top of page
Writer's pictureLjón

Ósigraðir enn!

Víkingur Ó. 1 - 1 LEIKNIR

0-1 Árni Elvar ('27) 1-1 Guðmundur Magnússon ('41)

Í kvöld mættum við góðu varnarliði Víkings í Ólafsvík með þrjá af okkar bestu mönnum í banni en tókst samt að nappa einu stigi með okkur aftur í bæinn og halda áfram að vera ósigraðir í seinni umferð Inkassódeildarinnar. Því ber að fagna og horfa fram veginn.




Siggi var ekki bara neyddur til að gera breytingar á liðinu vegna leikbanna heldur hafði Sólon verið að berjast flensu síðustu daga og var ekki klár í byrjunarliðið. Gleðifréttirnar voru þó að loksins er Ingó Sig klár í slaginn eftir erfið meiðsli og viti menn, honum var plantað einum í fremstu víglínu í kvöld með Vuk og Hjalta sem sókndjörfu miðju/kantmennina fyrir aftan hann. Vörnin var óbreytt frá síðustu leikjum og þeir Ernir, Árni Elvar og Daði Bærings í kveðjuleik fyrir Bandaríkjaför, stóðu á miðjunni.


Við höfum lýst yfir vonbrigðum með mætingu félaga okkar á Leiknisvöll í sumar en það var bæjarskömm af því hversu fáir Ólsarar mættu á völlinn þeirra í kvöld í þokkalegasta veðri. Það var mjótt á munum hvort það væri jafnvel fleira Leiknisfólk sem hafði hætt vinnu fyrr í dag og brunað vestur til að berja liðin augum heldur en þeir sem hefðu bara getað labbað yfir. Það er líka skömm að því að mæta á völl um kvöldmatarleyti á föstudagskvöldi og þurfa að gera ostsamloku úr samlokugrilli að góðu þegar maður er klár í börger. Skamm Ólafsvík, skamm!


VIP stúkan í Ólafsvík er meira Ghettó en Kron er í dag.

Það kom strax í upphafi í ljós að 10 daga pása frá keppni er allt of langur tími fyrir svona ungt og hungrað lið. Þetta fór hægt af stað og ekki bætti úr skák að menn eru ekki vanir að hafa ekki hreinræktaðan sóknarmann fremstan eða Stefán Árna að létta álagið með kanthlaupum sínum en hægt og rólega spiluðu okkar menn sig inn í þetta. Markmiðið var greinilega að halda boltanum og reyna að opna heimamenn með spili frekar en hraða og látum.


Þetta var svolítið þannig að okkar menn spiluðu boltanum án þess að ná að skapa teljandi færi en heimamenn voru fljótir og skipulagðir í hraðasóknum þegar þeir náðu boltanum svo það myndi skipta miklu hvort liðið skoraði fyrsta markið. Sem betur fer var það liðið okkar og einmitt eftir flott spil inn í teig heimamanna. Ekki sá ég hver það var sem gaf boltann snyrtilega á Árna Elvar en hann sendi hann af fullkominni yfirvegun í netið innan úr teignum á 26. mínútu.


Þetta var flott mark og kom einmitt þegar undirrituðum fannst við vera að ná nokkrum yfirtökum í leiknum. Fullkomið að halda því bara áfram í kjölfar marksins og sigla fyrri hálfleiknum í höfn. En okkar mönnum tókst ekki að halda sér þeim megin í lífinu. Heimamenn unnu sig hægt og rólega inn í leikinn og voru búnir að taka yfirhöndina svipað og við höfðum gert, þegar þeir skoruðu sitt mark. Það sem var mest fúlt var að markið var ákaflega ódýrt. Eini stóri og stæðilegi sóknarmaður Víkinga, hann Gummi Magg, fékk að skalla boltann algerlega óvaldaður í netið eftir einfalda fyrirgjöf úr horni. Grátlegt að það þurfi ekki að hafa meira fyrir því að opna vörnina okkar og á hinn bóginn að okkur virðist fyrirmunað að skapa svona færi sjálfir úr hornum hinum megin á vellinum.


