top of page
Writer's pictureLjón

Reykjavíkurmótið fer vel af stað

Nýr áratugur með nýja leiðtoga fer vel af stað hjá Leikni og er liðið í kjörstöðu til að fara áfram eftir fyrstu tvo leikina í Reykjavíkurmótinu þetta árið.


Egilshöllin er vettvangur mótsins og nú hafa stuðningsmenn Leiknis lagt leið sína þangað tvö laugardagskvöld í röð án þess að verða fyrir vonbrigðum enda rignir mörkum og höfum við fengið að bera fjölmörg ný andlit augum í fyrstu tveimur leikjunum.


Síðasta laugardag tókust menn (og ungir drengir) á við Bikarmeistara Víkings í skemmtilegum leik og náðu í stig í 3-3 jafntefli. Svo í kvöld vannst sigur á síðustu mínútunum gegn Inkasso-vinum okkar í Fram, 3-2. Fyrirliðinn nýkrýndi Sævar Atli Magnússon er búinn að skora öll mörkin nema það síðasta og kannski það mikilvægasta. En jafnvel það mark skapaði hann uppúr engu! Hann glímdi boltann af markverðinum, lék á hann og lagði fyrir hinn 14 ára Breiðholtsskæling Robert Quental sem smellti honum í markið af öryggi þegar 4 mínútur lifðu af stríðinu við Safamýrar/Grafarholts stórveldið bláklædda.



Það eru nokkrir öflugir drengir að stíga skrefið upp í meistaraflokk úr 2. flokki en nokkrir líka sem enn eru gjaldgengir þar þó Siggi leyfi þeim að sprikla með stóru strákunum í skammdeginu. Framtíðin er björt í Breiðholti. Svo mikið er ljóst.


Þessir tveir leikir hafa verið langt frá því að vera fullkomnir og fannst undirrituðum fullmikið skipt kjúklingum inn í kvöld enda hungraður í titla en það er líka ástæða fyrir því að undirritaður liggur ekki 6 daga vikunnar yfir æfingaprógrömmum og frammistöðu leikmanna með stóru myndina í huga. Það er tímabært að sleppa tökum og treysta Sigga 100% fyrir því að gera það sem hann telur best fyrir félagið.


Á næstu vikum ætlum við að reyna að kynnast þessum spennandi leikmönnum töluvert betur enda er fátt skemmtilegra en að sjá ungviði úr hverfinu okkar vaxa og dafna í aðalliðinu, sérstaklega þar sem ákveðin kynslóðaskipti eru að eiga sér stað í meistaraflokki. Við skulum ekki gleyma því að 2020 er fyrsta árið sem fyrirliði og leikjahæsti leikmaður meistaraflokks er ekki lengur gjaldgengur með 2. flokki. Sturluð staðreynd, það! Vuk er annar sem ætti 1 ár eftir í 2. flokki ef hann væri ekki svona fjandi flinkur!


Næsti leikur í Reykjavíkurmótinu er gegn Valsmönnum sem eru mættir með nýtt þjálfarateymi og fullt hús stiga hingað til. Fjölmennum í Egilshöll eftir vinnu á föstudag og styðjum strákana í mjöööög erfiðu prófi klukkan 19:00.



121 views0 comments

Comments


bottom of page