top of page
Writer's pictureLjón

Sluppum í sleipunni

LEIKNIR 3 - 2 Afturelding

1-0 Sólon Breki ('25) 1-1 Alexander Aron Davorsson ('43, víti) 2-1 Stefán Árni ('54) 2-2 Andri Freyr Jónasson ('66) RAUTT- Arnór Gauti Jónsson , Afturelding ('69) 3-2 Sævar Atli ('80)



Mosfellingar mættu í rigningarslag í 111 í kvöld og það þurfti allar taugar þandar til að núlla út tapið í vor og taka öll 3 stigin í þessum leik. Miklu meira stress en flestir Breiðhyltingar hefðu kosið fyrirfram en niðurstaðan jákvæð og á því verður byggt framhaldið.



Gameday börgers hafa sjaldan verið betri

Mikið hafði rignt í dag en það var hlýtt og stillt veður á Leiknisvelli í kvöld svo aðstæður gætu vart verið mikið betri fyrir utan smá skúrir inn á milli og sleipan völl. Ernir missti sæti sitt í byrjunarliðinu til Vuk en Daði Bærings tók við hlutverki afturliggjandi miðjumanns sem Gyrðir hefur iðulega sinnt. Leikurinn fór fjörlega af stað og það sköpuðust alls konar færi sökum aðstæðna og mistaka þeirra vegna. Fyrsta risafærið kom á 22. mínútu þegar Sólon var einn kominn í gegn, lék á markvörðinn og setti boltann í átt að markinu en varnarmaður gestanna elti boltann uppi til að hreinsa af línu. Sólon misreiknaði þyngsl vallarins sem hægðu nógu mikið á boltanum til að hægt væri að ná til hans í tæka tíð. Hann var þó þess fullviss að boltinn hefði náð að skríða yfir línuna og mótmælti kröftuglega við aðstoðardómarann.


Stormsenterinn okkar þurfti ekki að örvænta því aðeins þremur mínútum síðar var hann kominn staðfest á blað. Stefán Árni átti fastas sendingu fyrir og einhvern veginn var Sólon einn og óvaldaður inni í vítateig og hefði hreinlega hoppað út í sjó eftir leik ef hann hefði ekki klárað þetta færi, sem hann og gerði af sínum glæsibrag. 1-0 eftir fjörugar upphafsmínútur og menn gátu gert sér vonir um að um lægist aðeins og menn gætu farið að anda með nefinu aftur.

Það hefði því ekki verið neitt mikið minna en hamfarir að sigla þessum sigri ekki heim í kvöld.

En allt kom fyrir ekki. Mosfellingar héldu áfram að pirra okkar menn og í stúkunni voru menn farnir að biðja fyrir því að fá að fara með forystu inn í hálfleikshlé. Þeim varð ekki að ósk sinni. Dæmd var vítaspyrna á Ósvald fyrir snertingu inni í teig á 43.mínútu og var hún afgreidd af öryggi áður en flautað var til hálfleiks.


Byrjunarlið kvöldsins

Menn voru ekki beinlínis óstyrkir í hálfleik enda vilja allir viðriðnir félagið meina að leikmannahópur Leiknis sé töluvert betri en gestanna, en það skrifast kannski frekar á okkur sjálfa en andstæðingana að bakhurðin virðist alltaf vera ólæst, jafnvel galopin. Það vantar ekki að sóknartilburðir okkar héldu áfram frá fyrstu mínútu seinni hálfleiks. Sævar Atli átti m.a. skot í stöng eftir að hafa fíflað varnarmenn Aftureldingar illa og óhætt er að segja að meirihluti stúkunnar hélt um höfuð sér í vantrú þegar netið hristist ekki í framhaldi. Virkilega vel gert hjá Manni Fólksins.


Á 54. mínútu var hann aftur á ferðinni um völlinn og spilaði Stefán Árna í gegn sem fór að sama skapi illa með varnarmenn gestanna áður en hann sett´ann faglega í netið. Ofboðslega vel þegið og sé þess nokkur kostur þarf að fara alvarlega að íhuga að rífa drenginn formlega af KR og setja hann í stúdíóíbúð í Vesturberginu.


Tvisvar voru okkar menn búnir að taka forystuna og aftur gerðum við þau mistök að halda að hægt væri að róa spilið og anda með nefinu, sýna yfirvegun og sigla þessu heim. Fyrir utan einn leik í sumar er það einfaldlega ekki stíll Leiknis 2019. Nei, yfirspenna og hættuleg mistök inn á milli glimmrandi sóknarbolta skal það vera áfram.


Á 66. mínútu kom svo jöfnunarmarkið. Andri Freyr fékk netta sendingu á ferðinni inni í teig og geirnegldi boltann í netið. Ég get ímyndað mér að Sólon horfi á þetta mark og segi "Hey, þetta er mitt múv!" Vel gert hjá honum og að sama skapi gremjandi að leikurinn var orðinn núllstilltur aftur með 25 mínútur eftir.


Illa vegið að góðum manni þegar Vuk vék af velli eftir brottrekstrarbrotið

En örfáum mínútum síðar kom Arnór Gauti í liði Aftureldingar í bobba með því að strauja Vuk aftanfrá af 200% krafti sem uppskar gult spjald hjá dómaranum og var það hans annað slíkt í leiknum. Takk fyrir komuna, góða ferð heim! Vuk náði sér ekki eftir þessa tæklingu og fáeinum mínútum síðar var hann farinn af velli fyrir Danna Finns.