Eftir jöfnunarmarkið voru okkar menn alltaf skrefinu á eftir út hálfleikinn og var það mesta mildi að heimamenn náðu ekki að klóna markið sitt í öðrum tveimur hornspyrnum áður en flautað var til leikhlés. Leiknir með flest á hornum sér og ekki að hafa mjög gaman af lífinu, en hey! Það var 1-1 í hálfleik og hægt að þjappa sér og sigla þessu heim í seinni.



Þetta var aftur nokkuð bras í seinni hálfleik, menn pirruðu sig á dómgæslunni báðum megin á vellinum og hvorugt liðið náði yfirhöndinni þó að heimamenn verði að teljast hafa komist nær því. Þeir voru í dauðafæri á 5. mínútu seinni hálfleiks þegar það vantaði eitt skref uppá að boltinn lægi í auðu neti Leiknismanna.


Sólon og Danni Finns komu inná þegar tæpur hálftími var eftir af leiktímanum fyrir þá Ingó og Kristján Pál. Hjalti færði sig þá niður í hægri bak. Þetta var líklega bitlausasta skipting sumarsins hjá þjálfara Leiknis, nema þá mögulega þegar Viktor Marel leysti Árna Elvar af hólmi 20 mínútum síðar. Sólon var augljóslega ekki ferskur en komst í eitt skipti í boltann með menn í bakið en var klárlega ekki að fara að slútta eins skemmtilega og hann hefur gert einu sinni eða tvisvar í sumar.


Það er ekki að ástæðulausu sem Ólsarar eru búnir að fá á sig fæst mörk í deildinni í sumar svo það hefði þurft töluvert ferskara Leiknislið til að niðurlægja þá á heimavelli. 1-1 er vel sloppið.


Fallegur bær, Ólafsvíkin

Hnetuskel: Annað jafnteflið í röð og 5. sigurinn án þess að tapa, sem er sami fjöldi og Leiknir hefur spilað í seinni umferð mótsins. Það er erfitt að horfa á Leikni án Sævars Atla og Stefáns Árna í liðinu. Þetta eru algerir lykilmenn og þegar maður sá að Ingó var fremsti maður fórnaði maður hálfgert höndum en sá síðastnefndi leysti verkefnið nokkuð vel ef út í það er farið. Það var gaman að sjá hann aftur á vellinum í stóru hlutverki og vonandi kemur ekkert bakslag þar á bæ og hann getur tekið stöðu aðeins neðar á vellinum næst. Ólsarar hafa verið að festast í jafnteflum uppá síðkastið og eiga erfitt með að klára sína leiki svo það var bara ágætt að við sluppum með eitthvað, sérstaklega í ljósi úrslita annars staðar í deildinni í kvöld. Við höldum sætum okkar í 4. og 5. sæti.


Hjalti var á eldi í kvöld

Leiknismaður Leiknis: Hjalti Sigurðsson var langbestur í liðinu okkar í kvöld og í nokkuð nýju hlutverki. Hann byrjaði tímabilið sem miðjumaður á miðjunni en hefur svo verið að taka hægri bak. Í þetta sinn var hann hægri kantmaður eða svona hægri vængmaður fyrir aftan sóknarmanninn og leit út fyrir að hafa aldrei gert annað. Hann var yfirleitt öflugur á boltanum og kom sér í alls konar stöður. Hann barðist vel til baka og í tæklingum og virtist bara njóta sín í botn. Hann hefur vaxið vel í liðinu okkar í sumar og það er ómetanlegt að geta notað hann í svona mörgum stöðum á vellinum. Vonandi hafa Íslandsmeistarar KR ekkert pláss fyrir hann í allavega eitt sumar í viðbót og fáum við að njóta krafta hans áfram.


