top of page
Writer's pictureLjón

Iðnaðarsigur í Njarðvík

Njarðvík 0 - 2 LEIKNIR

0-1 Sævar Atli ('15 víti) 0-2 Sævar Atli ('86)


Strákarnir fullkomnuðu glæsilega byrjun á seinni umferðinni með því að klára 9 af 9 stigum hingað til og héldu hreinu annan leikinn í röð þegar þeir mættu á Rafholtsvöllinn í Njarðvík í kvöld og uppskáru góðan iðnaðarsigur gegn heillum horfnum heimamönnum sem enda kvöldið í fallsæti.


Siggi hélt áfram að rótera mönnum vegna álags


Okkar menn sigldu góðum sigri í höfn í kvöld. Þetta hefði auðveldlega getað litið nokkuð auðveldar út en það ber að virða hreina lakið, vítið sem var klárað og færin sem voru kaffærð hinum megin á vellinum. Leikurinn byrjaði með spræka Leiknismenn og hélt Sævar Atli að hann hefði sett fyrsta mark leiksins á 3.mínútu en Vuk snerti boltann á leiðinni í netið og var það því dæmt af vegna rangstöðu. Við endursýningu er þetta tæpara en það virtist úr stúkunni en líklega réttur dómur. Bagalegt og hefði verið kærkomið að róa taugarnar strax í byrjun gegn Njarðmönnum sem virtust óöruggir frá fyrstu mínútu.


En okkar menn héldu áfram að hafa öll völd og eftir netta hreinsun frá Nacho á 14.mínútu hélt Stefán Árni upp allan hægri kantinn með mann og menn í sér áður en hann missti boltann frá sér við teig heimamanna en henti sér fyrir hreinsunina og komst með boltann inn í teig. Þar mætti Toni nokkur Tipuric og stjakaði aðeins við honum sem uppskar blástur í flautu frá dómara dagsins. Þetta var ekki fyrir miklar sakir en við þiggjum hjálp þar sem hún býðst og nú var bara spurning hvort Sævar Atli fengi að taka vítið og þá hvort hann væri kominn yfir skjálftann eftir tvö víti forgörðum í röð. Sæk! Hann setti boltann í vinstra hornið neðra og markvörður Njarðvíkur átti ekki sjéns í helvíti að stoppa þetta. Gulldrengnum létt og öllu liðinu reyndar enda smá grýlufýlingur farinn að myndast kringum leikina við þá grænklæddu.


Hávær herforingi í kvöld

Okkar menn héldu áfram að sækja og búa til hálffæri án þess þó að ná að tálga út dauðafæri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks. Menn voru greinilega meðvitaðir um að heimamenn gætu skorað þó að þeir hafi ekki verið hala inn ógrynni af stigum uppá síðkastið. Nýi Bosníumaðurinn þeirra var sérstaklega flinkur að koma sér fljótt í færi þegar menn gáfu þumlung eftir í varnarvinnunni. 0-1 í hálfleik.


Seinni hálfleikur hófst svipað og sá fyrri endaði, með því að Leiknismenn hleyptu heimamönnum aðeins inn í spilið og voru ekki eins beittir sjálfir framávið til að klára leikinn. Það var aðeins eins og menn væru ekki alveg klárir á því hvort þeir ættu að sækja af fullum krafti eða reyna að drepa leikinn niður með því að halda boltanum hægt innan liðsins. Það er ekki stíll Leiknis að staðaldri en auðvitað þarf að reyna ýmislegt í átt að hreinum skyldi leik eftir leik. Að því sögðu þá voru Njarðvíkurmenn engan veginn að taka frumkvæðið í leiknum þó að þeir væru alltaf færir um að refsa á meðan aðeins 1 mark var í leiknum. Hlutlausir áhorfendur voru líklega töluvert rólegri en röndóttir stuðningsmenn í stúkunni enda höfum við allt of oft séð eins marks forrystu ekki duga til vegna einstakra mistaka. Það var því alltaf hætta á fyrsta jafntefli sumarsins í það minnsta á meðan ekki vera gert út um leikinn með öðru marki.


Á 53. mínútu átti Ósi góða sendingu inn fyrir vörn heimamanna sem Sævar Atli elti upp framhjá markverðinum en þá var flagginu veifað. Við nánari skoðun var þetta töluvert nær því að vera rangstaða en okkur fannst í stúkunni í kvöld, en hefði leikandi mátt fljóta fyrir okkur og endað með öðru marki.


Á 59. mínútu kom besta færi þeirra grænklæddu sem Eyjó varði glæsilega og Daði Bærings fylgdi vel eftir með því að blokka skot úr frákastinu. Þrátt fyrir að enginn hafi andað virkilega rólega eftir þetta get ég ekki bent á nein stór færi frá heimamönnum eftir þetta. Okkar menn tóku völdin aftur rólega og á ýmsu gekk svosem með arfaslakt dómaratríó í aðalhlutverki en undir lok leiks náðu drengirnir okkar að klára leikinn.


Tvö stykki í kvöld!

Það var við hæfi að naglinn í kistu heimamanna væri eftir glæsilegt samspil frá markverði fram á fremsta sóknarmann a la Sir Alex þegar Manchester United voru uppá sitt besta. Flott samspil sem endaði inní og kringum teig Njarðvíkinga þar sem Ernir lagði boltann snyrtilega fyrir Sævar Atla við hægra horn markteigsins sem tók sér eina snertingu til að búa sér til pláss og stakk honum svo þvert fyrir markvörðinn í netið og þar með var græna grýlan öll!


