top of page
Writer's pictureLjón

Sigur í æfingaleik gegn Haukum

Fyrsti leikur Meistaraflokks Leiknis árið 2020 á Domusnova-vellinum hefur farið fram. Það gerðist í morgun klukkan 10:30 í blíðvirðisveðri og vannst ágætissigur á gestunum 4-1.


Leiknir 4-1 Haukar

Sólon 44'

Haukagaur 66´

Danni Finns 78´ og 81´

Vuk 84´


Áhorfendur: 30


Eins og kom fram í Ljónavarpinu fyrr í vikunni eru menn spenntastir fyrir að sjá nýju varnarmennina koma sterkir inn og sjá holningu á því svæði vallarins sem fyrst svo liðið verði klárt fyrir átök sumarsins.


Sævar Atli og Bjarki voru ekki í hóp en ekki vegna alvarlegra meiðsla. Bara hvíld. Gerið svo vel að anda eðlilega núna. Afsakið óþægindin. Viktor Freyr stóð í markinu og vaktina í vörninni stóðu þeir Gyrðir, Dagur, Eddi og einhvers konar blanda af Ósvaldi og Alfreð en dagsplanið var klárlega að þjarma að nýfölllnu liði Hauka í þessum leik. Ósvald var mikið að ráðast upp vinstri kantinn í morgun og Alfreð að gera svipað hinum megin á vellinum.


Ef markmiðið fyrir sumarið er að finna bestu mögulegu varnarsamsetninguna, söknuðum við klárlega herstjórans Bjarka í dag. En það er greinilega verið að prufa ýmsar nýjar uppstillingar og taktík á þessum tíma árs og líklega gáfulegt af þjálfaraliðinu að reyna að bæta spil liðsins alls staðar á vellinum en ekki halda að það eina sem þurfi að bæta sé vörnin miðað við hvernig hún var spiluð í fyrra.


Binni Hlö er snúinn aftur. Hann fær ekki löglega leikheimild með félaginu fyrr en í næstu viku en hann steig á völlinn í röndum Leiknis á ný í morgun og yljaði sú sjón manni óneitanlega í 1° kuldanum. Hann var í ágætis takt við leikinn, tók sín högg og sýndi allavega eitt vörumerkisvarið tækl með banki í bakið í leiðinni áður en hann fékk að stimpla sig út fyrir miðjan seinni hálfleik.


Leikurinn spilaðist svosem ágætlega. Það var mikið gargað manna á milli og ýmislegt sem greinilega var ekki að fara samkvæmt einhverju plani hjá báðum liðum snemma leiks. Tréverkið hjá báðum liðum fékk að finna fyrir því áður en Sólon sett´ann stuttu fyrir hálfleiksflautið.


Eins og vanalega í æfingaleikjum var seinni hálfleikur tími breytinga. Í hléinu voru þeir Ósi, Eddi og Alfreð bekkjaðir fyrir Birki, Árna Elvar og Jamal Klæng. Á 67.mínútu jöfnuðu svo gestirnir leika með glæsilegri og líklega óverjanlegri aukaspyrnu. Þegar Sólon og Dagur viku svo fyrir þeim Magnúsi Andra og Róberti Vattness á 73.mínútu var útlit fyrir að menn væru hættir að hugsa um úrslitin, ef það var einhvern tíma forgangsatriði. En þá brotnuðu gestirnir.

Danni Finns skoraði tvö mörk með 3 mínútna millibili og svo Vuk kláraði svo 4. markið með tæplega 10 mínútur eftir af leiknum.



Maður leiksins, burtséð frá mörkunum var Danni Finns. Á sínum degi er hann yfirburðamaður á miðjunni sem les leik andstæðinganna vel og stýrir spilinu fram á við. Í dag, með nokkuð takmarkaðan andstæðing, leit hann út eins og hann gerði þegar hann var að sprikla með 2. flokki í fyrra milli Meistaraflokksleikja. Alger yfirburðamaður.

En, semsagt fínasti leikur, heitt á könnunni, ef til vill stærri sigur en var verðskuldað en við klárlega betra liðið. Vörnin er enn óskrifað blað en þetta var skref í rétta átt. Undirritaður er alveg til í einn æfingaleik fyrir Aftureldingu í Lengjubikarnum 28. feb. Operation Pepsi Max heldur áfram gott fólk!


63 views0 comments

Comments


bottom of page