top of page
Writer's pictureLjón

Risaheimaleikjatörn framundan: Hvar verður þú?

Það sem eftir lifir júlímánaðar spila okkar menn alltaf heima á Domusnovavellinum í PepsiMax-deildinni. Það er algert lífsspursmál fyrir tilveru félagsins í efstu deild að þú og allir sem þú þekkir, flykki sér bakvið strákana og mætið á völlinn. Af hverju? Við skulum fara yfir það hér.



Á sunnudag klárast EM2020 og fráhvörfin verða ekki verri en svo að við tekur risabotnslagur okkar manna við Skagamenn á Domusnovavellinum á mánudagskvöld. Þeir gulklæddu hafa oft verið okkur erfiðir en það er mikilvægt að við látum heimavöllinn telja og geirneglum þá við botnsætið og sviptum þá sem mestri von um að geta afrekað nokkuð annað en það sæti í sumar. Það er ekki sjálfgefið en þeir voru grátlega nálægt því að tryggja sér stig í Víkinni í síðasta leik.



Næstu leikir eftir það eru við Stjörnuna sem er komin í gang og svo koma Dalvíkingarnir úr KA í heimsókn undir lok mánaðar. Þeir kunna sitthvað í knattspyrnuiðkun líka.


Okkar menn liggja óþægilega nálægt botnsæti eins og er

Staðan í deildinni er þannig að þó að okkar menn séu með rúmlega eins leiks böffer fyrir ofan fallsvæðið, þá skipast veður fljótt í lofti ef ekki tekst að klára þessa heimaleiki með nokkuð myndarlegt safn stiga í pokann. Nú spyrja sig sjálfsagt einhverjir af hverju við erum að örvænta þegar hálft tímabilið er eftir. Við sjáum mynd.


Leiknir er með lélegasta útivallarárangur deildarinnar hingað til

Eins og sést á útivallarárangrinum hér að ofan, þá er Leiknir með versta árangur deildarinnar á útivelli. Það hefur ekki áunnist eitt stig síðan í fyrsta leik á Samsung-vellinum og aðeins verið skorað 1 mark, sem var í tapinu gegn HK í Kórnum. Þegar upp er staðið skiptir engu máli hversu vel menn hafa spilað í hinum og þessum leik á útivelli, uppskeran hefur verið ákaflega dræm.


Þvert á móti eru góðu fréttirnar að Domusnovavöllurinn, öfugt við sögulegt samhengi, hefur orðið að hálfgerðu virki þar sem strákarnir bjóða öllum byrginn og aðeins KR-ingum hefur tekist að leggja okkar menn þar í sumar. Ef engin óvænt umskipti verða í sumar, er því augljóst að við verðum að halda áfram að treysta á heimavöllinn til að safna stigum og helmingur þeirra sem eftir eru, eru þessir næstu þrír. Þessir sem þú verður að mæta á og sýni stuðning þinn í verki.

Þannig að ef þú hefur ekki enn látið sjá þig á vellinum í sumar, er kjörið að drífa sig á mánudaginn og hjálpa okkur að tryggja mikilvæg 3 stig til að byggja á. Miðað við sumarið hingað til viljum við alls ekki þurfa að treysta á útivallarsigra til að tryggja veru Leiknis í efstu deild annað árið í röð og festa sig í sessi sem stórveldið í Ofur-Breiðholti. Að venju hefjum við drykkfelldu söngfuglarnir leikinn hjá Soffíu á Álfinum í Hólagarði þar sem við drekkum bjór eins og árið sé 1996 eða allavega borgum við miðað við það. Aðrir halda í Klúbbhúsið og bíða eftir okkur hinum þar með borgara og jafnvel PepsiMax í hönd.


Sjáumst á mánudagskvöld kæru Leiknismenn!


22 views0 comments

Comments


bottom of page