top of page
Writer's pictureLjón

Má maður láta sig dreyma?

LEIKNIR 2 - 1 Þróttur

1-0 Gyrðir Hrafn ('11) 1-1 Lárus Björnsson ('67) 2-1 Ernir Bjarna ('89)


Leiknismenn halda áfram að blanda sér í toppbaráttuna og harðneita að sigla lygnan sjó í Inkasso ástríðunni eftir sigur undir lok leiks gegn Þrótturum úr Laugardalnum. 5 leikir eftir og ef menn ná að stríða Þórsurum norðan heiða næstu helgi er allt hægt þetta árið.



Þessa á Brandur, okkar, Jónsson

Seinni umferð Inkasso deildarinnar er meira en hálfnuð og standa Leiknismenn ósigraðir í þeirri umferð eftir 6 leiki. Leikurinn í kvöld var sá fyrsti á tímabilinu þar sem liðið náði að snúa næstumþví jafntefli í sigur á lokamínútunum og er það ótrúlega skemmtileg tilfinning fyrir stuðningsmenn sem veganesti í helgi og lok tímabilsins. Það er oft þannig að menn séu búnir að tryggja sæti sitt í deildinni eða stimpla sig úr toppbaráttunni á þessum tíma en strákarnir okkar virðast ætla að halda okkur spenntum út 21. september.


Það var bjart í Breiðholti en vindasamt þegar flautað var til leiks klukkan 18:00 í kvöld. Sævar Atli var tæpur og vermdi tréverkið. Vuk og Elvar Árni voru í banni og Daði Bærings farinn yfir hafið svo Danni Finns og Stefán Árni komu inn í staðinn. Gyrðir kom uppá miðju þar sem Nacho er kominn í miðvörðinn. Breiddin er að skila sér hjá okkur á seinni hlutanum.


Liðin skiptust á að reyna fyrir sér í byrjun leiks en hann fór aðeins hægar af stað en Siggi allavega hefði viljað. Það kom þó á daginn strax á 9. mínútu að okkar menn skoruðu. Ingó gaf boltann inn í teig frá vinstri kanti og Gyrðir kom sér fyrir boltann og náði honum inn. Hann er naskur strákurinn. 1-0 og taugar róaðar. Leiknismenn héldu áfram að skapa ágætisfæri restina af fyrri hálfleik en menn þurftu að vera meðvitaðir um að Þróttarar geta skorað og það í kippum ef þeir eru óáreittir. Stefán Árni fékk víst ekki dæma vítaspyrnu sem hann náði að fiska og síðasta spark fyrri hálfleiks var vippa hjá Sóloni yfir markvörð Þróttara sem rataði í slána. Hefði mátt vera 2-0 í hálfleik.


Seinni hálfleikurinn hófst með því að Þróttarar komu einbeittir til leiks að reyna að ná völdum og þeim tókst það að vissu leyti þó að okkar menn héldu áfram að skapa færi framávið á móti og maður var ekkert að örvænta þó að mark gæti komið frá gestunum. Það kom fát á okkar menn þegar þeir misstu boltann á vondum stað fyrir framan teiginn á 67. mínútu og það endaði óumflýjanlega með klaufalegu marki. Þetta lá í loftinu sirka 5 mínútur áður en þetta kom.


Ljónin voru allavega sátt við það sem þau sáu

En það má segja okkar mönnum til hróss að þeir voru aldrei sáttir við jafntefli eða hræddir við tap það sem eftir lifði leiks. Þetta varð fjörug barátta og hefðu stigin öll hæglega getað endað í 104 en okkar menn tálguðu áfram færi og svo kom sigurmarkið á 88. mínútu eftir flott samspil þeirra Ernis Bjarna og Kristjáns Páls á hægri kantinum.


Uppbótartíminn varð 5 mínútur og tókst strákunum okkar að sigla þessu í höfn af nokkru öryggi í uppbótartímanum.


Hnetuskel:

Liðið okkar er stöðugleikinn uppmálaður í seinni umferðinni. Hvergi hræddir við gesti sem höfðu kjöldregið okkur á stuttum kafla í fyrri leiknum og allan leikinn voru þeir skapandi fram á við og jákvæðir saman í baráttunni. Virkilega gaman að sjá og spennandi að horfa fram veginn.


Leiknismaður leiksins: Ernir Bjarnason skoraði sigurmarkið með flottu upphlaupi og samspili með Kristjáni Páli. Hann hafði fram að þvi verið að djöflast að venju á miðjunni allri. Þetta er farin að verða þreytt tugga en dragið fram helvítis veskið stjórn og framkvæmdastjórn! Það eru 5 leikir eftir af samningi mannsins við félagið. Lykilmaður í liði hæfileikaríks liðs.



Aðrir ferskir: Þeir voru flestir ferskir í dag. Gyrðir var öflugur að skora en líka í að brjóta upp spil Þróttara og reyna að skapa fram á við. Hann er mikill skrokkur og lætur finna fyrir sér á miðsvæðinu. Hann mætti vera stöðugri milli leikja í þessu hlutverki en þegar hann á þessa góðu leiki þá eru þeir virkilega skemmtilegir. Hjalti þurfti að bregða sér í ýmis hlutverk í þessum leik eins og þeim síðasta og var virkilega öflugur liðsmaður hvarvetna. Hann er að braggast í virkilega öflugan mann sem KR mun hafa mikil not fyrir og þið vitið hvernig fer ef þeir gera sér ekki grein fyrir því. Ingó náði að (nánast) klára allan leikinn eftir löng og erfið meiðsl í sumar. Hann var vel með á nótunum, átti stoðsendingu og fullt af góðum hugmyndum í uppspili. Mjög gaman að fá hann í gang uppá lokasprettinn. Nacho og Bjarki voru góðir í vörn yfir það heila. Markið var bara panic hjá öllu liðinu og erfitt að kenna einhverjum einum um. Sólon var smá tíma í gang og virtist hálfslappur í byrjun leiks en það rann af honum og hann átti týpísk nokkur færi sem hefðu hæglega getað endað með því að hann tæki forystu í keppninni við Sævar Atla um markakóngstitilinn hjá Leikni þetta sumarið.


Hvað má betur fara?:

Það er ekki margt. Þessar mínútur frá 55. fram að því að markið kom á okkur sýndu smá að menn voru í vandræðum með að ná áttum og bagalegt að það þurfti markið til að settla liðið en það er ekki hægt að hafa allt eins og maður vill þegar tvö lið mætast. Að telja upp fleiri væri titlingaskítur. Vel gert strákar!



Hvað nú?:

Það er rúm vika í Þór á Akureyri. Þeir voru töluvert betri en við á Leiknisvelli í fyrri umferðinni en þetta er allt annað lið sem við búum yfir núna og sigur á Ak City næstu helgi gæti umturnað umfjöllun og væntingum fyrir síðustu umferðirnar. Tap þar myndi nánast útiloka Pepsideildarsæti. Sumir vilja ekki nefna það á nafn og telja liðið ekki tilbúið fyrir Pepsi. Leiknir verður hins vegar seint undirbúið fyrir að fara upp og halda sér uppi svo það yrði alltaf barátta að halda sér meðal þeirra bestu. Það er ekki hægt að skipuleggja ferlið það vel að liðið fari bara upp þegar það er tilbúið að halda sér uppi. Það var gaman síðast þó það hafi endað illa. Hví ekki að keyra á þetta bara? Má ekki bara vera kokhraustur og opinbera háleit markmið? A la Gunnlaugsson á Heimili Hamingjunnar.


Allir á Akureyri!

159 views0 comments

Comments


bottom of page