top of page
Writer's pictureLjón

Bjarki og Ósvald áfram Leiknismenn!

Á föstudag róuðust taugar fjölmargra Leiknismanna þegar tveir öflugir leikmenn skrifuðu undir nýja samninga við félagið og ætla að taka slaginn af fullum krafti í Pepsi-Max í 111.


Þessa félaga þarf vart að kynna fyrir Leiknisljónum en þeir eru búnir að vera lykilmenn hjá félaginu í vinstri bak og miðverði síðan þeir komu til félagsins árið 2017. Bjarki er kominn í 84 leiki í deild og bikar fyrir félagið á þessum 4 leiktímabilum og hefur ýmsa fjöruna sopið með alls kyns blöndur af leikmönnum við hlið sér en hann er Turninn sem allt snýst um í varnarleik liðsins á þessum tíma og eins og glöggir hlustendur Ljónavarpsins tóku kannski eftir, voru menn ekki alveg í rónni með það hvort þessi leiðtogi væri klár í að taka slaginn áfram. Það er því mikill léttir að undirskrift er í höfn og enginn vafi lengur á því hvort menn væru að fara að sigla í lausan samning um áramót með tilheyrandi óvissu um þessa lykilstöðu hjá félaginu. Bjarki skrifar undir samning til næstu tveggja ára svo hann ætlar að tryggja stöðu félagsins í efstu deild og geirnegla hana svo næsta sumar á aftir áður en hann skoðar sín mál næst.



Ósvald er kominn í 74 leiki fyrir félagið, þaraf 8 á láni á sínum tíma þegar hann var aðeins 18 ára. Þessi áreiðanlegi vinstri bakvörður kom lítið við sögu á þessu ári sem er að líða þar sem hann átti við erfið meiðsl að stríða. Það dylst þó ekki nokkrum manni að það er mikill kostur að geta treyst á hann í ævintýrinu sem framundan er í deild þeirra bestu. Ósi skrifar undir til 3ja ára í viðbót svo hann er alkominn í Breiðholtið ef einhver vafi lék á því fyrir.


Með þessum fréttum er staðfest að Clausen og co. eru búin að binda um alla hnúta og enginn leikmaður sem kom við sögu meistaraflokks í ár er samningslaus þegar Pepsi-Max árið fer í gang eftir 4 vikur. Mikið gleðiefni fyrir félagið enda þótt líklega þurfi að styrkja hópinn töluvert fyrir þau átök, þá var lykilatriði að negla niður þá leikmenn sem komu félaginu í þessa stöðu til að byrja með.


Við fögnum þessu og þökkum Bjarka og Ósa fyrir að leyfa okkur að njóta krafta þeirra næstu árin í 111.



18 views0 comments

Comments


bottom of page