Vestramenn fóru helsáttir heim í gær með 1 stig eftir 0-0 janftefli enda augljóst frá fyrstu mínútum leiksins að þeir höfðu engu að tapa. Þeir hefðu þó hæglega getað eyðilagt daginn endanlega fyrir Leiknisfólki með því að taka öll stigin. Við þökkum Smitaranum fyrir sín störf til að fyrirbyggja það. Maður leiksins.
Það fer eftir því hvort þú ert Leiknismaður eða annar knattspyrnuáhugamaður hvort þér finnst spá liðsins um 4.-6. sæti raunhæf. Við sem lifum og hrærumst í Efra-Breiðholti erum þess fullviss að liðið sé það öflugt og breitt að það getur hæglega siglt sér upp í Pepsi-Max að ári. Gærdagurinn var áfellisdómur yfir þeirri trú.
Auðvitað er ekki hægt að fá samba-bolta í hvert mál. En þú ferð ekki uppfyrir deild nema með því að sýna andlegan styrk einmitt í erfiðum leikjum þar sem hinn aðilinn er bara að reyna að pirra þig og múra fyrir markið. Okkar menn einfaldlega féllu á því prófi í gær. Þeir fóru snemma að pirra sig á andstæðingnum og virtust aldrei ná að róa sig og byggja upp spil til að opna vörn gestanna almennilega. Bjarki var hávær í vörninni að stappa stáli í menn og biðja um yfirvegun en því var ekki að mæta hjá samherjum hans.
Miðjan okkar er troðfull af flottum spilurum en á tíðum var eins og menn gæfust bara upp á því að spila í gegnum hana. Vildu bara dúndra yfir hana eða fara upp kantana. En þegar öllu var á botninn hvolft, verður bara að viðurkennast að gestirnir komu klárir í baráttuna og unnu meirihluta einvígjanna þar sem til þeirra kom.
Máni virtist meiðast inni í teig stuttu fyrir hálfleikshlé og Árni Elvar leysti hann af í hálfleik. Það vantaði ferskan blæ í spilið en honum voru mislagðir fætur eins og flestum öðrum. Stórhættulegar sendingar beint á andstæðinginn og menn voru hreinlega í ruglinu oft á tíðum. Virkilega mikil vonbrigði að sjá menn ekki ná að róa sig og snúa andstæðing sem á að vera töluvert lakari niður í grasið. Í staðinn létu þeir þetta allt pirra sig og töpuðu í raun andlitinu margoft. Það er klárt að gestirnir hafa nærst á því að okkar menn pirruðust. Þeir eiga að vita betur og láta Val um að tapa sér á hliðarlínunni fyrir þeirra hönd.
Eins og áður segir, þá bjargaði Guy Smit okkur nokkrum sinnum því hraðaupphlapu Vestramanna voru oft stórhættuleg og reyndi í raun meira á hann en markvörð gestanna þó okkar menn hafi meira verið með boltann og eytt meiri tíma inni í teig þeirra.
Undirritaður er yfrleitt sáttur við innáskiptingar Sigga og félaga en í gær hefði Gyrðir mátt koma inn mikið, mikið fyrr. Maður verður að trúa því að hann sé bara ekki nógu heill til að spila hálftíma því þetta var nákvæmlega þannig leikur sem hann hefði á endanum látið boltann mjakast yfir línuna úr föstu leikatriði. Þau voru fjölmörg í leiknum en sáralítið áhugavert kom uppúr þeim. Gyrðir náði einu skoti rétt framhjá á sínum 10 mínútum inni á vellinum en aðrir leikmenn voru bitlausir að mestu í teignum.
Þannig að, ef þú ert hlutlaus eru þetta bara eðlileg úrslit og Leiknir á sama róli og þú hélst. Ef þú ert Leiknismaður ertu svoldið aumur í egóinu í gær og í dag og smeykur við að næsti andstæðingurinn sé Keflavíkurhraðlestin með Nacho "okkar" Heras í aðalhlutverki. Þeir eru ekki búnir að misstíga sig í fyrstu leikjum eins og við og mæta óhræddir til leiks að halda uppteknum hætti. Það verður afar fróðlegt að sjá hvernig okkar menn mæta til leiks. Það verður slátrun ef menn eru ekki skýrari í hausnum en þetta á föstudaginn. Vonandi verður það bara statement sigur og allir trallandi sáttir með áframhaldið.
Koma svo Leiknismenn!
Comments