top of page
Writer's pictureLjón

Safaríkur seinni hálfleikur dugði ekki til gegn Fram

Fram 2 - 1 LEIKNIR

1-0 Helgi Guðjónsson ('6) 2-0 Helgi Guðjónsson ('45) 2-1 Sólon ('59)

Áhorfendur: 338

 

Tímabilið er hálfnað og Leiknismenn hafa tapað einum leik fleiri en þeir hafa unnið. Þeir hafa aldrei deilt stigum með andstæðingnum það sem af er sumars en líklegast hefði það aldrei verið betur við hæfi heldur en einmitt í kvöld í Safamýrinni fornfrægu.




3 breytingar voru gerðar á byrjunarliði okkar manna og að sögn Tístaðgangs félagsins voru þær gerðar vegna meiðsla innan hópsins. HIns vegar voru allir þeir sem viku úr byrjunarliði á bekknum svo þeir voru allavega til taks ef eitthvað stórkostlegt kæmi uppá.


Bæði liðin mættu til leiks hungruð í stigin þrjú eftir vonbrigði í síðustu viku. Heimamenn voru sterkari í byrjun og uppskáru mark strax á 6. mínútu leiksins. Þar var Helgi Guðjónsson markahrókur að verki með mark sem Sólon hefði verið stoltur af. Hann mætti boltanum nokkrum metrum fyrir utan teig og flikkaði á Fred félaga sinn. Gyrðir var kominn út á móti honum en Helgi hélt hlaupi sínu áfram inn í teig með Gyrði skrefinu á eftir og þá var sendingarleiðin greið fyrir Fred inn í teig og næstmarkahæsti maður deildarinnar þakkaði fyrir sig með því að sneiða boltann undir Eyjó sem kom út á móti. Klaufalegt mark sem óþarfi var að fá á sig svo snemma leiks.


Heimamenn héldu frumkvæðinu ekki mjög lengi eftir þetta mark enda gefa mörk mönnum ákveðið svigrúm í leikjum. Okkar menn byrjuðu að spila sig inn í leikinn og heimamenn áttu í vandræðum með að keyra sig í gang eftir að hafa gefið frumkvæðið frá sér. Hins vegar tókst Leiknismönnum ekki að reka smiðshöggið í sóknarleik liðsins og er það hið mesta áhyggjumál. Með Helga í framlínu Framara var hættan alltaf á skyndisókn og fleiri mörkum í hina áttina og það kom á daginn, á síðustu mínútu fyrri hálfleiks kom annað mark eins og blaut tuska í andlit Leiknismanna. Þar var að verki Helgi Guðjónsson aftur. Hann fékk boltann á sig í hlaupi vinstra megin við teig og sökum þess að þar var á ferðinni einn heitasti framherji deildarinnar óð Eyjó greinilega út úr markinu þó að Gyrðir hafi fylgt manninum í áttina að teignum. Sá sá sér leik á borði og fíflaði fyrirliðann okkar illa. Vippaði yfir hann af góðu færi og inn lak boltinn. 2-0 og flautað til hálfleiks.


Helgi Guðjóns er á skotskónum í sumar

Það er ekki hægt að segja að menn hafi verið bjartsýnir á framhaldið í leikhléi enda hafa okkar menn aðeins einu sinni á tímabilinu náð að snúa taflinu við þegar þeir hafa lent undir og var það í 1-0 gegn Haukum, ekki beinlínis liði sem stefnir í toppbaráttu deildarinnar. Þó að Framarar væru að gefa færi á sér áttu þeir alltaf eftir að vera hættulegir gegn brothættri vörn Breiðhyltinga.


En það var allt annað lið Leiknis og allt annað lið Fram sem komu til leiks í seinni hálfleik. Okkar menn áttu hreinlega seinni hálfleikinn. Það var virkilega gaman að sjá baráttuna og vonarglæta vaknaði þegar Sólon setti sitt mark þegar 14 mínútur voru liðnar af seinni. Stjáni var mættur rétt fyrir utan miðjan teiginn og vippaði boltanum í veg fyrir Sólon sem tók hann á bringuna og viðstöðulaust framhjá varnarlausum varamarkmanni heimamanna. Geggjað mark og nóg eftir af leiknum til að klára þetta eða í það minnsta tryggja okkur fyrsta jafntefli sumarsins.