Við manni fleiri síðustu 20 mínúturnar plús og betra liðið yfir það heila. Nú dugði ekkert minna en sóknarþungi og þrjú stig á heimavelli. Annað væri algerlega á skjön við allt sem við höfum heyrt úr herbúðum hópsins og þjálfara varðandi áform félagsins. Fyrir utan að Kristján Páll þurfti að skalla af línu var sóknarþunginn á mark gestanna og á 80.mínútu brast stífla þeirra. Stefán Árni kom sér í álitlega stöðu og setti hann á Sævar Atla sem, enn eina ferðina, lék listir sínar af yfirvegun áður en hann smellti boltanum í netið. Þetta var copy/paste af skotinu í byrjun seinni hálfleiks með þeirri 2% bætingu sem vantaði til að það teldi. Þvílíku endemislífsgæðin að eiga svona mann í liðinu okkar!


Viðbótartíminn var alveg rúmlega 5 mínútur og allan tímann eftir mark Sævars virtust gestirnir líklegir til að finna glufu enda stöðugleiki í varnarvinnu ekki aðalsmerki okkar liðs. En í þetta sinn hafðist þetta og eftir tvo tapleiki í röð þiggjum við stigin þó þau hefðu mátt koma með aðeins minni áreynslu á lykillífæri leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna.


Hnetuskel:

Sóknargæði leikmanna Leiknis halda áfram að dafna og fleyta liðinu áfram en að sama skapi virðist liðið eiga langt í land með að ná upp þéttum og traustvekjandi varnarleik út heilan leik. Afturelding eru nýliðar í deildinni og þó að þeir geti ógnað og gerðu það í kvöld þá eru þeir langt frá því að vera eitt af þeim liðum sem við ættum að sætta okkur við jafntefli við. Það hefði því ekki verið neitt mikið minna en hamfarir að sigla þessum sigri ekki heim í kvöld.


Leiknismaður Leiksins: Stefán Árni:

Tvær stoðsendingar og eitt mark segir sitt en drengurinn er líka sívinnandi og óþolandi fyrir andstæðingana með lappir og búk í þeim öllum stundum upp að því marki sem dómarinn leyfir. Virkilega gott að fá hann til baka úr meiðslum og eins og áður segir, þarf bara að slíta þessum KR samningi og gera hann að okkar til frambúðar. Ekkert rugl.


MoM með FORM

Aðrir ferskir:

Sævar Atli átti stjörnuleik. Stoðsending og mark. Það hefði ekki komið neitt á óvart ef hann hefði náð í þrennu í þessum leik. Hann var iðinn við kolann og alger endemislykilmaður í leik liðsins enn eina ferðina.

Eyjó gat lítið gert í mörkunum tveimur en með sleipan bolta og háar sendingar sýndi hann nauðsynlega yfirvegun öryggi annars sem skilaði sér í að ekki töpuðust stig hér í kvöld.

Daði Bærings hefur sætt gagnrýni á þessari síðu fyrir innkomur sínar í sumar en kom nokkuð sterkur inn í hlutverki Gyrðis á miðjunni sem kom á óvart og var nokkrum sinnum í forgrunni í aðgerðum liðsins.


Hvað má betur fara?:

Það er ekkert hernaðarleyndarmál. Yfirvegun og þéttur varnarleikur. Hann er bara ekki til staðar nema í skorpum og það eyðileggur heilmikið fyrir öllu liðinu. Að venju er þetta ekki einkamál tveggja miðvarða þar sem bakverðirnir eru ákaflega sókndjarfir og allt liðið virðist bara vanta jafnvægi til að þessu linni. Í dag sáum við t.d. ekki besta dag Vuk og þar sem Sævar, Sólon og Stebbi voru í glimmrandi formi, hefði ef til vill verið hægt að ná meira jafnvægi á miðjunni með því að halda Erni inni í byrjunarliðinu og nota Vuk til að sækja af bekknum ef með þyrfti. Þetta er auðvitað ekki alveg svona einfalt og við viljum öll sjá Vuk leika listir sínar en hvað á það að kosta? Núll hreina skyldi það sem eftir er tímabils?


Hvað nú?:

6. sætið er okkar og í bili hefur liðið náð að slíta sig frá neðsta hluta deildarinnar þar sem línur eru farnar að skýrast. Það er ROADTRIP til vina okkar í Grenivík á laugardag. Þeir gerðu sér lítið fyrir og sóttu heil 3 stig með 0-3 sigri í Sunny KEF í kvöld. Þeir verða því kokhraustir þegar þeir koma aftur heim og þar hefur þeirra helsta vígi verið í Inkasso. Það verður því áskorun fólgin í því fyrir Sigga að stilla liðið okkar rétt af fyrir þann leik með aðeins 3 heila daga í hvíld á milli. Magnamenn sjá ugglaust að þetta sé eitt síðasta tækifæri þeirra til að koma sér á skrið og okkar menn sýndu það mjög glöggt í kvöld að þeir eru ekki færir um það hingað til að taka öll völd í leikjum og slútta þeim svo í lausagangi. En ef okkar menn mæta ekki með bringuna út gegn botnliði sem þeir sigruðu 4-1 í fyrstu umferð, þá er eitthvað meira að en lítið. Önnur 3 stig og gleðin tekur völd, takk. Þetta verður eitthvað! Allir norður ;)



Staðan er einfaldlega þessi


135 views0 comments

Comments


bottom of page