top of page
Writer's pictureLjón

Vendipunktsveisla!

Í gær hristu strákarnir af sér ófarir síðustu þriggja leikja og skelltu toppliði Keflavíkur á jörðina með 5-1 sigri. Öllum innan félagsins er létt og sennilega hægt að tala um nokkuð stóran vendipunkt á tímabilinu ef allt fer á besta veg í haust.


Gyddi átti afburðaleik í gær eins og nokkrir aðrir. Mynd eftir Hauk Gunnars

Það hefur vonandi ekki farið framhjá þér lesandi góður, að ég lét þung orð falla um leik liðsins og möguleika um framhaldið í síðustu viku og fékk viðbrögð við því í framhaldinu ásamt því að Siggi þjálfari kom við í Ljónavarpinu í liðinni viku að ræða fyrri hluta tímabilsins. Sitt sýnist hverjum um hversu mikils virði frammistaða er þegar lið sem stefnir í efstu deild uppsker aðeins 1 stig af 9 en nú sitja allir skælbrosandi yfir úrslitum gærdagsins og kokhraustir um að Leiknislestin sé að fara að valta yfir hin 2 toppliðin sem eru framundan á næstu dögum. Geggjuð tilfinning til að smjatta á yfir helgina.


Leikurinn í gær var fyrir luktum dyrum en í greiddri dagskrá Stöðvar 2 Sport og opinni dagskrá LeiknisTV á YouTube þar sem Elvar Geir og Ási fór á kostum öðru sinni. Það var spenningur í mönnunum þremur í stúkunni enda mikið undir og Keflavíkurliðið búið að vera í miklum ham í sumar. Þeir höfðu aðeins tapað einum leik í sumar og var það á heimavelli gegn okkar mönnum, sælla minninga. Þeir hafa yfirleitt látið yfirburði sína telja og loka leikjum sem þeir skora mörk í. Vel að toppsætinu komnir og þeim léttir ugglaust að vera búnir að mæta Leikni R í síðasta sinn í ár. Það var laukrétt metið hjá Sigga í Ljónvarpinu í vikunni að okkar lið er mikið betur búið undir að mæta liðum sem spila sinn eigin leik gegn okkur en aðlaga sig ekki að öllu leyti að því að stoppa okkar spil og vona svo það besta. Að liðin sem við lendum í vandræðum með eru þau sem okkur tekst ekki alveg að pikka talnalásinn á og svo getur mark fallið þeirra megin og hent öllu í skrúfuna fyrir okkur. Þetta var ekki svoleiðis leikur.


Bjarki og Guy voru sígjammandi allan leikinn og það skilaði næstum hreinum skyldi. Mynd: Haukur Gunn

Í gær var mætt í heimsókn lið fullt sjálfstrausts sem ætlaði að hefna fyrir ófarir sínar á heimavelli í júní. Það var fín og drengileg barátta í gangi fyrri partinn og svo kom markið okkar fyrsta rétt áður en klukkan slóg hálftími. Þar var á ferðinni Djúsflugan Danni Finns sem hefur aðeins verið hnjaskaður í vonda kaflanum og því ekki alveg getað tekið fyllilega af skarið. Hann setti boltann af löngu færi úr aukaspyrnu við mikla gleði allra.


Við það hrundi leikur gestanna og okkar menn gengu á lagið. Árni Elvar Járnkarl og Vuk bættu við og lestin farin að valta yfir toppliðið. En þeir eru engir aukvisar. Þeir eru ekki einu sinni Þór Ak. En þeim tókst að klóra í bakkann á 45. mínútu og þarmeð grípa sér líflínu fyrir hálfleikshléið.

