top of page
Writer's pictureLjón

Lélegir í Laugardal

Updated: Jun 15, 2019

Það var fallegt og gott veður í Laugardalnum í kvöld. Það er ekki hægt að segja margt annað jákvætt um upplifun Leiknismanna í Laugardal í kvöld þegar heimamenn kjöldrógu okkar menn í seinni hálfleik og kláruðu leikinn 3-0.

 

Þróttur 3 - 0 Leiknir 1-0 Rafael Victor ('72)

2-0 Rafael Victor ('76) 3-0 Jasper Van Der Heyden ('80)

Áhorfendur: 272


Vonbrigðin leyndu sér ekki í stúkunni þegar fór á líða á seinni hálfleikinn í kvöld því okkar menn hreinlega mættu með allt of lágan púls í seinni 45 mínúturnar. Það var ýmislegt sem bæta mátti eftir markalausan fyrri hálfleik en hvað sem hefur verið sagt í hálfleik þá fór það öfugt ofan í menn og þeir gáfu eftir á öllum sviðum leiksins sem endaði óumflýjanlega með ósköpum.




Eftir frábæra frammistöðu gegn Víkingum frá Ólafsvík síðasta föstudag voru miklar vonir uppi um að hægt væri að byggja á því og sýna stöðugleika inn í restina af sumrinu og jafnvel koma sér fyrir í 2. sæti deildarinnar. Þróttarar hafa farið hægt af stað og ekki enn haldið hreinu svo þetta var tækifæri til að sýna styrk okkar sókndjarfa liðs.


Töluverðar breytingar voru aftur á byrjunarliði okkar manna. Hjalti Sigurðsson var í U-21 árs verkefni og því ekki tiltækur. Kristján Páll kom inn í hægri bak fyrir hann. Stefán Árni, að öðrum ólöstuðum, besti leikmaður liðsins í sumar, var tæpur og vermdi því tréverkið fyrir Sævar Atla og Daði Bærings spilaði sinn fyrsta byrjunarliðsleik fyrir Árna Elvar.


Fyrri hálfleikur var ágætur og bæði lið mættu til að skora. Heimamenn voru ívið sterkari framávið án þess að skapa of mikla hættu. Þeir áttu reyndar eitt skot sem Ernir bjargaði af línu en að sama skapi áttu okkar menn nokkur færi, þá helst úr föstum leikatriðum. Ágúst Leó, þeirra markahæsti maður, fór meiddur af velli um miðjan hálfleikinn og Rafael Victor kom inná fyrir hann. Ingó átti aukaspyrnu í þverslána og svo á síðustu mínútu fyrri hálfleiks veiddi Sævar Atli víti sem hann misnotaði svo. Annað sinn í sumar sem hann gerir það við lítinn fögnuð viðstaddra Leiknismanna.


Markalaust í hálfleik en engin raunveruleg örvænting. Undirritaður var frekar jákvæður í hléinu þess fullviss að Stebbi Gísla myndi þjappa hópnum saman og leiðrétta leikskipulagið miðað við það sem menn eru að sjá hjá andstæðinginum eins og hann hefur verið að gera í hálfleik uppá síðkastið. Það einfaldlega gerðist ekki. Það var engu líkara en að allir leikmenn hefðu gefið tvöfaldan skammt af blóði í blóðbílinn í hálfleik í stað þess að hlusta á þrumuræðu þjálfarans. Þeir mættu mistækir og skrefinu á eftir í öllu í seinni hálfleik.


Á 61. mínútu gerði Stebbi tvöfalda skiptingu þegar Sævar Atli og Daði hurfu frá fyrir þá Stefán Árna og Árna Elvar. Skiptingar sem maður batt vonir við en uppskáru sáralítið þegar upp var staðið.


Á 71. mínútu kom svo verðskuldað fyrsta mark Þróttara þegar samskiptaleysi og mistök í vörninni buðu hættunni heim og ekki var hægt að bjarga á línu í það skiptið. Heimamenn virtust fá allt of mikið pláss til að spila boltanum inni í markteig okkar og í raun var mark óumflýjanlegt í glundroðanum sem þar ríkti. Mikil vonbrigði þar sem maður hélt að leikurinn síðustu helgi hefði markað ákveðin tímamót í skipulaginu á því svæði.



