top of page
Writer's pictureLjón

Kraftröðun fyrir lokasprettinn

Það eru 5 leikir eftir af tímabilinu og orðnir 4 leikir frá því að við tókum síðast púlsinn á 11 af heitustu stuðningsmönnum liðsins. Það eru ennþá 5 dagar, eða heil eilífð í næsta leik, svo það er við hæfi að henda í eina kraftröðun enn.


Þessir svara kalli hverfisins best um þessar mundir

Þið þekkið þetta vonandi núorðið. Hver stuðningsmaður velur þá 3 leikmenn sem hann telur vera í heitasta/besta forminu þessa dagana og fær sá sem er í 1. sæti, 3 stig, 2. sæti 2 stig og 3. sæti 1 stig. Við birtum hér topp 5 leikmennina í þeirri kosningu að þessu sinni. Hún var jafnari en oft áður. Nema að í 1. sæti var einn maður með 100% atkvæða allra í 1. sætið. Einsdæmi hingað til.


1.Sævar Atli Magnússon (1):

Fyrirliðinn er búinn að vera í fantaformi síðan við töldum atkvæði síðast og hefur bætt í ef eitthvað er. Liðið er bara búið að skora 4 mörk í þeim 4 leikjum sem eru liðnir síðan við kusum síðast. El Sjerífó er búinn að skora....eh, öll af þeim! Hann er kominn í 10 mörk og þarmeð kominn framyfir Vuk með 9 mörk. Drengurinn er búinn að vera baráttujaxl í allt sumar en það er virkilega gaman að sjá mörkin detta fyrir hann líka um þessar mundir. Ekki veitir af. Ef allt fer á besta veg og þessi tvítugi nagli dregur sitt uppeldisfélag upp meðal þeirra bestu á ný, þá verður hann búinn að negla nafn sitt í sögubækur félagsins með allan ferilinn framundan á sama tíma.


2. Guy Smit (-):

Háværi Hollendingurinn byrjaði tímabilið ákaflega sterkur og hélt okkur inni í leikjum þegar á þurfti að halda. Svo fóru mörkin að leka oftar og þá töldu einstaka vörslur ekki eins stórt og áður. Nú erum við aftur komin á stað þar sem stig vinnast með jafnteflum og eins marka sigrum og þá skiptir höfuðmáli að hafa kóng í teignum að öskra úr sér lungun og baða útlimum í allar áttir til að bjarga á síðustu stundu. Guy hefur gert nákvæmlega þetta í síðustu leikjum. Án hans hefðu nafnar okkar getað stolið stigi, Grindavíkurstigið tapast og Magni hefði getað jafnað. Þegar maður maður þakkar sérstaklega fyrir að stjórnin hafi fjárfest í aðkeyptu vinnuafli kortéri í mót, þá veit maður að það var góð fjárfesting. Hingað til hefur hann kostað okkur núll stig og bjargað allavega handfylli, mjög varlega áætlað. Dank u, Onze doelman


3. Vélin (Ernir Bjarna) (3.): Maðurinn er greinilega að bíða eftir því að vera valinn Manhattan maður leiksins til að leyfa sér klippingu en á meðan hann fórnar sér í alla bolta af áfergju og spilar alls staðar sem Siggi sigar honum á vellinum, þá má hann líta út fyrir að vera aggressívur Jesús fyrir mér, og greinilega öðrum Leiknisljónum. Vélin hefur þurft að bregða sér í allra kvikinda líki í sumar en það dylst engum að hann er ákaflega mikilvægur liðinu og heldur bara áfram að vaxa. Það skyldi þó aldrei verða þannig aftur á þessu tímabili að einn leikinn sem engum tekst að opna andstæðinginn að hann detti inn með eitt fallegt mark og enn fallegra fagn?


Flottustu búningarnir/strákarnir

4. Vuk Óskar (2.):

Breiðholtsblómið vermdi bekkinn í byrjun gegn nöfnum okkar og mörkin hafa þornað upp í bili en það hefur í raun ekkert breyst. Vuk er langhæfileikaríkasti leikmaður liðsins og sést langar leiðir að andstæðingurinn er mígandi í brækurnar þegar okkar maður setur hausinn niður og valhoppar af stað með boltann. Það er tímaspursmál áður en þrusurnar hans hætta að hitta menn í magann og sleikja netið í staðinn. Hann heldur áfram að vinna varnarvinnuna og liðið heldur dampi þartil hann tekur öll völd á vellinum aftur. Vandamál Vuk er að hann lætur það líta svo auðvelt út þegar hann ruglar andstæðingana í ríminu og niðurlægir þá svo með fyrirgjöf eða marki, að menn taka það sem sjálfsagðan hlut núorðið.


5. Bjarki (5):

Turninn í vörninni. Business as usual á þessum bænum. Hann er ennþá að fá hlutastarfsmenn með sér í vörnina en hefur náð, í samstarfi við Hollendinginn okkar, að þétta betur en áður í sumar fyrir markið og liðið stendur nú uppi með fæst mörk skoruð á móti sér í deildinni og stendur liðið reyndar betur en á sama tíma í fyrra þegar það var búið að fá á sig 4 mörkum fleira. Svo skoraði greyið maðurinn fullkomlega löglegt mark gegn nöfnunum en dómaradjöfullinn hafði það af honum. Skalli í slá gegn Magna og það er skrifað í skýin að þetta detti loksins fyrir hann á heimavelli gegn Aftureldingu á laugardaginn næstkomandi. Ef hann heldur áfram að standa vaktina í okkar teig og skorar aldrei annað mark á ferlinum þá dugir það okkur ágætega.

100 views0 comments

Recent Posts

See All

Comments


bottom of page