top of page
Writer's pictureLjón

Toppað á réttum tíma?

Updated: Jul 23, 2020

Þaddna! Geggjuð frammistaða til að kvitta fyrir eina slaka um helgina. Leiknir Reykjavík er komið á toppinn í Lengjudeildinni þegar rétt tæpur þriðjungur tímabilsins er að baki. Það atvikaðist í umferð þar sem óvænt úrslit urðu alls staðar í kringum okkur en í raun eru kannski óvæntustu úrslitin hversu auðveldlega Ólafsvíkingar voru afhausaðir.


5 stjörnu einbeiting og flenging í kvöld á Domusnovavellinum. Mynd eftir Hauk Gunnars

Það er erfitt að skrifa eitthvað vitrænt á svona stundu. Okkar menn mættu bara 111% einbeittir til leiks og afgreiddu andstæðinginn af fagmennsku. Þetta var í raun aldrei í hættu og það sakaði ekki að skora nokkuð snemma leiks til að róa taugarnar. Það er alltaf vænlegt til árangurs.


Þótt vantað hafi 3 af fyrstu 4 valkostum í varnarlínu tímabilsins hingað til, þá hélt liðið hreinu í aðeins annað sinn í sumar. Vélin, Ernir Bjarna, er búinn að bregða sér í allra kvikinda líki í byrjun tímabilsins og leysti í kvöld stöðu miðvarðar af miklum myndugleik við hlið Gyrðis Hrafns sem skaraði líka framúr. Þeir voru flott tvíeyki sem höndlaði Gonzalo-ógnina eins og að drekka mjólk. Sá spænski varð snemma pirraður og fórnaði höndum yfir hörkunni sem þeir sýndu. Hann átti aldrei sjéns í dag.



Vuk skoraði fínasta mark á 12. mínútu eftir góða fyrirgjöf sem Sævar missti af. Markið galopið og blómið í núverandi ham afþakkar ekki ókeypis tækifæri. Eins og áður segir mættu okkar menn ákveðnir til leiks og snemmbúið mark skemmdi ekkert fyrir því. Þeir tóku bara öll völd og öll áhlaup gestanna urðu máttlaus í kjölfarið. Sævar bætti svo við marki eftir að skot Hjalta fór í varnarmann sem var samsíða Sævari og hann lætur ekki segja sér tvisvar að klára svona færi. 2-0 og strákarnir sigldu inn í hálfleikshléið á sjálfsstýringu.


Það var samdóma álit í stúkunni að það væri nánast óþægilega lítið til að hafa áhyggjur af nema menn myndu algerlega missa hausinn á leiðinni úr búningsklefanum. Gyrðir róaði svo allra stressuðustu stuðningsmennina innan þriggja mínútna í seinni með marki úr föstu leikatriði. Skalli eða einhvers konar hark eins og hann er þekktur fyrir og markanefið hans er stærra en flestra í þannig aðstæðum. Sólon Breki hefur kannski ekki fengið fullkomlega sanngjarna umfjöllun í byrjun tímabils og sóknarleikurinn snýst kannski ekki eins mikið og hann hefði viljað um að skapa tækifæri fyrir hann en það verður að segja honum til hróss að hann er óþolandi fyrir varnarmenn að höndla og óþreytandi í að reyna að koma sér í hættulega stöðu til að slútta. Það er ekki sjálfgefið að menn dragi ekki aðeins úr ákafanum þegar þeir fá ekki nógu mikla athygli en hann vinnur fyrir liðið og gladdi það öll sönn Leiknisljón að sjá hann setja tuðruna í netið í kvöld og endanlega tryggja að hægt væri að hvíla lykilmenn fyrir næsta leik sem kemur strax á mánudag.



Það var svo Arnór Ingi Kristinsson sem skoraði síðasta mark leiksins, rétt um 20 sekúndum eftir að hann hafði komið inná. Flott slútt og hans fyrsta mark hans fyrir meistaraflokk félagsins eftir vistaskiptin í byrjun sumars. Hann hafði skorað flott mark fyrir 2. flokk í bikarnum gegn HK um daginn. Hér er á ferðinni mikill gæðingur sem vert er að fylgjast með í framtíðinni. Lokatölur 5-0 og goðsögnin Gaui Þórðar fékk ekki marga hveitibrauðsdaga í nýja starfinu sínu. Flenging af verstu sort og rútuferðin heim líklega tekin í kyrrþey.


Þvert á móti eru okkar menn komnir nokkuð óvænt einir í efsta sæti deildarinnar eftir að úrslit annars staðar fóru mjög svo óvænt. Þetta er óþekktar slóðir fyrir Leikni svona snemma tímabils og eftir að Siggi og hans lærisveinar njóta í kvöld, byrjar verkefnið að halda haus þegar allir eru að horfa upp til okkar.


Unga, flotta, uppalda liðið í Ghettóinu trónir á toppnum og verður ekki vanmetið það sem eftir er tímabils. Það verður farið fallegum orðum um félagið og auðvelt verður að ofmetnast. Það eru bara 4 dagar síðan menn hrösuðu yfir endalínuna gegn Magna með skelfilegri frammistöðu. Siggi leyfir strákunum vonandi ekki að gleyma því. Í fyrra læddust Leiknismenn með veggjum og freistuðu þess svo að stelast í Pepsideildina á síðasta degi tímabilsins. Í ár er markmiðið löngu útgefið og á áætlun. Því fylgja ólíkar áskoranir og verður fróðlegt að sjá hvernig okkar menn takast á við þær. Nú er það Maggi Már og óútreiknanlegt lið markaskorara í Mosó á mánudaginn. En í kvöld er það bara einföld mantra að enskum sið sem svæfir okkur Leikniljónin:

"We´re top of the league, we´re havin´ a laugh!" #StoltBreiðholts

75 views0 comments

Commentaires


bottom of page