Það liðu svo ekki nema 6 mínútur áður en Rafael Victor var aftur mættur í teiginn að skora. Í þetta sinn var það nokkuð einfaldur bolti fyrir og menn engan veginn vakandi fyrir hættunni sem stafaði af þeirra aðalógn. Hann smellti af öryggi í þaknetið.


Viktor Marel kom inná fyrir Erni að svo stöddu til að blása til sóknar en bitlaus skipting þar líka og 3. markið kom eftir að mikil áhersla var lögð á sókn okkar manna og Eyjólfur átti glórulaust úthlaup sem skildi markið eftir galopið fyrir hinn hollenska Jasper Van Der Heyden að bæta ókeypis marki í safnið.


Það var hreinlega léttir þegar Egill Arnar dómari flautaði leikinn af og leikmenn sáu sér þann kost vænstan að taka í spaðana á Þrótturum og hypja sig svo burt af vellinum.


Hnetuskel:

Andleysi af verstu sort í seinni hálfleik og í fyrsta sinn í sumar sem maður getur með réttu ásakað menn um að vera varla að reyna. Það er versta tegundin af vonbrigðum eftir sigurvímu síðasta föstudags.


Leiknismaður Leiksins: Ernir Bjarna:

Það er erfitt að velja einhvern eftir þennan leik en Ernir átti nokkrar góðar tæklingar og bjargaði af línu allavega einu sinni. Hann átti vondar sendingar eins og aðrir en virtist minnst af öllum láta það á sig fá að leikurinn var ekki að spilast eftir okkar höfði. Hann var látinn víkja fyrir Viktor Marel uppá sóknarbolta þegar annað markið kom. Ég tel það ekki hafa verið vegna frammistöðu sem hann varð fyrir valinu þar.

Aðrir Ferskir:

Enginn. Því miður. Ingó átti skot í slá og var alltaf ógn í föstum leikatriðum en var að öðru leyti ekki að stjórna spilinu eða leiða varnarvinnuna án boltans. Sævar er alltaf hættulegur með boltann og reynir sitt besta og var eðlilega hundfúll þegar hann var tekinn útaf en það er illfyrirgefnalegt að klikka á víti í svona leik og því spottinn stuttur í seinni hálfleik. Aðrir voru bara einfaldlega lélegir og verða bara ekki nefndir hér.

Hvað má betur fara?

Það er erfitt að segja. Fyrir utan að vörnin var mjög óörugg aftur þá er erfitt að setja puttann á einhver konkret vandamál til að leysa. Hingað til, hvort sem leikir hafa unnist eða tapast, virðist allavega hafa verið barátta í liðinu og einhver pæling um nálgun. Í þetta sinn er eins og menn hafi annað hvort mætt illa undirbúnir eða vitlaust undirbúnir og svo í ofanálag ekki náð að aðlagast aðstæðum eftir að hafa sloppið með skrekkinn í fyrri hálfleik.


Leikurinn hefði ugglaust spilast öðruvísi ef Ingó hefði náð aukaspyrnunni undir slána eða Sævar framhjá markverðinum í vítinu en það er vont að liðið náði ekki að yfirstíga þau bakslög. Stefán Árni hefur verið lykilmaður í byrjunarliði hingað til og mikið með boltann. Það er spurning hvort án hans í byrjunarliði hafi skapast tómarúm sem enginn hafi tekið að sér að fylla. Vuk Óskar væri fullkominn í að gera einmitt það en hann var langt frá sínu besta í kvöld.


Að sama skapi má segja að Daði Bærings hafi ekki verið vandanum vaxinn. Hann byrjaði sinn fyrsta leik í sumar og það kæmi mjög á óvart ef hans næsti leikur er ekki af bekknum. Hann náði ekki að láta finna fyrir sér í baráttunni á miðjunni, hvorki í háum sköllum né tæklingum.

Hvað nú?

Nú sleikja menn sárin og kafa svo ofaní hver djöfullinn sé í gangi. Það hefur hingað til verið góður andi á æfingum svo það er engin krísa í gangi í hópnum. Næsti leikur er í 111 og það gegn geysisterku liði Þórsara. Það veit það hver einasti maður í hópnum að þeir verða niðurlægðir í heimahögunum ef þeir mæta svona til leiks þann daginn. Ef til vill kemur í ljós að okkar menn eru betri gegn sterkustu liðunum en þeim sem eru með augljósari veikleika. Það kemur í ljós að viku liðinni.



146 views0 comments

Comments


bottom of page