4 leikir búnir af tímabilinu og þá er kominn tími til að vega og meta og hefur Kraftröðunarnefndin kveðið upp dóm sinn. Danni Finns dettur eðlilega útaf kortinu og fullt af ferskum andlitum koma í staðinn.
14 af hörðustu stuðningsmönnum félagsins velja þá þrjá leikmenn sem þeir telja heitasta eins og staðan er í dag og væru því fyrstir á blað fyrir næsta leik. Þeir 5 leikmenn sem fá flest stig, komast á listann hverju sinni. Hér er niðurstaðan:
1. Viktor Freyr Sigurðsson (*):
Þvílík sokkun! Stærsta áhyggjuefnið fyrir tímabilið var trú Sigga á þessum unga markverði enda átti liðið að vera vel mannað í öllum öðrum stöðum og ef þessi myndi guggna á stóra sviðinu, væri fjandinn laus. Markvarðastaðan er einstök. Ef Viktor Freyr hefði klikkað væri ekki hægt að henda Degi eða Gyrði í hana eins og með allar aðrar stöður á vellinum. En allar áhyggjur voru óþarfar. Drengurinn hefur slegið í gegn milli stanganna og verið valinn í lið umferðarinnar í 3.umferð. Einn af fáum ljósum punktum á tímabilinu hingað til. Drengurinn fékk meira að segja nýjan tæplega þriggja ára samning við félagið í verðlaun.
2. Binni Hlö (*):
Geitin hefur, eins og við var búist, komið vel undan vetri. Allar áhyggjur af því að árin séu að færast yfir skrokkinn eða ástríðuna eru ótímabærar og okkar maður heldur áfram að leggja allt í sölurnar til koma tímabilinu inn á rétta braut.
3. Arnór Ingi Kristinsson:
Bakvörðurinn ungi er enn og aftur að standa sína vakt glæsilega í liðinu og eina markið sem hefur komið var úr hans skoti þó það hafi skráðst sem sjálfsmark. Einbeittur og ákafur í baráttunni. Það er alltaf hægt að treysta á fullt gas hjá Nóra og með nokkra bakverði á batavegi sem alla jafna ættu að ganga inn í liðið framyfir hann, hefur þessi ungi maður ekki gefið Sigga neinn valkost nema að hvíla þá þartil hann er búinn að fá nóg af harkinu.
4. Róbert Hauksson (2.):
Hvern hefði órað fyrir því að með fullt af aðkeyptum erlendum kanónnum myndi eini sóknarþenkjandi leikmaðurinn á listanum vera Róbert "litli" Hauksson? Hann er ekki búinn að skora. Við vitum það. En jedídddamía hvað hann er búinn að hlaupa og hafa fyrir hlutunum. Það er ekki við hann að sakast að mörkin hafa ekki verið að detta. Og hér eru verðlaunin. Leiknisljónin taka vel eftir vinnuframlaginu og baráttunni. Sérstaklega þegar hlutirnir eru ekki að ganga alveg smurt fyrir sig. Það er bara tímaspursmál hvenær fyrsta markið dettur fyrir þennan og við bönnum Sigga hérmeð að bekkja drenginn fyrr en hann tapar sætinu sjálfur. Þessi ætti að eiga langa framtíð fyrir sér í röndum Stoltsins.
5. Dagur Austmann (5):
Þessi fallegi Dagur hefur haldið uppteknum hætti frá því á undirbúningstímabilinu. Hann er einfaldlega gæðavarnarmaður í fantaformi. Hann getur spilað bakvörð eða miðvörð og skilar alltaf klassaframmistöðu. Ljónin taka eftir svoleiðis og kunna að meta að stöðugleikinn er þarna.
Comments