top of page
Writer's pictureLjón

Óþægilega auðvelt

Leiknismenn halda áfram að sýna mikið svægi í leikjum sínum og í kvöld var það í fullum gangi þegar þeir afhöfðuðu heillum horfna Hauka af fagmennsku og yfirvegun með tveimur miðvarðamörkum eftir hornspyrnur.


Fínasta mæting á því sem kalla mætti kalt sumarkvöld

LEIKNIR 2 - 0 Haukar

1-0 Gyrðir ('14) 2-0 Nacho ('45)

Áhorfendur: 282



Fyrir leik var enn möguleiki á að sjá okkar menn spila í efstu deild að ári og Haukar í bullandi fallbaráttu. Hvorugt hefur breyst en þessi leikur vannst á ákaflega óvenjulegan hátt miðað við það hvernig tímabilið hingað til hefur spilast.


Helmingur varnarlínunnar, þeir Bjarki og Ósvald, voru í leikbanni í kvöld og var maður því mest óstyrkur yfir því að Birkir og Gyrðir væru ekki vandanum vaxnir gegn grimmu liði með Luka Kostic nýkominn í björgunarleiðangur sem þjálfari meistaraflokks Hauka.


Fjölskylda Ómars Kristvinssonar fór þess á leit að klappað yrði fyrir fallna formanninum í stað þess að halda þögn í mínútu fyrir leik. Það heppnaðist vel og leikmenn Leiknis léku með sorgarbönd eins og eðlilegt er. Það er ekki laust við að það hafi verið yfirvegaður andi Ómars yfir leikmönnum þegar flautað var til leiks því þeir hófust strax handa við að taka völdin í leiknum. Jújú, gestirnir voru eitthvað skipulagðari en oft áður í sumar eftir þessi þjálfaraskipti en voru ekkert líklegir til að taka öll völd og keyra yfir okkar menn.


Þvert á móti skein sjálfstraustið og öryggið af strákunum okkar sem léku við hvern sinn fingur og virtust þekkja leik hvers annars betur en nokkru sinni fyrr. Gaman að sjá hvernig stígandinn í liðinu hefur verið og er nú kominn á sjálfstýringu að því er virðist. Fyrsta markið kom á 14. mínútu eftir hornspyrnu Árna Elvars og Gyrðir var aðgangsharðastur í teignum og negldi honum inn.



Eftir markið er ekki hægt að segja að okkar menn hafi gengið á bragðið en að sama skapi gáfu þeir ekkert mikið færi á sér fyrir utan eitt færi sem kom eftir smá yfirsjón hjá Gyrði. Eyjó sá við því eins og forynginn sem hann er. Strákarnir voru annars yfirvegaðir og tilbúnir að bíða eftir tækifærinu til að snúa andstæðingana úr hálslið endanlega. Eitt slíkt tækifæri fékk Sólon á 34. mínútu þegar Hjalti sendi hann í gegn nánast einn á móti markverði og hann negldi honum í hliðarnetið. Maður hefði veðjað ársmiða næsta sumars á að hann hefði í það minnsta reynt á markvörðinn þarna en ókey.


Hálfleikurinn virtist ætla að sigla í hús án átaka en þá átti Hjalti hornspyrnu inní teig og Nacho Heras mætti með kollinn sinn og kláraði! Allt annað líf að sigla inn í hálfleik með tveggja marka forrystu, sérstaklega þar sem andstæðingurinn var þá þegar orðinn nokkuð bugaður.


Seinni hálfleikur spilaðist óþægilega átakalaust. Mótþrói gestanna var lítill og þó að okkar menn hafi gefið frumvkæðið aðeins frá sér var aldrei raunveruleg hætta við mark Leiknis og þeir einfaldlega sigldu 3 stigum í hús og Siggi gat skipt út þeim sem höfðu fengið á sig gul spjöld án þess að missa standardinn niður.