En eins og El Sjerífó sagði eftir leik, þá var mál að halda áfram að spila sinn leik og þjarma að gestunum í staðinn fyrir að bakka og bjóða hættunni heim. Okkar mönnum tókst það meistaralega og var það fyrirliðinn sjálfur sem rak smiðshöggið á rústið með tveimur hraðaupphlaupum sem hann kláraði meistaralega. Það seinna með því að fífla varnarmann og setja boltann virkilega snyrtilega í markið. 5-1 og svægið komið til baka af krafti eftir erfiðar vikur síðan boltinn rúllaði aftur af stað faraldrinum. Sævar Sjerífó var valinn maður leiksins af flestum enda ódrepandi vinnuhestur og erfitt að horfa framhjá honum þegar hann bætir marki eða mörkum við þá flóru. Það var líka gott að sjá Danna Finns aftur í byrjunarliði að njóta sín. Gyrðir stóð sig líka furðulega vel í hægri bakverði sem er langt frá því að vera hans þægindarammi hingað til. Hann var óhræddur við að taka menn á og sækja, senda fyrir og hann hrellti gestina ítrekað. Virkilega skemmtileg tilbreyting þar. Bjarki var öruggur í sínum aðgerðum og það sama má segja um Guy í markinu. Þeir tveir voru sígjammandi allan leikinn fyrirmæli og hvatningarorð á félaga sína. Það gæti verið ímyndun í mér en mér finnst eins og það hafi ekki farið svona mikið fyrir því í öldudalnum sem nú er að baki.....vonandi.


Ef Siggi var í alvöru áhyggjulaus eins og hann fullyrti eftir tapið gegn Þrótti fyrir viku, þá hlær hann hér síðastur. Líklegra vil ég telja að hann og leikmenn hafi gert sér grein fyrir því að tímabilið væri búið ef ekki tækist að lækka rostan í liðunum fyrir ofan okkur núna og koma sér í stuð í leiðinni. Það er, ef markmiðið um að komast upp á að takast. Það er sjúklega erfitt verkefni og þó sumir vilji dæma harkaleg ummæli mín sem niðurrif, þá er það bara raunsýni að gera sér grein fyrir því að lítið má útaf bregða til að draumurinn renni út í sandinn. Það þýðir ekki þarmeð að nokkur Leiknismaður (ég þarmeð talinn) snúi baki við liðinu ef það yrði raunin. Það er bara mikilvægt að muna og kunna að meta hve mikil forréttindi það eru að taka þátt í toppbaráttunni, sem stuðningsmaður eða leikmaður liðsins. Það er margfalt skemmtilegra en að reyna að "gefa öllum leik" og vona það besta.


Mynd: Haukur Gunn

Það hlýtur að vera pláss fyrir einn fýlupoka sem lætur strákana heyra það á Leiknislestinni þegar tilefni er til. Það er bara rödd eins stuðningsmanns og það er nú fjandi lélegur grunnur að liði sem á ekkert erindi í efstu deild, þar sem ljósin skína skærar og öll gagnrýni stingur fastar, ef einhverjar líkur eru á því að það valdi niðurrifi á stemningu eða árangri á vellinum. Eins og kom fram í Ljónavarpinu í vikunni, ef einhverjum í hópi Leiknisljóna finnst sjónarmið klappstýranna ekki koma nógu skýrt fram, þá er um að gera að ríða á vaðið og láta það sjónarmið koma hér fram fyrir hönd þeirra :). Ég get myndskreitt og allt. Senda bara pistil á ljonavarpid@leiknisljonin.net


En nú er það bara áfram gakk og eins og El Sjerífó segir, ef okkar menn mæta með þessa ákefð, vinna seinni bolta og eru áfram jafngóðir í fótbolta og þeir eru, þá eru þeir að fara að vinna öll lið í þessari deild. Hann sagði líka að þeir hefðu skuldað svona frammistöðu eftir leikina á undan. Þó sigurinn hafi verið stór í gær gaf hann bara 3 stig, alveg eins og þau sem voru í boði þrisvar leikjunum þar á undan. Það eru tvö risastór "statement" verkefni í viðbót framundan gegn liðum sem eru pottþétt ósammála yfirlýsingu hans í spjallinu eftir leik. Vestmannaeyingar eru búnir að vera að safna jafnteflum og virðast ósigrandi. Þeir unnu okkur sannfærandi með eða án handar á Domusnovavellinum fyrr í sumar að mati undirritaðs. Það væri risavaxin yfirlýsing um að Leiknir ætli ekki að gefa þetta frá sér ef menn sigla galvaskir á Heimaey, hitta þar fyrir áhorfendur í stúku í fyrsta sinn í forever, og taka bátinn heim með 3 stig undir Run DMC húfunni hans Sigga. Það væri eitthvað magnað. Enginn að kynda í tuðaranum frá Darlo fyrir leik, takk ;)


Mynd: Haukur Gunn

69 views0 comments

Comments


bottom of page