top of page
Writer's pictureLjón

Líflegt jafntefli

Leiknir 2 - 2 Grótta

1-0 Sólon ('16) 2-0 Sólon ('34) 2-1 Valtýr Már Michaelsson ('51) 2-2 Pétur Theódór Árnason ('57)


Clear eyes full hearts, can´t lose! En jafntefli?

Fyrsta jafntefli sumarsins er komið í hús en það var langt frá því að vera steindautt og satt best að segja gætum við jafnvel vanist þessu ágætlega.



Þessi leikur var sá 5. á 19 dögum fyrir strákana okkar og hafði Siggi róterað liðinu ágætlega á þessum eina stóra álagspunkti tímabilsins. Hann breytti aðeins til eftir síðasta leik að venju þó að vörnin hafi eðlilega verið ósnert. Sólon og Gyrðir komu inn í byrjunarliðið fyrir þá Daða og Hjalta.


Maður leiksins utan vallar var klárlega þessi snillingur sem slóg taktinn í stúkunni.

Okkar menn hófu leikinn af miklu öryggi og leystu allar atlögur gestanna með mikilli yfirvegun. Það var ekki laust við að menn væru stútfullir af sjálfstrausti og leikplanið fullkomlega uppsett. Fyrsta mark leiksins kom svo engum á óvart þegar Sólon setti hann (með viðkomu í varnarmanni) eftir sendingu frá Vuk á 16. mínútu. Þetta vakti gestina ekkert til lífsins og það var erfitt að sjá hvort þeir væru bara að eiga sinn lélegasta leik sumarsins eða okkar menn bara svona ofboðslega meðidda. Niðurstaðan var allavega alltaf sú að leikurinn var alveg í höndum Leiknis sem hélt áfram að skapa færi og hafa gaman af hlutunum.


Það var þó eitt sem skyggði á leikinn og það var dómgæslan. Dómari leiksins leyfði nánast ekki nokkra snertingu og því erfitt að tala um einhverja línu í þeim málum nema kannski að vitna í körfuboltadómgæslu. Menn máttu hreinlega ekki mæta mönnum með það að markmiði að ná boltanum því það felur í sér snertingu og var hann ofboðslega fljótur að flauta alltaf. Einhvern veginn náðu bæði lið að aðlagast þessu að einhverju leyti því þeim tókst að bjarga skemmtanagildi þessa leiks þrátt fyrir dómarann, ekki vegna hans.


Annað mark okkar Leiknismanna kom á 34. mínútu þegar Stefán Árni flaug upp völlinn áður en hann afhendi Sóloni keflið í teignum og sá klikkar ekki þegar þangað er komið með markvörðinn í augsýn. 2-0 og hinn mikli fjöldi Leiknismanna sem lét sjá sig í fyrsta sinn í sumar sá ekki eftir því að heiðra okkur með nærveru sinni í þetta sinn.


Bjarki að skipuleggja

Í leikhléi vorum við hinir, sem höfum séð alls konar hluti í sumar, að glíma við tilfinningu sem er nokkuð óþekkt. Er Leiknir bara svona yfirburðabetra lið en Grótta og að fara að sigla öruggum 4-0 sigri í höfn og setja allt á annan endan með væntingar um hvar við spilum á næsta tímabili? Það voru óþarfa áhyggjur því til seinni hálfleiks mætti einbeittara lið Gróttumanna og að sama skapi mættu okkar menn illa tilbúnir til að taka við því. Það er óhugsandi að það hafi ekki verið fyrirséð að áhlaup yrði gert strax í upphafi seinni hálfleiks og því verður maður hreinlega að taka ofan fyrir gestunum sem eru ekki í 3. sæti fyrir ekki neitt.


Fyrsta mark Gróttu kom eftir 6 mínútna leik í seinni hálfleik þegar Valtýr Már náði frákasti eftir skot frá Ástbirni Þórðarsyni. Allt of snemmt að fara að hleypa spennu í leikinn en líka verðskuldað eftir byrjun gestanna í seinni hálfleik. Þetta slóg okkar menn nokkuð út af laginu og hefði verið gaman að sjá þroskamerki þar sem þeir hefðu sýnt sömu yfirvegun og í fyrri hálfleik og náð að draga blóðugar tennur úr Gróttumönnum hægt og rólega. Það gekk þó ekki og voru leikar orðnir jafnir 6 mínútum síðar þegar markahæsti maður deildarinnar slúttaði af mikilli fagmennsku inni í teig. Allt jafnt og pressan komin af fullum þunga á heimamenn að bregðast við.


Siggi brást fljótt við og gerði tvöfalda skiptingu á miðri miðjunni. Gyrðir og Ernir fengu að víkja fyrir Ljónavarpsteyminu Árna Elvari og Daða Bærings. Þeir voru búnir að ná sér niður á jörðina eftir frægðarljómann sem umlykur alla sem mæta í þáttinn til okkar og tilbúnir að leysa félaga sína af með ferska nálgun í leiknum. Það tókst svona ágætlega. Það var allavega ekki sama fát á leik Leiknismanna og fram að því í seinni og þótt okkar menn hafi aldrei náð sömu yfirburðum í leiknum og við höfðum séð í fyrri hálfleik voru síðustu 30 mínúturnar fínasta skemmtun og 100% sanngjarnt að segja að okkar menn hafi verið ívið sterkari. Það komu færi til að klára leikinn, meira að segja eftir að Stefán Árni fékk að líta sitt seinna gula spjald fyrir kjánalega tilburði með 15 mínútur eftir af leiknum. Sævar Atli hneig niður í teignum af vonbrigði þegar flautað var til leiksloka enda hafði hann verið iðinn við kolann og hungraður í mark áður en hann tekur 16 daga pásu frá keppnisleik því hann tekur út bann gegn Víking Ó. í næsta leik. Hann átti meðal annars skot af 30 sentímetra færi á 85. mínútu sem markvörður gestanna varði óskiljanlega.


