top of page
Writer's pictureLjón

Lengjustatus fyrir hakkavélina á þriðjudag

Þátttaka okkar manna í Lengjubikarnum þetta árið er rúmlega hálfnuð og tveir leikir frá síðustu skýrslu. Hvað gerðist í þeim leikjum og hvað er framundan hjá liðinu?



Þessir leikir sem fór fram í síðustu viku og þarsíðustu er Lengjubikarleikirnir við Aftureldingu í Egilshöll og ÍA í Akraneshöllinni. Það er skemmst frá því að segja að okkar menn halda áfram að klára lið sem eru í sömu deid og þeir eða neðri en eiga lítið sem ekkert erindi við lið sem eru í Pepsi-deildinni.


Leiknum gegn Magnúsi Má og lærisveinum hans í Aftureldingu lauk með 2-1 sigri okkar manna og var það langt frá því að vera sama flugeldasýningin og við fengum að sjá fyrr í vetur í æfingaleik. Það sem var skemmtilegt við þann leik er að Bjarki Aðal skoraði loksins mark fyrir félagið. Hann hefur víst gert það einu sinni áður á svona vetrarmóti en engu að síður var það velkomið, og það með löppinni viti menn! Enn skemmtilegra var að það stefndi svo í jafntefli þegar næsti gulldrengur félagsins, Shkelzen Veseli, skoraði sitt fyrsta mark fyrir meistaraflokk og tryggði öll 3 stigin með 3 mínútur til stefnu. Annars var sá leikur ekki mikið fyrir augað og jákvæðu teiknin eingöngu þau að strákarnir kláruðu leikinn og tóku öll stigin. Það er styrkur í því.


Svo var það heimsókn á Skagann síðastliðið fimmtudagskvöld. Heimamenn skoruðu auðvelt mark eftir 7 mínútur og annað enn auðveldara síðar í hálfleiknum og fyrir utan tvö góð færi fyrir okkar menn undir lok fyrri hálfleiks, var doði yfir leik liðsins. Vörnin var án Bjarka og Ósvaldi tókst ekki að rífa stemninguna upp hjá kollegum sínum í þeirri deild. Hann var ferskur og sýndi rétt spennustig en því var ekki að fagna hjá Degi, Edda og Róberti. Seinni hálfleikinn byrjuðu strákarnir á því að gefa frá sér nokkuð einfalt 3. mark og því var vonin úti þarmeð. Vuk var okkar besti maður og náði að fiska vítaspyrnu sem var varin frá Sævari Atla en Dagur Austmann skoraði eitt mark fyrir okkar menn af löngu færi áður en naglinn í kistu okkar liðs var negldur 10 mínútum fyrir leikslok.


Hvar stöndum við þá? Það er staðfest að okkar lið sigrar ekki riðilinn og því eru leikirnir framundan við KR og Leikni F. þeir síðustu í keppninni þetta árið. Það grætur það enginn enda lítil von þegar aðeins eitt lið fer uppúr riðlinum í undanúrslitin. Það sem menn eru væntanlega að horfa á á þessum tíma ársins er holningin á liðinu og hverju má búast við í framhaldinu þar sem Íslandsmótið nálgast nú óðfluga. Í þeirri deild er undirritaður engu nær síðan um áramótin, sem eru viss vonbrigði.



Það var lúxus fyrir Sigga og þjálfarateymið að geta byrjað árið með hópinn fullbúinn fyrir mót og geta púslað þessu saman á næstu mánuðum og þó við treystum þeim að finna lausnina og gera árásina á Pepsi í sumar er ekki margt sem bendir til þess núna að sú árás verði auðveld. Í stað Stjána og Nacho hafa komið inn Dagur og Alfreð. Dagur hefur sýnt smá sýnishorn af miklum gæðum en ef við dæmum menn af sínum síðasta leik, sérstaklega þegar hann hefði þurft að stíga upp í fjarveru Bjarka, þá er hann einfaldlega langt frá því að vera klár í slaginn. Alfreð höfum við ekki séð nóg af. Hann hefur ekki enn fengið heilan leik og það hefur verið í gangi tilraunastarfsemi með 5 manna vörn eða 3ja manna, eftir því hvernig menn horfa á það. Þar hefur Alfreð lítið verið að sinna varnarvinnu bakvarðar. Í ofanálag hefur Ásgeir, öllum að óvörum (djók), gert sér grein fyrir því að leysa stöðu Eyjólfs í markinu er ekki gert með hangandi hendi. Því situr Viktor Freyr, tvítugur að aldri, með hanskana einráður í bili.


Vörnin er semsagt alveg eins og í haust, áhyggjuefnið fyrir komandi tímabil. En á miðjunni er mögulega andstætt vandamál í gangi þar sem valkostirnir í stöðunni eru jafnvel of margir. Í vetur hefur Danni Finns stigið upp sem glæsilegur skapandi leikmaður og það verður ákaflega spennandi að sjá hann halda áfram að vaxa. Það er ekki laust við að allt liðið hafi verið nokkuð ráðalaust í síðustu tveimur leikjum án hans. Binni Hlö er kominn heim og svo eru auðvitað menn eins og Vélin, Gyrðir og Árni Elvar að gera tilkall til byrjunarliðssætis. Þetta eru allt leikmenn með mismunandi kosti fyrir þjálfaraliðið að skoða og því kannski eðlilegt að menn festi sig ekki við eina uppstillingu og eitt byrjunarlið á undirbúningstímabilinu en vonandi förum við að sjá hver pælingin er áður en maí gengur í garð.


Góðu fréttirnar eru að í Mjólkurbikarnum 17.apríl ættum við að ráða við andstæðinginn í núverandi formi en þar mætum við annað hvort Kára eða KV. Vondu fréttirnar eru að næsti leikur er á þriðjudagskvöld gegn Íslandsmeisturum KR. Það er ólíklegt að Stefán Árni og félagar sýni okkar mönnum nokkra miskunn en það verður áhugavert að sjá hvernig sá leikur verður settur upp af hálfu þjálfaraliðsins okkar og hversu lengi okkar menn halda út áður en besta lið landsins skorar og þá hvernig okkar menn bregðast við. Tappa þeir út eða láta þeir svæfa sig?


Hvernig sem þetta fer allt saman, þá er Operation Pepsi Max að sjálfsögðu enn on og spennustigið magnast :)


48 views0 comments

Comentários


bottom of page