top of page
Writer's pictureLjón

Martröð í Mosó!

Updated: Jun 1, 2019

Okkar menn náðu ekki að byggja á góðri byrjun í Inkasso þegar þeir töpuðu gegn nýliðum Aftureldingar í Mosfellsbæ í kvöld, 2-1, eftir að Ingólfur fékk beint rautt á 16.mínútu leiksins.


 

Afturelding 2 - 1 Leiknir

RAUTT-Ingólfur Sigurðsson, ('16) 1-0 Andri Freyr Jónasson ('26) 1-1 Sólon Breki Leifsson ('75) 2-1 Ásgeir Örn Arnþórsson ('80)

Áhorfendur: 462


Það var bjart en fjandi kalt á vellinum í kvöld, eins og sést á formanni vorum hér

Þegar þessa leiks verður minnst í lok sumars, verður vonandi bara brosað og afskrifað hann sem leikinn þar sem strákarnir þurftu að berjast, einum færri, í 75 mínútur rúmar. En það segir ekki nema hálfa söguna. Það verður bara að viðurkennast að okkar menn mættu ekki klárir í baráttuna í kvöld.

Heimamenn að spila sinn fyrsta heimaleik í Inkasso í 10 ár og með nýja stúku í notkun, mættu tilbúnir að stríða okkar mönnum. Og gott betur. Þeir tóku einfaldlega völdin í leiknum frá því að sparkað var boltanum af stað og Leiknismenn virtust algerlega gripnir í bólinu fyrstu 10 mínúturnar. Það var aldrei í boði að spila sig í stuð gegn nýliðunum og ekki laust við að verulegt vanmat væri í gangi í Mosfellsbæ.


Eftir að okkar menn náðu að spila sig að einhverju leyti inn í leikinn kom svo örlagahöggið. Við hliðarlínuna um völlinn miðjan átti Ingó Sig í baráttu við Alexander Aron og lét olnbogann fljúga í andlitið á honum. Við sáum þetta ekki nógu vel í stúkunni en dómarinn og báðir bekkir voru alveg ofan í þessu og það tók Ívar Örn dómara innan við 2 sekúndur að fleygja rauða spjaldinu á loft. Ingó virtist ekki mikið malda í móinn sjálfur eftir fyrsta sjokkið og því veit hann ugglaust uppá sig sökina. Mikil vonbrigði hjá leikmanni, sem á að vera einn af leiðtogum liðsins, að setja félaga sína í þessa stöðu.


En áfram gakk. Eins og við var að búast var eftirleikurinn erfiður fyrir okkar menn og Andri Freyr potaði fyrsta marki leiksins inn 10 mínútum eftir brottvísunina. Leiknismenn náðu nokkrum hálffærum það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en ekkert sem skapaði verulegan usla hjá heimamönnum.



Í hálfleik var gerð ein breyting á liði Leiknis þegar Eddi var tekinn útaf fyrir Ósvald í vinstri bakverði. Pælingin þar hefur verið að þétta varnarlínuna fyrir erfiðar seinni 45 mínútur og treysta á skyndisóknir til að jafna leikinn. Þetta plan gekk ágætlega og strax í fyrstu sókn seinni hálfleiks hefði Sævar Atli getað núllað út markið þegar hann smellti boltanum í stöngina úr þröngu færi. Boltinn rataði til Stefáns Árna sem hitti hann ekki nógu vel og skaut beint í fangið á markverði heimamanna.


Byrjunarliðið var óbreytt frá Magnaleiknum

Liðin skiptust á að sækja og heimamenn voru ívið sterkari svona manni fleiri en á 75. mínútu nýtti Sólon sér mistök í vörn Aftureldingar þar sem hann fékk boltann sendann beint á sig og hann smellti boltanum í markið. Einfalt og vel þegið. Nú gátum við látið okkur dreyma um að klára leikinn eftir allt vesenið.


En nei, 5 mínútum síðar var vörn okkar opnuð vandræðalega auðveldlega og endaði það með marki frá manni leiksins, bakverðinum Ásgeiri Erni. Þarna virtust menn í vörninni, eins og reyndar oft í leiknum, ekki taka af skarið og loka svæðum. Þetta snerist ekki um að vera einum færri heldur bara að einhver henti sér fyrir spilið í staðinn fyrir að horfa á næsta mann. Vont að öllu leyti og róðurinn orðinn fjandi þungur aftur.


Það má segja strákunum það til hróss að þeir héldu baráttunni áfram en allt kom fyrir ekki. Nacho átti dauða, DAUÐA færi á lokasekúndum leiksins, fyrir opnu marki, en smellti boltanum óskiljanlega framhjá. Lokatölur 2-1 fyrir heimamenn sem fögnuðu vel í búningsklefa sínum í kjölfarið.


Í Hnetuskel:

Mikil vonbrigði að liðið virtist vanmeta getu andstæðingsins í upphafi og voru skrefinu á eftir frá upphafi í staðinn fyrir að taka leikinn hreðjartaki gegn andstæðingi sem á að eiga erfitt uppdráttar í sumar. Ingó veldur svo vonbrigðum með því að láta reka sig útaf og setja eftirleikinn í hættu. Vont kvöld sem verður vonandi öllum lexía.


Leiknismaður Leiksins: Gyrðir Hrafn

Drengurinn er að koma sterkur inn í liðið og barðist í allt kvöld alls staðar á vellinum. Hann er líka alltaf fljúgandi undir radarnum í föstum leikatriðum. Hann klárar þetta tímabil ekki án þess að skora einhver mörk.


Aðrir Ferskir:

Vuk kom inná fyrir Sævar Atla á 65. mínútu og aftur sýndi hann gæði frá fyrstu mínútu. Hann sér samherja sína og spilar þá upp í hvívetna nema hann vilji pönkast aðeins í andstæðingunum sjálfur. Hann virðist alltaf vera líklegur og mættur í færi. Það drjúpa af honum gæðin í upphafi tímabils og nú köllum við eftir honum í byrjunarliðið að viku liðinni í fjarveru Ingólfs. Hann gæti þurft að hafa mikið fyrir því að endurheimta sæti í byrjunarliðinu ef Vuk heldur áfram að blómstra.


Hvað má betur fara?

Samskiptin í vörninni. Eina mínútuna virðast Nacho og Bjarki vera með allt undir kontról en þá næstu er vörnin virkilega brothætt og einhvern veginn fær boltinn að skoppa inni í teig og hætta að skapast þar sem hún á ekki að vera til staðar. Við mætum mikið sterkari liðum í sumar sem refsa þessu aðgerðarleysi miskunarlaust. Þetta þarf að laga og það þarf leiðtoga á svæðið til að taka það að sér. Spurning hvort Gyrðir endi með því að festast í miðverðinum og taka þetta af sér ef hinir tveir taka sig ekki á?

Hjalti Sigurðsson átti slappan dag á miðjunni í kvöld. Þegar við erum með samningsbundna menn eins og Erni Bjarna og Danna Finns (sem kom flottur inn af bekknum móti Magna) á tréverkinu er engin ástæða til að halda lánsmönnum á vellinum nema þeir séu að sýna mikil gæði strax.


Hvað nú?

Það er vonandi að það sé ekki snefill af sjálfsvorkunn í hópnum og menn viti uppá sig sökina, vinni hörðum höndum alla vikuna í að bæta það sem fór á mis í kvöld og bæta fyrir þetta á heimavelli næsta föstudagskvöld gegn Njarðvík. Þetta verður ekkert auðveldara ef menn ætla að mæta svona til leiks oft í sumar.


117 views0 comments

Comments


bottom of page