki fyrir það en það er dómaranna að grípa þetta, ekki hans. Að því sögðu, hefði hann hæglega getað bandað löpp í þetta og skorað löglega og að sjálfsögðu ófyrirgefanlegt að skilja hann svona eftir rétt eftir jöfnunarmarkið. Það er bara meira en að segja það að hafa manninn í spennitreyju í 95 mínútur. Hann er ALLTAF að.


Þetta slóg okkar menn nokkuð útaf laginu og þó reynt hafi verið að skapa meiri hættu var ljóst að gestirnir voru ekki að fara að láta koma aftan að sér í þriðja sinn í sama leiknum og þetta endaði svo með 4. markinu í uppbótartíma.


Það er dálítið furðulegt að horfa á tap á heimavelli og 4 mörk en geta samt sagt að menn hafi staðið sig vel. Það er til marks um hversu mikil gæði búa í þessu Eyjaliði. Miðað við hvernig okkar lið hafði verið talað um í fjölmiðlum síðustu daga og þeirra frammistaða ekki mærð of mikið, þá var aldrei sjéns að þeir væru að fara að mæta í 111 með minnsta vanmat. Og þegar þeir mæta klárir í vinnuna sína, er ákaflega erfitt að sjá fyrir sér að þeir tapi einu einasta stigi í sumar og haust. Gyrðir og Binni í miðverði stóðu sig virkilega vel og það var gaman að sjá þá saman. 10 önnur lið í deildinni hefðu ekki átt sjéns í þá í kvöld. Vélin okkar, Ernir Bjarnason var brjálæðislega duglegur en mislagðir fætur inn á milli. Það verður mikill léttir að fá Hjalta aftur til að losa hann úr bakverðinum og leyfa honum að gefa almennilega í á miðjunni, þar sem hann leysir líklega Árna Elvar eða Daða af hólmi. Að sjá Sólon finna sig aftur er gulls ígildi og vonandi heldur hann áfram gegn Fram um næstu helgi. Sævar Atli á skilið að fara að skora líka enda ótrúlega vinnu- og útsjónarsamur allan leikinn. Guy Smit bjargaði okkur reglulega eins og hann er nú vanur að gera en það skilaði sér ekki í stigum í þetta sinn. Að þétta og negla niður vörnina, er ennþá stærsta verkefni þjálfarateymisins. Framávið eru alls kyns skemmtilegir hlutir að gerast.


Nú er það bara áfram gakk og öflugt lið Fram í Sambamýrinni á laugardag. Þetta kemur þétt og vonandi enduheimtum við menn eins og Vuk, Bjarka, Dag og Mána (sem var sprunginn þrátt fyrir hetjulega baráttu löngu fyrir lokaflautuna).


Það var ekki skyldusigur á heimavelli í kvöld. Það var einfaldlega við ofurefli að etja og því fór sem fór. Það sem var skylda var að mæta til leiks með 3 stig á matseðlinum. Vonandi fara menn svangir á koddann í kvöld og tæta í sig 3 stig gegn raunverulegum keppinauti um 2. sæti deildarinnar eftir 4 daga.


139 views0 comments

Comments


bottom of page