top of page
Writer's pictureLjón

Ævintýramennirnir úr Pepsi: Hvar eru þeir nú?

Sumarið 2015 var ógleymanlegt í hugum allra Leiknismanna. Það var sumarið sem Leiknir spilaði í deild þeirra bestu á Íslandi. Sumarið sem menn, innan vallar sem utan, rembdust eins og rjúpan við staurinn að halda drauminum gangandi. Það tókst ekki alveg en minningin lifir góðu lífi. En hvað varð um hetjurnar okkar eftir þetta sumar? Hér ætlum við að kíkja aðeins á hvar leikmenn og þjálfarar liðsins frá 2015 eru niðurkomnir í dag.



Þetta er ekki 10 ára reunion svo það eru nú nokkrir enn innan okkar raða frá þessum tíma. Valur Gunnars vermir bekkinn enn sem markvarðaþjálfari og hoppar hæð sína trítilóður sem aldrei fyrr þegar eitthvað er á okkar hlut gert. Þeir Eyjó í markinu og Kristján Páll eru enn í fullu fjöri og þeir Sævar Atli og Daði Bærings komu smávegis við sögu á þessum tíma en spila töluvert stærri rullu í liðinu í dag enda orðnir aðeins meira fullorðnir. En hvað með alla hina?


Davíð Snorri Jónasson var annar helmingur þjálfarateymisins sem hætti eftir þetta magnaða verkefni. Hann færði sig yfir til Stjörnunnar sem aðstoðarþjálfari í meistaraflokki en hann sinnti öðrum þjálfarastöðum innan félagsins með því, þmt yfirþjálfarastöðu félagsins síðustu mánuðina áður en kallið frá KSÍ kom í byrjun síðasta árs. Þá var hann ráðinn þjálfari U-17 ára liðs íslenska landsliðsins í karlaflokki. Hann var ekki lengi að koma liðinu í lokakeppni EM þó að á þessum aldri sé lykilatriðið ekki endilega úrslitin heldur að byggja karakter og fagmennsku hjá þessum ungu mönnum eins og kom fram í spjalli við Elvar Geir og Tom í útvarpsþætti .net (sjá hlekk fyrir neðan).



Freyr Alexandersson þarf nú ekki mikið að fabúlera um. Þegar hann og Davíð Snorri sögðu störfum sínum lausum hjá Leikni gat Freyr einbeitt sér af fullum krafti að þjálfun Kvennalandsliðsins og gerði hann það fram á síðasta haust þegar hann var tilkynntur sem aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins við hlið hins sænska Eric Hamren. Það verkefni fór brösulega af stað enda erfitt að fylgja eftir King Lars og Heimi Hallgríms en Freysi er fótboltamaður í húð og hár og er karlalandsliðsvagninn kominn á fullt fart fyrir haustið núna. Það verður gaman að fylgjast með honum gargandi á hliðarlínunum á EM-Alls Staðar næsta sumar. Milli Inkasso-leikja auðvitað.


Óttar Bjarni Guðmundsson. ÓBG! Hann er enn í fullu fjöri enda ekki nema 29 ára í dag. Óttar tók slaginn með Leikni í Inkasso sumarið 2016 en bragðið af Pepsi var of gott til að hafna tækifæri til að slást í för með Stjörnunni fyrir sumarið 2017. Þar fékk hann hins vegar ákaflega fá tækifæri til að sýna sig. Hann var þar tvö tímabil og náði innan við 10 deildarleikjum hvort árið. Hins vegar flutti hann sig yfir til nýliða ÍA frá Akranesi síðastliðinn vetur og hefur slegið í gegn með spútnikliðinu gulklædda í vor og sumar. Hann smellpassar í vörn ÍA-manna og í byrjun tímabils tók hann sig til og skoraði 3 mörk í 3 leikjum á 10 dögum eftir að hafa ekki skorað síðan 2014 fram að því. Þó Skagamenn og Óttar okkar hafa gefið eftir síðan í vor, verða þeir áfram í efstu deild næsta sumar og Óttar Bjarni áfram í lykilhlutverki þar.


