top of page
Writer's pictureLjón

Tap gegn Íslandsmeisturum í Reykjavíkurmótinu

Okkar menn luku þátttöku í Reykjavíkurmóti ársins í dag með heimsókn á Hlíðarenda þar sem Íslandsmeistarar Vals sigruðu 3-2 og fara þeir með fullt hús stiga í úrslitaleikinn gegn Fylki.


Fyrir þennan leik höfðu heimamenn unnið alla 3 leiki sína í riðlinum með markatölunni 17-1 eða tæplega 6 mörk skoruð í leik gegn 0.33 fengin á sig. Það var því ákveðinn skrekkur í undirrituðum varðandi leikinn og jafnvel kannski best að vera ekkert að "fórna" okkar bestu mönnum í gagnslaust verkefni að eiga við líklega langbesta lið ársins svona snemma árs osfrv.


En okkar menn mættu sprækir til leiks með sterkt byrjunarlið og fengum við að sjá Gyrði í hægri bak í fyrsta sinn í mótinu. Okkar menn voru betri aðilinn fyrir 15-20 mínúturnar og hefðu vel getað sett fyrsta mark leiksins en smátt og smátt tóku heimamenn yfirhöndina og skoraði fyrirliðinn Haukur Páll svo úr skalla eftir horn þegar aðeins nokkrar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik.


Í seinni hálfleik gátu Valsarar aðeins tekið fótinn af bensíngjöfinni en héldu þó að mestu öllum völdum inni á vellinum. Eftir því sem á leið dróg kraftinn svolítið úr okkar mönnum enda ekki skemmtilegt verkefni að elta leikinn gegn öflugum andstæðingi sem þessum. Úr aukaspyrnu rataði svo boltinn aftur á kollinn hjá Hauki Pál og aftur var ekki mikil mótstaða hjá okkar mönnum þegar hann endanlega sökkti vonum okkar liðs um að ná einhverju úr leiknum á 68. mínútu. 3. markið kom svo þegar 10 mínútur voru eftir af leiknum utan úr teig og átti Viktor Freyr engan sjéns. Leikurinn virtist svo ætla að spilast út í rólegheitum og miðað við útreiðina sem aðrir í riðlinum höfðu fengið, var þetta kannski bara vel sloppið. En þá smellti Dagur boltanum í netið í uppbót og mínútu síðar minnkaði Sævar Atli muninn enn frekar. Okkar menn hefðu jafnvel getað stolið stigi á lokasekúndunum en flautukallinn var ekki á því að gefVerða endalausan gálgafrest.

Verðskuldaður sigur besta liðsins og góður skóli fyrir okkar menn. Það þarf greinilega að skerpa á varnaleik úr föstum leikatriðum og að sama skapi að nýta föstu leikatriðin betur framávið. Okkar menn voru bitlausir í þeim nokkru hornum og aukaspyrnum sem Valsmenn buðu uppá í leiknum. En menn voru sprækir á köflum eins og áður segir og ákafir í að vinna boltann ofarlega á vellinum þegar það átti við.


Það er auðvitað ekkert hægt að lesa of mikið inn í leiki sem eru spilaðir í janúar og febrúar annað en að koma sér í form, prufa uppstillingar og máta sig aðeins við liðin í kring. Þetta verður allt notað til að tálga öflugt lið sem hverfið verður stolt af í sumar. Það er helst að það sé skemmtilegast að sjá ný andlit poppa upp á þessum tíma árs og sjá aðra halda áfram að dafna. Þar má nefna að Davíð Júlían spilaði allan leikinn að þessu sinni og var virkilega gaman að sjá hann hvergi banginn gegn "stjörnum" efstu deildar. Það er stór spurning hvort hann sé að fara að spila einhverja raunverulega rullu 17 ára gamall í hópi Meistaraflokks í sumar. Gæðin leyna sér heldur ekki hjá Gyrði og gott að fá hann inn á völlinn aftur. Aðrir voru flottir eins og vera ber. Nú beinum við sjónum okkar að Lengjubikarnum sem byrjar eftir tæpar 2 vikur með föstudagsleik gegn Damir og útungunarstöð Leiknis í Kópavoginum. Ef menn koma sterkir til leiks þar og taka öll stigin, má ætla að keppnin verði spennandi í þeim riðli, ef menn hafa áhuga á því. Hin 4 liðin í riðli okkar eru ÍBV, Fylkir, Fjölnir og Þróttur Reykjavík.

Þegar þeirri keppni lýkur fer spenningur Leiknisljóna vonandi að ná hámarki enda nálgast keppni í PepsiMax-deildinni óðfluga. Á allra næstu dögum munum við fara að kalla til þá sem vilja og geta skapað stemninguna á vellinum og víðar í sumar.


134 views0 comments

Comentários


bottom of page