top of page
Writer's pictureLjón

Kennslustund í Kópavogi

Lengjubikarinn byrjaði með nettum skelli gegn stærsta knattspyrnufélagi landsins í kvöld. Lærisveinar Óskars Hrafns Þorvaldssonar virðast vera klárir í toppbaráttuna í Pepsi-Max núþegar og okkar menn fengu að finna fyrir því í 4-0 tapi.


Þessi er með Game Face í febrúar

Þegar byrjunarlið Leiknis var kunngert klukkustund fyrir leik, var ljóst að um var að ræða besta liðið sem í boði var og af því mátti draga þá ályktun að leikið yrði til sigurs frekar en til að skoða einn og einn leikmann. Leikurinn var í beinni á Blikar TV á YouTube og kunnum við þeim bestu þakkir fyrir enda faglega staðið að öllu á þeim bænum. Frá fyrstu mínútu voru heimamenn með frumkvæðið og okkar menn fengu ekki mikið andrými. Guy hafði nóg að gera allan leikinn og þótt það hafi tekið Blikana 26 mínútur að skora fyrsta markið, var það ekki fyrr en eftir annað markið á 38. mínútu sem þeir tóku löppina af bensíngjöfinni og hleyptu okkar mönnum yfir miðju. Og það bar engan sérstakan árangur þó að það sé alltaf sjéns þegar það er Sævar. Þeir Dylan og Gyrðir meiddust í fyrri hálfleik og þurftu að yfirgefa svæðið fyrir Shkelzen og nýja Leiknismanninn Loft Páll. Danni Finns yfirgaf leikinn í hálfleiknum sjálfum fyrir Davíð Júlían. Okkar menn komu beittari til leiks í seinni hálfleik og náðu að skapa nokkur færi sem nýttust ekki nógu vel. Heimamenn sköpuðu á sama tíma fleiri færi og nýttu 2 þeirra í seinni hálfleik og því fór sem fór.


Loftur Páll skipti yfir í dag og kom strax inná í lok fyrri hálfleiks

Það er erfitt að segja að úrslitin séu ekki vonbrigði enda færist Íslandsmótið sífellt nær og eftirvæntingin með. Maður horfir nú ekki á marga leiki í röð bara til að sjá holningu á einum og einum leikmanni en það væru mistök að draga of miklar ályktanir útfrá einum leik. Það kemur líklega engum á óvart í haust þegar stigin verða talin úr pokanum fræga að Breiðablik hafi gefið Leikni ekki eitt einasta stig og eins og leikar standa núna, kæmi líklega engum á óvart ef þeir grænklæddu myndu loksins ná að lyfta Íslandsmeistaratitlinum aftur. Hlutverk okkar manna á þessum tíma vetrar er líklega að fækka mistökum í vörn og undirbúa þannig að taka næg stig í deildinni í sumar til að halda velli fyrir 2022. Því dustum við af okkur rykið og tökum á móti Lengjudeildarliði ÍBV næstu helgi á Domusnovavellinum.


86 views0 comments

Comments


bottom of page