top of page
Writer's pictureLjón

Reykjavíkurmótið byrjar með sigri

Í gær mættu Þróttarar á Domusnovavöllinn í fyrstu umferð Reykjavíkurmótsins þetta árið. Leiknismenn kláruðu leikinn með 4-2 sigri en voru undir í hálfleik.


Hópurinn er ekki allur fullklár en mínar heimildir herma að það sé markmiðið að láta til sín taka í þessu móti með besta mögulega liðið hverju sinni svo það er ekki ætlunin að prufukeyra umfram efni í þessu móti. Í hópinn vantaði öfluga menn eins og Sólon, Gyrði og Binna Hlö en að sama skapi var gaman að sjá unga og spennandi leikmenn eins og Shkelzen Veseli og Davíð Júlían í byrjunarliði.

Í þessum riðli, auk Leiknis og Þróttara, má finna nágranna okkar í ÍR, sem við mætum strax á þriðjudag í 109, og svo Pepsi-Max kollega í Víkingi og Val. Það verður því ærið verkefni að komast áfram úr þessum riðli.


Leikurinn fór fram án áhorfenda á Domusnovavellinum rétt yfir frostmarki. Einhverjir 5 manns lögðust utan á byggingu World Class til að berja liðin augum en um 130 manns horfðu í beinni á YouTube rás félagsins. Ég mæli eindregið með því að fólk noti YouTube reikninga sína til að gerast áskrifendur af þeirri stöð enda góðar líkur á því að hægt verði að fylgjast með framgangi liðsins á næstu vikum þar, hvort sem fólki verður hleypta á völlinn aftur eða fólk nenni ekki að gera sér ferð í alls kyns veðrum að glápa á Stoltið.



Leikurinn hófst á slaginu 13:00 og 13:01 var Sævar Atli búinn að skora fyrsta mark leiksins. Davíð Júlían hafði glímt boltann af Þróttara rétt fyrir utan teig og var fljótur að koma auga á fógetann inni í teig og renndi boltanum á hann. Fyrirliðinn sagði í viðtali á .net í vikunni að hann ætlaði að mæta til leiks í sumar í sínu besta mögulega formi og skora nokkur mörk. Þeir sem horfðu á hann í gær geta staðfest að það er ekkert ryð á þessum vagni! Hann er klár í slaginn og barðist eins og hundur allan leikinn, skoraði 2 mörk og var með 2 stoðsendingar. Að venju, enginn Tax Free helgi af hans frammistöðu, ever.


Eftir þetta mark svöruðu Þróttarar með tveimur mörkum sitthvorum megin við 10 mínúturnar í fyrri hálfleik. Fyrra markið var vel spilað inn í teig en það seinna var upphlaup vinstri kantinn og hefði mátt forðast ef Viktor í markinu hefði komið af meiri ákefð út á móti boltanum. Lærdómur í því. Okkar menn héldu áfram að reyna að skapa eitthvað með takmörkuðum árangri það sem eftir lifði fyrri hálfleiks en án árangurs.


Í hálfleik komu þeir Robert Quental 15 ára og Patryk í miðvörðinn, kominn aftur eftir lánstímabil í Ægi í fyrra. Robert var sprækur eins og við var að búast og ruglaði gestina vel í ríminu. Smátt og smátt tóku okkar menn völdin og það endaði með því að Quental skoraði jöfnunarmarkið um miðjan seinni hálfleik. Stoðsending frá Sævari eftir flotta stungusendingu frá Degi Austmann.


Eftir þetta var leikurinn okkar þó að vörnin hafi annað slagið gefið tækifæri á sér. Það var óumflýjanlegt okkar menn kláruðu dæmið og það kom á daginn að Davíð Júlían sendi Sævar Atla yfir miðjuna einn á móti markverði og kapteinninn sýndi stáltaugar þegar hann fíflaði markvörðinn glæsilega.


Danni Finns, sem hafði verið flottur allan leikinn með leitandi sendingar og spil, setti svo smiðshöggið á sigurinn þegar hann skoraði viðstöðulaust eftir góðan undirbúning æskufélagans með fyrirliðabandið. 3 stig og bring on ÍR!



Valsarar voru í stuði í hinum leik riðilsins og gersigruðu Víkinga 4-1.

39 views0 comments

Comments


bottom of page