top of page
Writer's pictureLjón

STYRKLISTINN (Power Rankings)



Í amerískum íþróttum koma reglulega út svokölluð Power Rankings í þeirra deildum. Þetta er listinn yfir sterkustu liðin og einstaklingana hverju sinni, óháð stöðu þeirra í töflunni. Það má segja að þetta sé staða liðanna og leikmannanna byggt á núverandi formi. Við fjórir sem höfum komið að upptökum Ljónavarpsins hentum að gamni í blinda einkunnagjöf af þessum toga og hér eru niðurstöðurnar.

 


1. Stefán Árni Geirsson: KR-ingurinn knái (á láni) er búinn að vera á eldi í sumar og það er svosem ekki eitthvað sem er nýtilkomið. Það er erfitt að sjá fyrir sér að hans leikstíll yrði ekki bara "plug & play" fyrir hvaða lið sem er. Hann er óþolandi leikinn með boltann og sleipur fyrir varnarmenn andstæðinganna að stoppa. Ungir leikmenn eru oft óstöðugir og hverfa inn á milli í leikjum en Stefán hefur í nánast öllum leikjum sem hann spilar verið einn af bestu mönnum vallarins og í síðustu leikjum hefur hann líka verið að sinna varnarskyldum sínum eins og óður maður. Alltaf með lappirnar í varnarmönnum sem eiga sér einskis ills von. Þessi 19 ára strákur er með framtíðina fyrir sér. Við skulum vona að KR-ingar séu að fylgjast með. Annars tökum við hann glaðir í fóstur næsta sumar líka. 9 stig af 12 mögulegum.



2. Sævar Atli: Gulldrengurinn Okkar© hefur komið sprækur til leiks í sumar og er kominn með 7 mörk í 15 leikjum. Hann er búinn að vera efnilegur og skemmtilegur sóknarmaður á að horfa í nokkur ár núna en í vetur bætti hann við miklum líkamlegum styrk og hefur náð að tvinna það vel inn í leik sinn án þess að gefa eftir í hraða og lipurð. Hann er metnaðargjarn fyrir hönd sín og klúbbsins og það vefst ekki fyrir neinum að ef báðum tekst ekki að komast í Pepsi á allra næstu árum, þá fer hann þangað einn. Það verður gaman að sjá hann gegn Þrótti næstkomandi föstudag þar sem hann á harma að hefna eftir að hafa klikkað af vítateignum í þeim leik í fyrri umferðinni, sem tapaðist svo niður í rugl 3-0. 7 stig af 12 mögulegum.


3. Ernir Bjarna: Riddarinn á miðjunni. Hann er einstakur baráttumaður sem þurfti fyrst og fremst að berjast í byrjun tímabils til að fá náð fyrir augum Stebba Gísla en er núna ómögulega ekki einn af allra fyrstu mönnum á blað hjá Sigga ef hann er ekki tæpur með meiðsli. Hann er óhræddur með skóna í loftið og takkana upp þegar með þarf og hefur einstakt lag á að hægja á uppspili andstæðinganna. Í hóp sem inniheldur nóg af skapandi gæðum fram á við er þessi maður búinn að marka sér pláss sem ómissandi hluti af uppskriftinni ef ekki á illa að fara bakatil. 5 stig af 12 mögulegum.



4. Bjarki Aðal: Sterkari og yfirvegaðri vörn er aðalástæðan fyrir því að stöðugleiki hefur náðst í úrslitum okkar manna í seinni umferðinni. Þar á Bjarki mikinn hluta hróssins skilið. Hann hefur upp á síðkastið látið heyra mikið meira í sér í skipulagi liðsins og það á við um alls staðar á vellinum. Það heyrist oft í honum skipta sér af því hvernig Vuk og Sævar eru að verjast fremst á vellinum og Sólon hefur engra kosta völ aðra en að koma til baka og hjálpa þegar Bjarki segir til. Bjarki hefur ekki bara tekið stökk framávið í kjaftinu því hann er líka búinn að sýna mjög stöðugan leik í teignum, bæði í skallahreinsunum og að henda sér fyrir boltann. Hann er ekki okkar fljótasti varnarmaður en það vantar ekki að hann er með á nótunum í að lesa leikinn. Þetta er hans þriðja og besta tímabil hjá Leikni og vonandi heldur partýið áfram endalaust. 2 stig af 12 mögulegum.


5. Sólon Breki: Eini hreinræktaði sóknarmaðurinn okkar hefur kannski flogið aðeins undir radarnum í sumar sem alger ómissandi lykilmaður en það er kannski bara af því að hópurinn er svo sterkur í sumar. Honum hefur ekkert farið aftur með 7 mörk eins og Sævar Atli og mörkin hafa oftar en ekki verið af dýrari gerðinni hjá Sóloni. Það verður gaman að sjá hann og Sævar í kappi í síðustu 6 leikjunum um hvor verður markakóngur liðsins í haust. 1 stig af 12 mögulegum.


Stigagjöfin var þannig að hver Ljónavarpsstjórnandi skilaði inn sterkustu 3 leikmönnum sínum eins og staðan er í dag. Hjá hverjum og einum fékk sá sem var í efsta sæti 3 stig, 2. sætið fékk 2 stig og 3. sætið fékk 1 stig. Við erum 4 sem kusum og því var mest hægt að ná sér í 12 stig.

120 views0 comments

Recent Posts

See All

תגובות


bottom of page