Halldór Kristinn Halldórsson var við hlið Óttars í miðverðinum þetta langa og viðburðarríka sumar. Hann spilaði alla leikina í Pepsi-deildinni. Hann er uppalinn Leiknismaður en hafði reynt fyrir sér með úrvalsdeildarliðum Vals og Keflavíkur í 4 ár þegar honum bauðst að koma heim og berjast með okkur sem reynslubolti á þessu sviði. Eftir fallið hélt Halldór út næstu tvö sumur en var farinn að berjast við meiðsli til að halda sér gangandi og hætti því knattspyrnuiðkun af fullum krafti haustið 2017. Hann hefur komið lítillega við sögu hjá KB í fyrra og einu sinni í sumar en hann er nú aðallega að einbeita sér að starfsframa og fjölskyldu sinni þó hann venji komur sínar á hólinn reglulega.



Eiríkur Ingi Magnússon var í hægri bak, alger lykilmaður í því að sigra Inkasso-deildina sumarið 2014 eftir að hann kom til félagsins frá KF. Grjótharður og einbeittur í vörninni og alltaf gaf hann 100% í hvern einasta leik. Hann spilaði 20 leiki fyrir okkur í Pepsi og engin töp var hægt að rekja til hans. Eftir að hann spilaði alla leikina í Inkasso sumarið 2016, virðist hann hafa misst áhugan á að gefa allt í fótboltann og gekk í raðir Augnabliks í 4. deildinni. Hann spilaði tæplega 20 leiki sumarið 2017 í þeirra röðum en aðeins 4 leiki síðasta sumar. Það má gera ráð fyrir að hann sé að fullu hættur knattspyrnuiðkun þó hann sé enn ekki nema 28 ára. Það verður þó ekki tekið af drengnum að hann heldur sér í toppformi með alls konar íþróttaiðkun og hann tók meira að segja þátt í Reykjavík CrossFit Championships í vor. Það gæti verið eina ástæðan fyrir því að sleppa því að fá hann í spjall í Ljónavarpinu. Allt Crossfit-spjallið.


Charley Fomen var lykilaðkomumaðurinn sem átti að hjálpa til með að tryggja stöðu liðsins meðal þeirra bestu úr stöðu vinstri bak. Hann var formlega leikmaður FH en lánaður til Leiknis út tímabilið. Kamerúninn var langt frá því að slá í gegn í liðinu og olli nokkrum vonbrigðum miðað við væntingar. Fomen spilaði svo aldrei fyrir FH heldur og hélt af landi brott. Það eru þó engin merki um að hann hafi farið í nýtt félag fyrr en 2 árum síðar í C-deild Frakklands hjá Red Star. Hann missti föður sinn 2017 og sem eini sonur hans þurfti hann að sinna fjölskyldunni á þeim tíma áður en hann gæti farið á fullt aftur í boltann. Hann virðist þó ekki hafa spilað nema 4 leiki fyrir Red Star og er nú án félags. Knattspyrnuferlinum virðist því, þar til annað kemur í ljós, vera lokið.


Sindri Björnsson byrjaði að blómstra einmitt sumarið 2014 og 2015 (þá 19 og 20 ára) enda uppalinn Leiknissnillingur. Hann skoraði 13 mörk 2014 og klár í Pepsi. Eftir að Pepsi ævintýrinu lauk var ljóst að hann þyrfti að yfirgefa félagið til að halda áfram að blómstra og Valsmenn stukku á þennan heita bita. Honum gekk þó brösulega að festa sig í sessi þar og kom aftur á láni sumarið 2016. Sumarið 2017 og 2018 náði hann að skrapa saman 9 leikjum í deild og bikar fyrir Val hvort sumarið fyrir sig. Þrátt fyrir algert þrot hjá Íslandsmeisturunum í byrjun móts í ár hefur Sindri ekki fengið nema einu sinni að taka þátt í leik með þeim og var lánaður til Vestmannaeyinga í glugganum nú í júlí. Þar hefur hann verið með í 4 leikjum hingað til en heldur svo út í nám von bráðar svo tímabili hans lýkur á næstu dögum. Þessi mikli hæfileikamaður verðskuldar að sleppa af Hlíðarenda og ef ekkert annað Pepsi-lið sér gæðin í honum er hann auðvitað velkominn aftur á Leiknisvöll í röndóttri treyju í stað gæsluvestis næsta sumar;)



Binni Hlö er og verður goðsögn í liði Leiknis. Hann var lykilmaður á miðjunni í mörg ár fram að fluginu upp í Pepsi og hélt áfram að berjast með okkur næstu tvö tímabil á eftir. Svo kom kallið frá Færeyjum í fyrra þar sem Heimir Guðjónsson var að taka við liði HB þar í landi í fyrra. Binni stökk til og gerðist Færeyjameistari á sínu fyrsta tímabili. Binni ákvað að taka slaginn með Heimi í sumar líka en hefur verið virkilega óheppinn með meiðsli í sumar og aðeins náð að spila um helming leikjanna. Liðið er í þessum skrifuðu orðum í 5. sæti í deildinni en það er nægur tími til stefnu að ná Gauja Þórðar og co. í NSÍ Runavík.


