top of page
Writer's pictureLjón

Pepsidraumurinn í öndunarvél

Önnur bylgja Covid-19 faraldursins hefur blessunarlega ekki náð að smita nokkurn mann innan okkar ástkæra félags en hefur samt tekist á ótrúlegan hátt að svipta liðið svæginu sem var til staðar fyrir pásu og kála vonum okkar um sæti meðal þeirra bestu að ári. Það virðist allt í einu nægja andstæðingum að vilja vinna gegn okkur til að tryggja sér í það minnsta 1 stig og okkar menn fjara bara út án mikils mótþróa þriðja leikinn í röð.




mynd: Haukur Gunnars

Betra liðið á vellinum í dag byrjaði daginn í næstneðsta sæti deildarinnar og situr þar enn þrátt fyrir sigurinn á Domusnovavellinum. Það segir heilmikla sögu. Þeir eru komnir með heil 9 mörk skoruð í sumar í 11 leikjum og hefur þriðjungur þeirra komið gegn okkur í 2 leikjum. Okkar menn byrjuðu daginn ósáttir í 4. sæti en sitja enn fastar þar núna. Verðskuldað.


Það þarf svosem ekki að fara mörgum orðum um leikinn sjálfann. Hann var í beinni útsendingu á tveimur stöðum og menn geta horft í hann aftur í stórskemmtilegri lýsingu þeirra Elvars Geirs og Ása úr gámnum á YouTube hér:


Við vitum að gæðin búa í hópnum til að skora mörk og spila skemmtilega knattspyrnu, sérstaklega á meðan menn eins og Vuk, Sævar, Sólon, Danni og Máni eru heilir. En því miður er vörnin og varnarleikur liðsins í heild í molum. Það andar enginn stuðningsmaður rólega þegar andstæðingur fær aukaspyrnu á okkar vallarhelmingi eða hornspyrnu. Líkurnar á marki í mínusdálkinn eru reiknaðar í tugum prósenta þegar slikt ber upp. Í dag horfði undirritaður glaður á leikskýrsluna með það sem hann myndi telja langsterkustu 4 manna varnarlínu sem félagið hefur kost á. Að sama skapi var undirritaður frekar rólegur í hálfleik og til í að vinna 1-0 með þétta vörn í staðinn fyrir flugeldasýningu í þeim seinni. Sem hefði verið gott veganesti gegn toppliðunum 3 sem eru næst í deild. En gestirnir þurftu ekkert að koma dýrvitlausir til leiks eða spýta í lófana í seinni hálfleik. Þeir héldu bara áfram að spila og varnarleikur Leiknis bauð hreinlega uppá stórhættuleg færi frá þeim örfáu leikmönnum sem geta eitthvað innan þeirra raða. Þessi Dion karakter sem allir hafa beðið eftir að jafni sig og komi í byrjunarlið, fékk boltann og pláss bara að vild. Eins og enginn hefði nokkurn tíma heyrt um manninn í Leikni.

Okkar allra besti Siggi hefur "engar áhyggjur" en hann hefur hreinlega alrangt fyrir sér þegar hann segir að við höfum verið frábærir á köflum í dag. Það hlýtur að vera krafa á topplið að geta snúið við taflinu eða allavega tryggt sér jafntefli gegn fallliði á heimavelli. Sérstaklega þegar menn hafa komið sér yfir í seinni hálfleik þáþegar. Þetta var bara lélegt og næstum því mark frá Danna og hálffæri fyrir Ágúst nær ekki að moka yfir fnykinn sem er stækur úr okkar eigin markteig.


Ef Pepsi-Max draumurinn er ekki dauður þá er hann í það minnsta þungt haldinn í öndunarvél og slokknar endanlega á sér ef liðið klárar ekki næstu þrjá leiki með glæsibrag. Þar mætum við nefnilega 3 liðunum sem sitja fyrir ofan okkur í deildinni. Tvö þeirra hafa ekki tapað leik nema heimaleikjum sínum gegn okkur og verða ólíklegir til að mæta á Domusnova í gjafastuði. Þriðja liðið eru Vestmannaeyingar á sínum heimavelli sem hafa ekki tapað neinum leik í sumar en vilja klárlega glíma efsta sætið af Keflvíkingum. Við erum búin að safna 1 stigi af 9 gegn meðalliðum í deildinni síðustu 3 leiki. Þetta sem er framundan eru þrír sex-stiga leikir á 9 daga tímabili sem munu endanlega gera út um vonir okkar Leiknismanna þetta árið. Nema Siggi og strákarnir grípi gæsina og sanni fyrir okkur og sjálfum sér að þeir eigi heima meðal þeirra bestu í deildinni.



151 views0 comments

Comentarios


bottom of page