top of page
Writer's pictureLjón

Power Ranking

Vika milli leikja kallar á það að við tökum hús á nokkrum stórum Ljónum og hlerum þá með hvaða leikmenn eru heitastir í hópnum eins og staðan er núna. Að þessu sinni tóku 9 Leiknisljón þátt í kosningunni og óhætt er að segja að nokkrar hrókeringar eru í gangi á listanum.


Rjóminn af annars skítsterku liði okkar á toppnum

Eins og áður hefur komið fram, velur hver stuðningsmaður þá 3 leikmenn sem hann telur vera í besta forminu þessa dagana og raðar þeim í 3 sæti. 1. sætið fær 3 stig, 2. sætið 2 stig og 3. sætið 1 stig. Það er skemmst frá því að segja að efstu tvö sætin fóru hjá öllum kjósendum til annað hvort fyrirliðans eða serbneska blómsins og skyldi á endanum aðeins 1 stig þá tvo að.


Harkalegt er svo fallið hjá manninum sem vermdi 1. sætið í fyrstu kraftröðun sumarsins fyrir aðeins rúmum 3 vikum. Það telur greinilega að setja mörkin fyrir þennan hóp Leiknisljóna.


1. Vuk Óskar Dimitrijevic (3.): Serbneska blómið er búið að festa sig í sessi í sumar sem besti leikmaður liðsins. Það er ekkert flóknara. Hann hefur bara bætt í ef eitthvað er síðan í byrjun mánaðarins með því að skora 4 mörk í 5 leikjum og er hann með 5 mörk í 8 leikjum í heild. Hann hefur líka komið inn sterkur með því að skora fyrsta mark liðsins snemma gegn Víking Ó og Aftureldingu núna síðast á mánudag. Það er ómetanlegt að fá mark snemma gegn andstæðingum sem geta gert liðinu erfitt fyrir eftir því sem á líður og fyrir utan mörkin er Vuk alltaf að leita uppi liðsfélaga með stórkostlegri tækni sinni og hraða. Það verður að síðustu seint þreytt að sjá hvers konar varnarvinnslu drengurinn hefur bætt við leik sinn. Siggi og strákarnir keyra hann út í hverjum leik með kröfu um að koma til baka og hann hefur ekki tekið mínútu í frí inni á vellinum til að láta aðra sjá um baráttuna fyrir sig þetta sumarið. Vel að þessu toppsæti kominn FH-ingurinn. Vonandi eru Logi og Eiður ekki að lesa þetta.



2. Sævar Atli Magnússon (5.): Fyrirliðinn var á dögunum valinn bestur í fyrstu 7 umferðum deildarinnar allrar og hann slóg ekkert af í síðasta leik sem síðan hefur bæst við en tapar hér toppbaráttunni við Vuk með einu stigi. Hann grætur það ekki enda samgleðst hann öllum liðsfélögum sínum í einu og öllu og vinnur þrotlausa vinnu í þágu þeirra milli þess sem hann setur boltann í netið annað slagið. Sævar er búinn að spila alla leiki tímabilsins hingað til og er kominn í 4 mörk í þeim 10 leikjum (Deild og Bikar). Ekkert markanna var þó mikilvægara en þegar hann sótti boltann einfaldlega af Magnamanni á kantinn og prjónaði sér leið upp að markverðinum og sótti stigin 2 sem uppá vantaði til að allt færi ekki á hliðina í slakasta leik liðsins á tímabilinu til þessa. Gulldrengurinn er að stíga upp flottur í viðtölum eftir leiki og sýnir hjarta og karakter fyrir félagið í hvívetna. Pressan eykst bara á toppnum og við vitum að við erum með rétta manninn til að tala tæpitungulaust fyrir hönd hópsins. Þvílík lífsgæði að geta gengið að því sem vísu.

3. Sólon Breki Leifsson (-): Stormsenterinn er kominn í gang. Það var alltaf spurning um hvenær, ekki hvort, þegar hann á í hlut. Eftir rólega byrjun í markaskorun, virkilega vont rautt spjald í bikarnum og ásakanir innan raða einhverra hlaðvarpa um að vera mögulega orðinn afhuga fótbolta, hefur Sólon alltaf haldið áfram að vera óþolandi fyrir varnir andstæðinganna

að meðhöndla og leita að stungusendingum sem hafa kannski látið aðeins á sér sitja með Splash Brothers (Danna og Vuk) sem ógn utan af velli. Stráksi setti hann tvisvar gegn Aftureldingu í síðasta leik og átti stoðsendingu í markinu sem hann skoraði ekki. Ef það skilar manni ekki inn á kraftröðunarlistann, þá er alveg eins gott að hætta bara. Öll 5 mörk hans í sumar hafa komið í þessum 5 leikjum síðan við tókum röðunina síðast. Hann væri sennilega ofar á þessum lista í hvaða öðru liði sem er en við höfum kannski bara tekið það sem sjálfsagðan hlut að mörkin myndu detta inn svo það er ekkert að koma okkur á óvart með Sólon okkar. Meira svona, takk!




4. Guy Smit (2.): Smitarinn er ennþá mikill fengur fyrir liðið en á meðan töframennirnir fram á við eru að skora 5 mörk reglulega, er ekki eins augljóst að Hollendingurinn sé að bjarga rassgatinu á okkur og skrapa saman stigum í baráttunni uppá sitt einsdæmi. Hann er engu að síður ákaflega mikilvægur liðinu enn sem fyrr og með allt þetta rót á vörninni brothættu er erfitt að ofmeta framlag hans við að halda mínusmarkatölunni niðri eins mikið og raun hefur borið vitni. Hann varði t.d. meistaralega þegar allir aðrir höfðu slökkt á sér í Mosó á mánudaginn síðastliðna. Það hefði hæglega getað endað með því að heimamenn sem voru gengnir á lagið hefðu getað stolið stigi...jafnvel meiru.

5. Gyrðir Hrafn Guðbrandsson (-): Gyrðir hefur spilað í öllum leikjum sumarsins en alls ekki alltaf í byrjunarliði og alls ekkert í almennilega fyrirfram ákveðinni stöðu innan vallarins. Hann hefur yfirleitt verið tilkallaður á miðjunni en eftir mikið af róteringu í vörninni og sérstaklega miðverðinum uppá síðkastið er eins og forlögin hafi snúið

uppá hönd þjálfaraliðsins og í síðasta leik var Gyddi að mati Sigga besti leikmaður vallarins. Það er erfitt að vera ósammála því þó Sólon hafi verið með tvö mörk og stoðsendingu. Gyrðir átti teiginn og tók af skarið við skipulagningu varnarinnar með annan hlutastarfsmann sér við hlið í Vélinni. Það var einkar ánægjulegt að sjá okkar mann stíga svona upp og áframhaldandi fjarvera Binna ásamt erfiðleikum við að halda Bjarka á vellinum gæti orðið til þess að búið sé að þröngva niðurnegldu hlutverki á gæðinginn. Það má ekki gleyma því að ofaná mikla varnarhæfileika er Gyrðir einstaklega markheppinn í föstum leikatriðum og það getur talið stórt þegar stigin eru talin í lok hausts. Vonandi er Gyrðir kominn til að vera í þessum ham!



74 views0 comments

Comments


bottom of page