Elvar Páll Sigurðsson kom til félagsins frá Breiðablik fyrir Pepsi-ævintýrið og það var ekki af því að hann var ekki að fá sjénsinn hjá uppeldisfélaginu því hann hafði spilað 15 leiki í Pepsi þegar Leiknir var að tryggja sig upp sumarið á undan. Elvar Páll var snöggur og góður kantmaður sem miklar vonir voru bundnar við. Hann spilaði 20 leiki og skoraði engin mörk í Pepsisumrinu og þó gæðin hafi lekið af honum virtist vera, var undirritaður allavega vonsvikinn með útkomuna hjá þessum dreng. Elvar Páll tók svo slaginn næstu tvö ár með Leikni, skoraði 4 mörk og spilaði alla leikina í Inkasso 2016 en sumarið 2017 varð hann fyrir vondum meiðslum í leik á Vivaldi-vellinum þegar hann ökklabrotnaði. Hann hefur ekki stigið á völl í vegum KSÍ síðan þá og þrátt fyrir að fylla ekki 30 árin fyrr en eftir 2 ár þá hafa þessi meiðsl líklega orðið til þess að ef hann hefði náð fullri heilsu hefði hraðinn í leik hans beðið mikla hnekki. Hann er þó enn skráður Leiknismaður og hver veit nema hann eigi endurkomu í spilunum. Elvar Páll hefur ekki setið auðum höndum því hann starfar af fullum krafti hjá auglýsingastofunni Pipar og fór hreinlega í framboð til bæjarstjórnar í heimabænum Kópavogi í fyrra. Hann er semsagt varabæjarfulltrúi fyrir hönd Samfylkingarinnar í Kópavogi núna, sá yngsti í sögu bæjarins leyfi ég mér að fullyrða.



Hilmar Árni Halldórsson. Breiðholts-Messi-inn hefur ekki valdið vonbrigðum eftir Pepsi-ævintýrið okkar. Það þarf svosem ekki að fjölyrða um þennan dreng þar sem hann er markahæsti maður Pepsi Max Deildarinnar í þessum töluðu orðum og af flestum talinn besti leikmaður deildarinnar síðustu ár. Hilmar fór frá Leikni eftir Pepsi-ævintýrið okkar enda yfirburðarmaður í því að koma liðinu á þann stall og í baráttunni sumarið 2015. Það hefur komið fram að það var þónokkuð mál að sannfæra Stjörnuna um að snapa upp drenginn en þeir sjá ekki eftir því í dag.


Kolbeinn Kárason var sóknarmaðurinn, nían sem átti að halda Leikni uppi. Stór og stæðilegur boxari sem hafði ekki komist almennilega í gang á Hlíðarenda og færði sig því upp í Breiðholt til að kveikja í skotskónum. Skemmst er frá því að segja að hann spilaði 17 leiki fyrir Leikni þetta sumar og skoraði heil 2 mörk í þeim. Mikil vonbrigði og kannski ein af stóru ástæðunum fyrir því að liðið fór beinustu leið aftur niður. Það er þó kannski ekki að öllu leyti við leikmanninn að sakast því að mati undirritaðs var hann allt of oft fastur í harki úti á köntum þegar hann var stóri "target-centerinn" sem ætti að vera að fá krossana inn í teig en hann var aldrei mikill skorari. Náði aldrei tveggja stafa tölu hvar sem hann hefur komið við. Þetta var allavega allt allt of erfitt í Pepsi fyrir Leikni og Kolbein saman. Þegar aftur var komið í Inkasso náði Kolbeinn ekki að bæta miklu við markaskorunina. Í 18 deildarleikjum náði hann 3 mörkum en sumarið 2017 náði hann í 8 mörk í 19 leikjum. En þá virtist hann vera búinn að fá nóg og færði sig um set í KH í 3. deildinni. Hann spilaði 7 leiki síðasta sumar og er kominn með 2 leiki núna í sumar. Hann er því væntanlega nánast alveg hættur að spila knattspyrnu af einhverju viti. En söngurinn lifir að eilífu! "Hann rotaði í boxinu nú skorar hann í boxinu, Kolbeinn Kára, Leiknir NÖMBERNÆN!"


