top of page
Writer's pictureLjón

Toppsætinu tapað

Við erum eigi lengur á toppi Lengjudeildarinnar. Keflvíkingar voru í Grenivík á sama tíma og okkar menn fengu aðra Norðanmenn í heimsókn og þegar við skoruðum, skoruðu Keflvíkingar. Tvö bestu lið deildarinnar flexuðu og sýndu algera yfirburði gegn andstæðingum sínum í sitthvorum enda landsins. Fram að hálfleik. Þá skyldu leiðir.

Domusnovavöllurinn skartaði sínu fegursta í gær en hann var ákaflega einmanna svona mannlaus

Það voru sannarlega sérstakar aðstæður sem blöstu við leikmönnum þegar þeir komu til leiks í fyrsta sinn í ágústmánuði. 10 áhorfendur voru leyfðir, engir borgarar eða kaffi og meira að segja bannað að fara á klósettið. Það verður ekki tekið af okkar ástkæra félagi að það kemur ekki til greina að það verði Leikni að kenna að einum einasta leik í viðbót verði frestað í mótinu.



Góðu fréttirnar eru að það var núll ryð á leik liðsins okkar þegar flautað var til leiks og yfirburðir á vellinum voru algerir í fyrri hálfleik. Vuk skoraði úr aukaspyrnu og svo aftur innan 15 mínútna þegar Sólon sá hann með heila flugbraut fyrir framan sig til að sigra markvörðinn. Þetta var næstum of auðvelt.


Milljón horn en engin mörk úr þeim í gær. Mynd eftir Hauk Gunnars.

Í þessum leik í fyrra sigruðu Þórsarar nokkuð örugglega og var grjótharður meistarabragur yfir þeim. Ég krýndi þá besta lið deildarinnar að þeim leik loknum en við vitum öll hvernig fór fyrir tímabilinu þeirra eftir það. Mér var hugsað til þess leiks í gær, einn í stúkunni með nokkrum leikmönnum sem ekki komust í hóp af ýmsum ástæðum. Erum við Þór síðasta árs? Fyrri hálfleikurinn var næstum því óþægilega auðveldur og gestirnir með nákvæmlega ekkert fram að færa. Þeir gerðu ekkert nema að tuða á norðlensku enda gersigraðir alls staðar á vellinum og án síns helsta sóknarvopns, Alvaro Montejo, til að leysa málin í þetta sinn.


En við vitum að þessi leikur tapaðist í seinni hálfleik. Þórsarar skoruðu úr skalla á fjærstöng mínútu eftir að Máni hafði bætt við 3. marki okkar rétt fyrir lok fyrri hálfleiks en með 3 mörk í farteskinu og varla byrjarðir að svitna, voru okkar menn alltaf að fara að bæta í ef með þyrfti....eða hvað?



Neibb. Og það var ekki einu sinni eins og menn hafi komið eitthvað hauslausir inn í seinni hálfleikinn eða gerbreytt og flottara liði Þórsara hafi komið dýrvitlausir til leiks í seinni. Einhvern veginn var það hvorugt. Bara sami leikur áfram en hægt og bítandi fengu gestirnir að setja mark sitt á leikinn aftur og það endaði svona illa.


Þegar Þórsarar fengu 2. mark sitt eftir klaufaskap í varnarleiknum kom dofinn yfir leik okkar manna. Fram að vítaspyrnunni sem jafnaði leikinn liðu 15 mínútur þar sem okkar menn sýndu nákvæmlega engan vilja til að bæta við marki og gefa sér smá buffer aftur. Það var engu líkara en að þá væru þeir sprungnir líkamlega. Þeir virtust bara vonast til að gestirnir myndu hætta að berjast og þá gætum við siglt lygnan sjó. Vítið var soft en að sama skapi vondur varnarleikur og lélegar hreinsanir sem skópu það. 3-3 með 20 mínútur til stefnu að halda toppsætinu.


Smitarinn átti vondan dag í gær.

Menn reyndu eitthvað að keyra þetta í gang og meðal annars átti Vuk lögmætt tilkall til vítaspyrnu en hann fór svo hnjaskaður af velli fyrir Hjalta Sig þegar 10 mínútur voru eftir að venjulegum leiktíma, 15 af heildartíma. Við það fór aðaldrifkraftur liðsins sóknarlega af velli. Það verður bara að segjast eins og er. Menn börðust áfram en hornspyrnurnar fjölmörgu sem fengust á lokasprettinum hefðu vissulega verið markvissari með lappir blómsins á bakvið þær. Þetta fjaraði út og 1 stig niðurstaðan.


Á sama tíma tók feyknasterkt lið Keflavíkur öll 3 stigin á Grenivík með því að sýna yfirvegun og halda fengnum hlut og bæta einu marki við í seinni. Nacholausir! Leiknir vermir þá 2. sætið á markatölu og maður hefði þegið það hvenær sem er móts en við vitum að þetta voru klárlega töpuð 2 stig frekar en 1 unnið, allan daginn.



Hingað til á tímabilinu hefur varla verið hægt að gagnrýna nokkrar ákvarðanir í liðsvali og uppstillingu en það er morgunljóst að vörnin er ekki að ná að stilla saman strengi sína nógu vel enda mikið rót á liðsvalinu, sérstaklega vegna meiðsla. Vélin hefur gefið sitt allt í þetta hægra bakvarðarhlutverk en hann á engan veginn heima þar og við þurfum 111% á því að halda að hafa Hjalta og Ósvald heila til að Vélin komist í hjarta miðjunnar sem fyrst í stað Daða eða Árna Elvars. Þeir eiga góða leiki og vonda leiki, aldursforsetarnir í hópi uppalinna leikmanna en það vantar sárlega mann með hreðjar til að stjórna miðjunni og færa ró yfir leikinn að staðaldri. Ekki væri svo verra að fá Danna Finns inn strax á miðvikudag.



Næsti leikur er Vestri á Ísafirði. Fyrsti leikurinn í seinni umferð mótsins, þó að 2 leikir séu enn óspilaðir í þeirri fyrri. Glöggir lesendur muna kannski eftir því að fyrri leikurinn í þessari rimmu var sá eini markalausi hjá okkar liði á tímabilinu og alveg hreint dreeeeepleiðinlegur. Okkar menn stíga nú um borð í flugvél og kvitta fyrir það (og Þórsleikinn) með yfirburðum, markasúpu og endurheimtingu á toppsætinu.




78 views0 comments

Comments


bottom of page