top of page
Writer's pictureLjón

Tímabilið klárað með stæl

Okkar menn luku tímabili í gær með flottum sigri á Frömurum og kláruðu þannig seinni helming tímabilsins ósigraðir þó að þessu sinni þurfi Pepsi Max deildin að bíða betri tíma.



LEIKNIR 2 - 1 Fram

0-1 Fred Saraiva ('16) 1-1 Sólon Breki ('23) 2-1 Sævar Atli ('90)

Áhorfendur: 325



Eins og við lofuðum var veðrið eins og best verður á kosið þegar flautað var til leiks á síðasta leik sumarsins, þeim fyrsta á nýskýrðum Domusnova-velli Leiknis. Spennustigið var nokkuð hátt enda enn möguleiki á sæti í Pepsídeild að ári ef allt færi á besta veg. Framarar byrjuðu aðeins betri en kokhreystið í liði Leiknis hefur fyrir löngu smitað frá sér uppí stúku svo menn voru ekkert stressaðir þegar Fred Saraiva vippaði boltanum eftir stutt horn inn í teig og yfir Eyjó í markinu. Þetta var svona bolti sem í 90% tilfella fer of hátt yfir og engin hætta. Í þetta sinn inn í markið og það á 16. mínútu.


Leikni hefur ekki oft tekist að snúa leik við í sigur eftir að hafa lent undir í sumar en, eins og áður segir, er þetta ekki sama lið og við vorum að horfa á í júní. Sævar Atli skapaði sér færi og reyndi vel á markvörð gestanna áður en hann var togaður niður í 26.mínútu í teignum. Víti og kjörið færi á að jafna leikinn og halda voninni lifandi. Sólon steig á punktinn en eins og glöggir Leiknismenn vita er Sævar Atli búinn að vera okkar vítaspyrnuskytta í allt sumar. Hver sem ástæðan er fyrir því að Sólon tók spyrnuna þurfum við ekki að ræða því drengurinn kláraði vítið óverjandi í þaknetið. Vel gert! 1-1.



Það var annað óvenjulegt sem glöggir menn (ég) tóku eftir í byrjun leiks en það var að Kristján Páll var með fyrirliðabandið þó Eyjó væri milli stanganna. Hann orðinn 31 árs og næstleikjahæstur í sögu félagsins svo leyndarmálið opinberaðist þarmeð. Aldursforsetinn að spila sinn síðasta leik fyrir félagið. Við gerum honum og hans ferli góð skil síðar. Það væri móðgun við manninn að troða því inn í leikskýrsluna hér.


1-1 var staðan þegar gengið var til búningsklefa í hálfleik og fréttir af Seltjarnarnesi fóru að leka í stúkuna að Gróttumenn væru komnir með mark gegn Haukum. Það hlaut þá að vera ólíklegt að þeir færu að tapa sínum leik með 2 mörkum og okkar menn höfðu í fullu fangi með að sækja eitt sigurmark þó allt væri enn mögulegt í seinni hálfleik.


Seinni hálfleikur spilaðist nokkuð kaflaskipt en það komu færi og þau fóru án teljandi öruðgleika fyrir hvorugt liðið. Undir lok leiks komu aðeins opnari færi fyrir okkar menn og svo var ákaflega verðmætt að fá loksins mark frá gulldrengnum, Sævari Atla á 91. mínútu leiksins. Ósvald spilaði hann upp frá vinstri og Sævar kláraði færið ákaflega vel. Á þessum tímapunkti voru Gróttumenn komnir í 4-0 svo þetta hafði engin áhrif á töfluna en tapinu úr Safamýri í það minnst snúið við og mótinu slúttað með ósigraðri umferð. Það er svo sannarlega eitthvað.



Hnetuskel:

Fengum sterkt lið í góðu formi í heimsókn og kláruðum þá snyrtilega þrátt fyrir að hafa nokkrum sinnum lent í brekku með varnarleikinn. Flottur endir á glæsilegu tímabili.


Leiknismaður leiksins: Sævar Atli Magnússon

Gulldrengurinn hefur ekki alltaf verið í byrjunarliði uppá síðkastið og greinilega verið að berjast við einhver meiðsli á sama tíma og hann hefur reynt að gefa af sér inni á vellinum. Það var því skemmtilegt að sjá hann komast í góð færi, fiska víti og skora sigurmarkið í þessum leik. Það auðveldar manni líka alltaf valið á manni leiksins þegar það er eitt sigurmark svona í lokinn.


Það var mikið haldið uppá tímabilið í lok leiks en meira um það síðar!

Aðrir ferskir:

Flestir ef ekki allir áttu góðan leik og nú er þessi skýrsla skrifuð á mánudegi eftir leik og lokahóf svo það er algerlega marklaust að gefa mönnum einkunn að svo stöddu. Það er ekki einn leikmaður í þessum hópi sem hefur valdið okkur teljanlegum vonbrigðum í sumar. Í það minnsta ekki af ástæðum sem þeir hafa stjórn á sjálfir. Þetta lið er svo flott og svo gaman að fá að fylgjast með þeim. Takk strákar!


Hvað má betur fara?:

Að einhverjir helvítis nýliðar úr öðru bæjarfélagi drullist til að vera til friðs og séu ekki að rúlla upp tveimur deildum í röð. En það verður víst að hafa það. Við verðum bara betur "tilbúnir" fyrir áhlaup á Pepsi að ári.


Hvað nú?:

Þetta er búið! Komið haust og allir þurfa að finna sér eitthvað annað að gera með tíma sinn. Um sinn. Skilst að meistaraflokkar fari að byrja að æfa aftur í nóvember til að vera klárir í slaginn í vor. Við í Ljónavarpinu verðum allavega með puttann á púlsinum og fullt af áhugaverðum umræðuefnum til að skoða á meðan drengirnir okkar hvíla sig verðskuldað. Það verður þó áhugavert að sjá hvort það sé ekki alveg í lagi að setja yfirlýst stefnuna upp um deild næsta sumar. 3. sætið var okkar svo það er augljóst að það verður skref afturábak að gera ekki pínu betur að ári. Sérstaklega í ljósi þess að stígandinn hefur verið mikill í leik liðsins. Auðvitað verða leikmannabreytingar í hópnum og menn verða að koma í manna stað en með Sigga í stólnum er viðbúið að það sé komin beinagrind að meiri stöðugleika frá fyrsta leik næsta sumar. Bring it on!




63 views0 comments

Comments


bottom of page