Kolbeinn að skora?

Atli Arnarson var ekki beinlínis fyrirferðarmikill í liði Leiknis á þessu Pepsi-sumri og hann hefði sennilega gleymst í þessari yfirferð ef hann væri ekki að gera garðinn frægan núna með HK-mönnum í efstu deild. Atli spilaði þó 16 af 22 leikjum með Leikni þetta sumar eftir að hafa slegist í för með okkur frá Tindastól. Atli spilaði svo alla leikina fyrsta sumarið aftur í Inkasso og skoraði 6 mörk. Vel gert hjá honum. Þá var ferðinni heitið af meginlandinu til Vestmannaeyja þar sem hann spilaði síðustu 2 sumur. Síðastliðið haust nýtti hann sér svo ákvæði í þeim samning til að yfirgefa félagið og slóst í för með eldri bróður sínum Árna hjá HK. Þar hefur hann fundið sig og verið einn af lykilmönnunum í að setja seinni hluta tímabilsins á túrbó í Kórnum. HK var spáð falli í sumar en þeir eru á allt öðru máli. Flottur leikmaður þarna á ferð.



Ólafur Hrannar Kristjánsson er Hr. Leiknir. Þetta vita allir. Fyrirliðinn með merki félagsins flúrað á bringuna. Alltaf til vandræða fyrir varnir andstæðinganna en náði aldrei að skora tveggja stafa tölur. Í Pepsi spilaði hann 20 leiki og skoraði 4 mörk. Tímabilið á eftir skoraði hann 2 mörk í 18 leikjum í Inkasso. Hann söðlaði svo um til Þróttar í Reykjavík sumarið 2017 og lék með þeim fram á mitt tímabil á síðasta ári. Þá ákvað hann að snúa aftur til Leiknis og kláraði tímabilið með uppeldisfélaginu. En í lok síðasta árs rann samningur hans út hjá Leikni og skrifaði hann undir hjá hinum Þrótturunum, í Vogum á Vatsnleysuströnd í 2. deildinni. Þar hefur hann spilað í sumar ásamt öðrum Leiknismanni, Ingvari Ásbirni, í sumar og hefur hann komið 13 sinnum við sögu án þess þó að setja mark með þeim. Óli Hrannar er eins og áður segir goðsögn í röðum Leiknis og því skiptar skoðanir um það að honum hafi verið leyft að fara til Þróttar og svo Þróttar án mikils mótþróa en ef maður horfir bara stíft í tölurnar myndi undirritaður segja að félagið hafi tekið rétta ákvörðun í þessu máli og reyndar bara yfirleitt með því að gefa engum áskrift af sæti í liðinu nema að þurfa að berjast fyrir því.


Fannar Þór Arnarsson var öflugur og hæfileikaríkur maður á miðjunni. Lykilmaður í að koma liðinu í deild þeirra bestu og spilaði svo 11 leiki í Pepsi. Hann hefur spilað 161 leik fyrir félagið og ekkert annað félag. Reyndar henti hann í 3 leiki fyrir KB síðasta sumar en hann hefur semsagt aldrei svikið lit. Í dag er hann hættur knattspyrnuiðkun og orðinn framkvæmdastóri Kiwi sem er starfrænt markaðssetningarfyrirtæki. Fannar hafði þó verið að fikta við kvikmyndagerð og annað skapandi á meðan hann spilaði fyrir Leikni og framleiddi meðal annars stuttmyndina Cold Turkey þar sem ónefndur annar Leiknismaður var í aðalhlutverki.



Danny Schreurs er ekta smjörgreiddur Hollendingur sem var fenginn til liðsins í glugganum á miðju tímabili. Þetta var happdrættismiði sem, eins og flestir slíkir miðar, hafði engan vinning. Því miður. Hann spilaði í 7 leikjum fyrir félagið og skoraði núll mörk. Hann var í engu leikformi hjá félaginu og var samningi við hann rift þegar 2 leikir voru eftir af tímabilinu og enn vonarglæta um að halda sæti í Pepsi. Að sögn Davíðs Snorra var samningi rift vegna brots á agareglum félagsins. Það er skemmst frá því að segja að þetta var hann, ekki við. Hann er mættur aftur í neðrideildir Hollands og hefur ekki kveikt í heiminum með hæfileikum sínum. Verði þeim að góðu.


Þar með líkur yfirferðinni. Vantar einhvern sem gæti fylgt í annarri grein?

154 views0 comments

Recent Posts

See All

Comentários


bottom of page