3 verðskulduð stig á heimavelli gegn nöfnum okkar í fallbaráttunni frá Fáskrúðsfirði urðu raunin í dag. Þetta hefði getað endað illa en það hefðu verið sjúklega harkaleg málalok.
Í dag voru loksins leyfðir 200 áhorfendur á vellinum og komust því allir að sem vildu. Grillið var á sínum stað og allir spenntir fyrir góðum leik og því sem meiru skiptir, 3 stigum. 3. síðasti heimaleikur ársins og hver veit nema þetta hafi verið síðasti grasleikurinn á Domusnova. Siggi skildi Vuk eftir á bekknum enda leikur á 4 daga fresti núna og Grindavík eru næstir. Það var gaman að sjá Binna Hlö í hóp í fyrsta sinn í milljón ár eftir meiðsli og allt klárt.
Það er svosem ekki svakalega mikið að segja um þennan leik. Hann spilaðist nánast eins og við myndum vilja sjá hina 7 sem eru eftir spilast. Okkar menn mikið betri án þess að þurfa að hafa of mikið fyrir hlutunum. Tvö góð mörk á fyrri helmings fyrri hálfleiks og þessu siglt nokkuð áfallalaust í höfn þegar upp er staðið.
Það var nokkuð um að góð færi voru ekki nýtt í þessum leik svo munurinn hefði getað verið meiri en við veltum okkur ekki mikið uppúr því fyrst það kostaði okkur engin stig. Máni fer að detta í markagírinn anydaynow og Danni Djús átti flotta aukaspyrnu sem fór aðeins framhjá. En það var Sævar Atli sem kláraði þetta í dag með tveimur mörkum eftir hraðaupphlaupl bæði á 5 mínútna tímabili. Seinna markið klikkaði hann einn á móti markverði en kláraði frákastið og við þiggjum það með þökkum. Það hefur farið um Vuk á bekknum að Gulldrengurinn sé að læðast uppað honum í markaskónum nú þegar styttast fer í annan endan á mótinu. El Sjerífó er kominn í 8 mörk í 15 leikjum vs. 9 mörkin hans Vuk. Eitthvað segir mér þó að serbneska blóminu sé drullusama svo lengi sem hann fái að mæta bræðrum sínum úr Breiðholti tvisvar næsta sumar.
Það var allt önnur stemning í stúkunni að þessu sinni enda engin skömmtun á miðum á fáránlegum sölutímum. Við Ljónin endurheimtum okkar Ofurmann til að leiða sönginn og vonandi fundu strákarnir okkar herslumuninn inni á vellinum. Gyrðir hélt áfram að rokka hægri bakvörðinn og maður spyr sig hvernig það tók eitt og hálft tímabil að finna hvar hann er ósigrandi á vellinum. Fyrir þá sem horfa á Amerískan Fótbolta, þá minnir hann strax á svokallaða Shutdown-Corner í þeirri deild. Það eru þeir varnarmenn sem gera keppinauta sína gagnslausa, hversu góðir sem þeir eru, því leikstjórnandinn þorir ekki að kasta á það svæði sem þessi leikmaður valdar. Gyrðir var nákvæmlega þannig í dag. Maður varð hálfpirraður fyrir hönd nafna okkar að austan þegar þeir voru ekki búnir að kveikja á perunni og mann langaði bara að kalla inná völlinn "prufaðu Dag núna!" á vinstri kantinum.
Aðrir sem létu ljós sitt skína voru auðvitað Vélin við hlið Bjarka í vörninni og svo Bjarki sjálfur. Hann er að vaxa og getur spilað með hverjum sem er. Og eins og spáð var í morgun, skoraði hann sitt fyrsta mark fyrir Leikni í deild. En rangstöðuglöðu dómararnir tóku það líka af honum. Fáránlegur dómur en hvað um það. Skráum þetta sem mark hjá okkur og hann má núna fara að skalla boltann frá markinu okkar aftur og láta Gyrði um að skalla boltann inn fyrir okkur hinum megin.
Binni kom inn með hálftíma eftir af leiknum og lifði af svo það er mikil gleðitíðindi. Maður hefði fyrirfram ekki þorað að vonast eftir meiru en 10-15 mínútna framlagi frá honum eftir svona langa fjarveru. Sannarlega eins og nýr leikmaður í hópinn fyrir lokasprettinn. Það munar um minna. Klár í peysutog og allt gegn Sindravík eftir 4 daga.
En aftur að leiknum. Leiknismenn að austan áttu ekki mörg færi en Guy var flottur í markinu og átti það sem forgörðum fór í varnarleiknum. Svo fengu gestirnir gjöf frá dómurunum að mínu mati. Ég sá ekki betur en að Gyrðir kom grjótharður aftur í tæklingu og beint í boltann af krafti. Svo miklum krafti að andstæðinginn tók niður. Það er ekki þarmeð sagt að hann hafi dúndrað manninn beint niður. Svakalega soft dómur, ef ég sá þetta rétt, og eftir vítaspyrnumarkið voru taugþrungnar mínútur til leikslokaflautsins.
Hvað nú?
Framarar gerðu jafntefli og lykilmaðurinn þeirra fékk rautt í dag. Góðar fréttir fyrir okkur því Nacho og co. í Keflavík eru ekkert að róa sig. Þeir sigruðu ÍBV í Eyjum og eru 9 mörkum skoruðum á undan næsta liði, okkur, með leik til góða. Þetta lið verður líklega ekki stoppað og við verðum að fara að halda með þeim og vonast til að fylgja þeim upp. Á sama tíma og við reynum að láta ekki festa okkur í jafntefli í Grindavík munu Keflvíkingar vonandi gersigra Framara á miðvikudag á hinum óvenjulega kick-off tíma 16:30. Ef það hefst, fer Nachovík í efsta sætið og við tökum annað. Framarar færu þá í 3. sætið á markatölu með 6 leiki eftir á tímabilinu.
Það er að hitna í kolunum gott fólk og nú er að þyrpa sér á bakvið liðið okkar! Byrjiði mánudaginn á að krefjast frís í vinnunni í eftirmiðdaginn á miðvikudaginn. Grindavík er 40 mínútur frá 111. Ekkert mál og þess virði að sjá okkar menn taka völdin aftur. Svo er það Grenivík næstu helgi. Reyndar á sunnudegi en um að gera að kíkja á Akureyri í helgarferð og rúnta svo heim á sunnudagskvöld. Það er ekki gefið að við eigum leik á því vallarstæði að ári.
Koma svo Leiknisljón! Upp, upp í Úrvalsdeild!
Comments