Hnetuskel:

Iðnaðarsigur er kannski ekki sanngjarnt orð fyrir þetta en að sama skapi er það hrós. Heimamenn áttu í raun ekki mikinn sjéns og okkar menn gleymdu sér aldrei í of miklum sóknarleik á kostnað varnarvinnunar. Þolinmæðin bar árangur og annar hreini skjöldurinn í röð lítur dagsins ljós ásamt nokkuð öruggum þremur stigum. Byrjunin á seinni umferðinni er byrjunin sem við vonuðumst eftir í vor. 4. sætið er okkar og ef Grótta sigrar Þór ekki annað kvöld, gætum við hrifsað það 3. af þeim á þriðjudag. Nú er engin pressa á okkar mönnum en þeir setja hana á sig sjálfir, blessunarlega og það sést á vellinum að þeir eru alltaf að tala saman og reyna að bæta fyrir mistök sem gerast hverju sinni. Ofboðslega gaman að sjá.


Leiknismaður Leiksins: Sævar Atli:

Þetta hefði verið erfitt val hefði hann ekki sett seinna markið. Það komu margir til greina. Sævar skoraði strax í byrjun en Vuk þvældist fyrir. Hann lét það ekki á sig fá og steig svo upp og kláraði vítið 12 mínútum síðar. Hann var búinn að klikka tvisvar í röð af vítapunktinum þó hann hafi klárað úr frákasti í einu tilfellinu og því mikilvægt að hann fékk traustið áfram. Hann sýndi alltaf flotta baráttu og vann til baka til að hjálpa liðinu að þétta sig. Hann uppskar reyndar óskiljanlega sitt 4. gula spjald sumarsins svo hann gæti þurft að sitja hjá á þriðjudag gegn Gróttu en það er ekki hægt að finna neitt að frammistöðunni hjá honum frekar en fyrri daginn.

Aðrir ferskir:

Stefán Árni var enn eina ferðina sprækari en andskotinn. Hann bjó til vítið upp á eigin spýtur, var svo lykilmaður í að skapa fullt af færum og óþolandi bæði fyrir varnarmenn Njarðvíkur og kantmenn sem voru að reyna að skapa eitthvað á móti okkur.

Bjarki var herforingi kvöld. Hann átti í stanslausu samtali við alla samherja frá fremstu víglínu til markvarðar og reyndar fullmikið við dómarann líka en hann var arfaslakur í kvöld svo ég álása honum það ekki. Bjarki skallaði allt burt sem nálægt honum kom og átti í mjög góðu sambandi við Nacho sem var líka ákaflega ferskur í að útrýma hættu hvenær sem hún birtist. Þetta minnti um margt á frammistöðu þeirra í hinum 2-0 sigri okkar í maí, gegn Víking Ó. Ernir heldur áfram að vera "enforcer-inn" í liðinu. Hann er alltaf mættur að brjóta upp og skemma fyrir andstæðingunum og kaupa nokkrar sekúndur fyrir félaga sína til að koma sér í stöður og þjappa sér saman. Hann átti fínasta skot líka og stoðsendinguna sem skapaði seinna markið. Það er enginn annar í hópnum sem vinnur hans störf eins vel og hann og gefur sig allan í þetta. Hann er Aron Einar okkar Leiknismanna. Ég ítreka að það verður að klára samning framyfir haustið á þennan mann ef menn ætla ekki að enda á byrjunarreit næsta vor.

Eyjó verður að fá hrós fyrir að díla við allt það sem á hann kom og sýna mikið öryggi. Þetta lið uppsker ekki hreinan skjöld nema hann sýni á einhverjum tímapunkti klær sínar.

Allir aðrir skiluðu hlutverki sínu af myndugleik. Það var enginn lélegur í kvöld.

Hvað má betur fara?:

Það er voðalega erfitt að kvarta eftir þrjá sigra í röð og hvað þá tvo hreina skyldi í röð. En það er samt auðvelt að benda á að það er ekkert að gerast í föstum leikatriðum hjá okkur. Hjartað tekur engan aukaslátt þegar við fáum horn eða álitlegar aukaspyrnur. Það eru hávaxnir og góðir skallamenn sem kunna ýmsilegt í þessu liði en það virðist ekkert plan vera í gangi þegar boltinn kemur inn í teig og ekki mikil áhersla á að bæta úr því. Leik eftir leik. Það koma oft fínustu boltar inn en sökum þess að menn eru nokkuð hreyfingarlausir til að byrja með, er yfirleitt nokkuð auðsótt fyrir andstæðinginn að bægja hættunni frá. Í leikjum þegar leikmenn þurfa að styðja sig við mikla þolinmæði til að brjóta andstæðingana á bak aftur, væri virkilega öflugt að hafa aðeins sterkara plan í þessum aðstæðum, sem koma nú alls ekkert sjaldan upp í leikjum okkar.


Hvað nú?:

Leiknir Reykjavík er á þeim stað sem ég held að allir hafi vonast til í byrjun tímabilsins núna. Þetta er búin að vera ágætlega grýttur vegur hingað til en þó virkilega skemmtilegur og aldrei hefur bilbug verið að finna á leikmönnum eða þjálfurum. Liðið situr ofarlega í deildinni og getur réttilega talið sig tilheyra þeim hópi liða sem þurfa ekkert að óttast þegar flautað er til leiks, óháð andstæðingum. Nú er hægt að endurskoða markmið og halda áfram að vinna í litlu hlutunum. Það kemur líklega að jafntefli. Það kemur líklega að vonbrigðistapi fyrr eða síðar en strákarnir og þjálfararnir hafa nú unnið sér inn að þurfa ekki að sæta gagnrýni fyrir að nálgast alla leikina sem eftir eru eftir sínu höfði. Þeir geta, fyrir mér, byrjað að huga að markmiðum næsta sumars með nálgun síðustu 8 leikjanna í sumar. Þeir eru á réttri leið.



129 views0 comments

Comments


bottom of page