En allt kom fyrir ekki. Það voru fullt af föstum leikatriðum og skemmtilegt spil til að plata Framara framar á völlinn en það tókst einfaldlega ekki að drulla boltanum yfir línuna. Það er skrítið og það er erfitt að reyna að útskýra af hverju ekki. Við erum með tvo markheppna sóknarmenn og svo fullt af mönnum sem hafa sett hann við ýmsar aðstæður. Vuk, Gyrðir og fleiri. En þetta féll ekki fyrir okkar mönnum í kvöld og því tökum við rúntinn heim í Breiðholt með núll stig fyrir þennan leik og ég myndi giska á að þetta hafi verið súrasta tap sumarsins að kyngja fyrir leikmennina því þeir voru í dauðafæri að láta finna betur fyrir sér þarna.


Hnetuskel:

Einbeitingaleysi og mögulega yfirspenna í fyrri hálfleik verða til þess að holan sem menn grófu sér sjálfir var of djúp til að yfirstíga. Í 0-0 hefði þetta getað verið skemmtilegasti leikur sumarsins í seinni hálfleik og farið hvernig sem er en Framara skoruðu tvö á okkur og unnu sér þannig inn að gefa smá eftir í seinni.


Leiknismaður Leiksins: Stefán Árni:

Hann virðist vera búinn að ná sér að fullu af meiðslunum sem hafa hrjáð hann upp á síðkastið og í þessum leik var hann virkilega öflugur í hlaupum og að tækla og láta finna fyrir sér. Hann kom skemmtilega á óvart í byrjun tímabils og vonandi nær hann að halda sér heilum því þessi hlaup á köntunum og leikni með að koma boltanum í hættusvæði gætu gert gæfumuninn á seinni helmingi tímabilsins.


Aðrir Ferskir:

Ernir var enn eina ferðina öflugur í að setja tóninn á miðjunni og fótinn út þegar mikið reið á að gera það.

Stjáni var fastur fyrir og mikið í að reyna að skapa fram á við. Það tókst ekki alltaf vel en hann gaf aldrei eftir í baráttunni. Svo var stoðsendingin hans alveg túdæfor sko!

Vuk kom af bekknum með hálftíma eftir af leiknum og þótt hann hafi ekki verið allt í öllu í leik liðsins þann tíma þá átti hann eitt geggjað hlaup sem hefði getað endað með ósköpum fyrir gestgjafana og iljaði okkur gestamegin í stúkunni um hjartarætur. Þegar maður fær ekki öll stigin er allavega gaman að sjá töframenn í okkar röðum leika listir sínar. Hann er líka svo fljótur að sjá samherja sína og spila þá upp inn á milli. Hann gæti verið super-sub á seinni hlutanum er Sigurður finnur ekki alltaf byrjunarliðssæti fyrir hann. Ég spái því þó að hann fari berserksgang á þriðjudagskvöld gegn Aftureldingu með tvö mörk og eina stoðsendingu.


STAÐAN: Of góðir til að falla, of lélegir til að fara upp.

Hvað má betur fara?

Spennustigið þarf að stilla af hjá sumum. Helgi lék illa á Gyrði þegar hann ætlaði að mæta honum út úr teignum og láta finna fyrir sér og Eyjó átti aldrei að leggja af stað af línunni í seinna markinu. Vörnin er bara ekki nógu góð hjá okkur. Það vantar stöðugleikann þar og aðeins neðstu 3 lið Inkasso-ástríðunnar hafa fengið fleiri mörk á sig í fyrri helmingi mótsins. Sóknin er ekki nógu góð til að bæta fyrir eitt til þrjú mörk í hverjum leik á móti.


Hvað nú?

Stutt helgi og svo hefst seinni hálfleikur mótsins á þriðjudagskvöld með hefndarsigri gegn Mosfellingum í Breiðholtinu. Miðað við hvað menn lögðu mikið í seinni hálfleikinn í kvöld og uppskáru nákvæmlega ekkert fyrir það, væri ef til vill erfitt að mótivera sig fyrir þann leik með stutta hvíld og greinilega mörg minniháttar meiðsl. En við treystum því að menn vilji bæta um betur frá byrjun tímabilsins og tryggja sterka stöðu í deildinni með því að dæma Aftureldingu, Magna og Njarðvík í kjallarann á næstu vikum.



104 views0 comments

Komentarze


bottom of page