Hnetuskel:

Fagmanna/iðnaðarsigur, hreinn skjöldur og menn ekkert of þreyttir og útkeyrðir. Þeir geta nú sest uppí sófa og vona að Þórsarar tapi stigum. 3 leikir eftir og við erum ennþá með í mótinu. Bara geggjað að fylgjast með þessu liði!


Leiknismaður Leiksins:

Nacho Heras er einróma álit allra. Ég hef verið gagnrýninn á vörnina í sumar enda hefur hún yfirleitt verið að leka óþægilega auðveldum mörkum. Í kvöld tók Nacho fullkomlega af skarið í fjarveru tvennunar sem hann hefur yfirleitt báðum megin við sig og hreinsaði allt frá í lofti og á gólfinu. Hann var hreinlega í essinu sínu, uppskar hreinan skjöld, mark og klárlega sinn besta leik í sumar. Áfram svona!

Aðrir ferskir:

Eyjó hafði svosem ekkert svakalega mikið að gera í kvöld en þurfti að verja eitt dauðafæri og var öruggur í öllum sínum aðgerðum. Hann átti teiginn og það er ekki hægt að fara fram á meira.

Hjalti hélt áfram að ganga í augun á stuðningsmönnum og nú fer að styttast í brottför hjá honum. Engum hlakkar til get ég sagt ykkur. Hann er svo "on" eins og staðan er í dag og útum allan völl. Það var virkilega gaman að sjá hann stelast inn í sendingu Hauka á miðjum vellinum einn og óvaldaður og keyra boltann upp til Sólons. Það hefði getað verið mark sem hefði verið 70% hans eign. Hann er sívinnandi alls staðar á vellinum og ef einhver leikmaður er holdgervingur þess sem hefur breyst frá fyrri umferðinni, þá er það hann.

Árni Elvar var sprækur á miðjunni og átti hornið sem Gyrðir skoraði úr. Hann var flottur í að brjóta upp spil Hauka og reyna að byggja upp sóknir. Kláraði annan leikinn í röð svo það má ætla að meiðslasögu hans sé lokið í bili.

Það var enginn latur, slappur eða lélegur en það eru ekki fleiri sem undirritaður getur sagt að hafi skarað framúr í leiknum.


Hvað má betur fara?:

Bara ekkert. Það er ekki hægt að kvarta yfir föstum leikatriðum eða vörninni eftir svona leik. Ef allir leikir væru svona þá værum við líklega í efsta sæti deildarinnar og þetta væri minnst spennandi tímabil sögunnar. Það var svo mikil yfirvegun yfir þessu að maður var næstum því farinn að íhuga að yfirgefa svæðið í 85. mínútu. Þetta var aldrei í hættu. Maður var búinn að búa sig undir mögulegan naglbít en leikurinn var mikið spennufall á endanum.


Hvað nú?:

Úffff. Liðið er á mikilli siglingu. Ósigrað í seinni umferðinni eins og er margtíundað. 3 leikir eftir og ef allt fer á besta veg á morgun erum við fullkomlega enn með í baráttunni um sæti í Pepsi Max. Það virðist ekki vera mönnum efst í huga enda eru möguleikar okkar minnstir af þeim sem taka þátt í þeirri baráttu en menn eru samt sem áður með metnað fyrir því að klára leikina og svægið er í hámarki á meðan taugaveiklun er horfin. Stefán og Hjalti eru algerir lykilmenn í þessu liði eins og staðan er í dag og það skyldi þó aldrei vera að við fengjum að halda þeim eitt sumar í viðbót ef deildin sem við spilum í næsta sumar heitir Pepsi Max. Að mínu mati væri það besti möguleiki okkar á að halda sæti þar í þetta sinn. Að byggja á því sem er búið að afreka í sumar. Ég er hræddur um að það verði illmögulegt að byggja á þessum árangri næsta sumar án þess að vinna aðra tvo lánslottóvinninga næsta vor. En hey! Rólegur maður! Einn leik í einu. Má maður láta sig dreyma?



168 views0 comments

Comments


bottom of page