Dómarinn var út um allt með dómgæsluna í kvöld

Hnetuskel:

Strákarnir komu sterkir til leiks og eru líklegast sjálfir vonsviknari en nokkur stuðningsmaður með að hafa ekki náð að klára dæmið og taka stórt framfaraskref ofan á mörg slík uppá síðkastið. Við sem voru löngu búin að gleyma hvernig jafntefli smökkuðust getum fullyrt að þau voru ekki svona bitastæð síðast þegar við vissum svo þetta er bara ásættanlega niðurstaða, vitandi það að Siggi og strákarnir sjálfir munu ekki sitja á rassgatinu næstu 10 daga og klappa sér á bakið fyrir þetta.


Leiknismaður leiksins: Sólon Breki skorar bæði mörkin okkar og rangstöðumark og átti annað gott færi sem fór framhjá. Hann er alltaf stórhættulegur og vinnandi þó maður gleymi honum þegar hann er ekki að fá boltann til sín.


Aðrir Ferskir:

Stefán Árni heldur áfram að bogna undan hrósi úr öllum áttum fyrir leik sinn. Hann er svo leikinn með boltann og fljótur upp völlinn með gæði sem maður er ekki að sjá annars staðar. Óskar Hrafn, þjálfari Gróttumanna, nefndi hann sérstaklega eftir leikinn og útnefndi hann besta leikmann sem Grótta hefur mætt í sumar. Það ofan á að Dr. Football félagar töluðu um í gær að möguleiki væri á því að hann yrði kallaður til baka í KR og hent í byrjunarliðið strax. Hann er klárlega orðinn óþægilega mikill lykilmaður í leik okkar liðs þegar horft er til þess að hann gæti verið hrifsaður af okkur hvenær sem er. En er á meðan er. Ef ekkert annað, þá mun KR líklega verða nýtt lið Leiknismanna í Pepsi á næsta tímabili.

Kristján Páll var mjög ferskur í leiknum og bjargaði meðal annars á síðustu stundu inni í teig ásamt því að vera óþreytandi upp og niður kantinn. Gaman að sjá hann í essinu sínu.

Bjarki og Nacho voru flottir í miðverðinum og erfitt að kenna öðrum þeirra um mörkin sem komu í seinni hálfleik. Bjarki er sérstaklega hávær í að skipuleggja leik liðsins í síðustu leikjum og erfitt að horfa fram hjá því þegar vörnin hefur verið að þéttast á síðustu vikum.

Sævar Atli var óheppinn að skora ekki en fær hrós fyrir að koma sér í alls konar marktækifæri og líka fyrir að vera óeigingjarn með stöðu sína þrátt fyrir að hafa sín markamarkmið og vera að fanga athygli fólks langt út fyrir 111 þessa dagana. Það hefur verið allur gangur á því hvort Sólon sé í byrjunarliði en þegar hann er í fremstu röð hefur Sævar þurft að láta finna mikið meira fyrir sér í varnarvinnunni á vinstri kantinum og það er ekki sjálfgefið að menn hreinlega nenni því.


Hvað má betur fara?:

Augljóslega taugarnar í byrjun seinni hálfleiks. Að aðlagast breyttum aðstæðum frá andstæðingnum og snúa þeim sér í hag. Það er ekki að takast í öllum tilfellum. Þroskaferli.

Ég auglýsi svo annan leikinn í röð eftir einhvers konar leikfléttum í föstum leikatriðum. Í kvöld fengum við þónokkur horn og eina eða tvær aukaspyrnur og það virðist bara vera alveg lágmarksathygli gefin þessum hluta leiksins á æfingasvæðinu því þetta er yfirleitt auðhreinsað hjá andstæðingunum. Ég er til í eitt "beint af æfingasvæðinu" mark áður en tímabilið rennur sitt skeið.


Hvað nú?:

Nú róast allt svo um munar. Eftir 5 leiki á 19 dögum munu nú aldrei líða færri en 6 dagar milli leikja og reyndar alveg 10 dagar í road trip til Ólafsvíkur þar sem margir verða fjarri góðu gamni vegna leikbanna í næsta leik. Þeir Stefán Árni, Sævar Atli og Nacho verða í banni og því viðbúið að leikskipulag liðsins verði gjörbreytt gegn vinum okkar á Snæfellsnesi en þá verða þeir í sömu stöðu og okkar menn voru í dag. Þeir munu geta tekið 4. sætið af okkur með sigri. Þetta verður erfitt verkefni og því líklega best að einbeita sér í alla 9 dagana að því. Kannski hægt að gefa sér 1-2 klst í hornspyrnuæfingar og sjá hvort menn geti ekki tekið tilhlaup inn í teig og skora þannig. Hjá okkur stuðningsmönnum tekur bara við sjá doði að þurfa að bíða svona lengi og líklega hjá hinum sem ekki leggja á sig ferðalagið til Ólafsvíkur fara úrslitin í þeim leik eftir því hvort þeir láti sjá sig í Ghettóinu þegar Haukum verður skeint að nýju. Eftir að hafa tekið púlsinn á Leiknisljónum á vellinum í kvöld er ljóst að langflestir eru ánægðir með spilamennsku liðsins, stöðu þess í deildinni og þá sérstaklega með að þeir sem hafa áhrif á úrslitin með því að spila leikinn virðast ekki vera saddir eða sáttir. Verkefnið heldur áfram og við höldum áfram að styðja þetta verkefni alla leið.


Áfram Leiknir

Stolt Breiðholts



84 views0 comments

Comments


bottom of page