Aðrir ferskir:

Bjarki er að stíga upp sem leiðtogi liðsins. Hann er sígjammandi yfir allan hópinn og skipuleggja spilið. Hann lætur menn heyra það, líka dómarann og er einbeittur í öllum inngripum í varnarleiknum. Ég held að það sé óumflýjanlegt að hann hafi fyrirliðabandið af Eyjó áður en yfir lýkur nema sú staða sé bara eitthvað stöðutákn. Það var Bjarki sem sendi strákana inn í klefa þegar flautað var til leikhlés á meðan hann útskýrði fyrir dómurum leiksins að línan var óljós osfrv. Hann er ennþá eins og rolla á svelli þegar hann fer yfir miðju í opnum leik og virðist ekki ógna baun í hornum svo það má mín vegna bara strax banna honum að fara yfir miðju og leyfa honum að dóminera okkar vallarhelming áfram.

Árni Elvar setti markið af mikilli snilld og var öflugur í sköllum og annarri baráttu. Ofboðslega væri gott að fara að geta kreist út úr honum heilan leik í toppformi.

Ernir Bjarna var enn eina ferðina öflugur "enforcer" á miðjunni og átti meira að segja eina meistaralega hælsendingu sem opnaði vörn heimamanna. Hann gerði líka mistök en eins og við tönglumst endalaust á hér og í stúkunni þá er enginn annar eins og hann í hópnum sem gerir hann þeim mun mikilvægari fyrir spil liðsins. Hann var svo tekinn af lífi undir lok leiksins á miðju vallarins sem endaði með því að James Dale hjá heimamönnum fékk að líta beint rautt. Textalýsandi fotbolti.net hefur verið að horfa á leikinn úr loftbelg í 30.000 feta hæð því einhvern veginn fannst honum Leiknismenn vera jafnsekir og Ólsarar. Ég get staðfest að þó stympingar hafi átt sér stað á báða bófa koma Dale óumbeðinn inn í partýið með því að þrykkja okkar manni aftan frá í samherja sinn og svo í gólfið. Augljóst og sanngjarnt eitt rautt spjald. Case closed.


Bjarki sá um að láta dómaratríóið heyra það

Hvað má betur fara?: Varnarleikur í föstu leikatriðum. Við áttum að tapa þessum leik með 3 skallamörkum úr hornum á 6 mínútna kafla í fyrir hálfleik. Það var ekki nokkrum Leiknismanni að þakka að svo fór ekki. Bara arfaslakur, einbeitingarlaus varnarleikur og enginn að taka af skarið að segja mönnum til þegar við komumst upp með þetta. Ef það á að sigla inn í næsta sumar með svipaðan hóp og setja þá stefnuna á Pepsi Max er ljóst að menn verða að fara að sinna þessu á æfingum. Eins og glöggt kemur fram í mínum skýrslum hér er ég enginn fagmaður í þjálfun en ef það er eitthvað sem liðið okkar virðist æfa af minni alvöru en sóknarhornin, þá eru það varnarhornin blessuð. Það kostaði í kvöld og hefði átt að kosta allt.


Hvað nú?: Boltinn er farinn að rúlla aftur og nú eru "bara" 7 dagar í næsta leik á hefndartúr Leiknis. Heimaleikur gegn Þrótti næsta föstudagskvöld. Núna klukkan 18:00. Vonandi muna allir eftir því hvers konar þrot varð í þeim leik í Laugardal í vor Sunderland Íslands skoruðu 3 mörk á stuttum kafla í seinni hálfleik og okkar menn gáfust einfaldlega upp í fyrsta og eina sinn í sumar. Menn eins og Sævar Atli munu koma bandbrjálaðir inn í þann leik og ekki veitir af því þeir Árni Elvar og Vuk verða í leikbanni það kvöldið. Það hlýtur að vera eitthvað til að berja sér á brjósti með að vera loksins orðið lið sem er erfitt að sigra, þó það þýði jafntefli annað veifið. Leiknir situr í 4. sæti deildarinnar með 6 leiki eftir í mótinu. Grótta missir ekki 3. sætið til okkar í næstu umferð en það ætti þó áfram að vera markmið okkar manna að halda velli og stríða liðunum þarna á toppnum. Nóg eftir og spennandi að vera Leiknisljón!



112 views0 comments

Comments


bottom of page