Á miðnætti lokaði leikmannaglugginn á Íslandi og faxvélin í Leiknishúsinu var á yfirsnúningi þó það hafi kannski ekki verið mikið um stórar sviptingar. Skoðum málin.
Stefán Gísla, þjálfari Leiknis, var búinn að gefa út að leikmannahópurinn væri fullskipaður fyrir mót og lánssamningar Hjalta Sigurðs og Stefáns Árna frá KR hafi verið lokahnykkurinn svo við bjuggumst ekki við að vera með í Gary Martin umræðunni eða neitt slíkt.
Farnir:
Ingvar Ásbjörn Ingvarsson til Þróttar Vogum
Natan Hjaltalín til Elliða
Magnús Andri Ólafsson til Álftaness (Á LÁNI)
Birkir Björnsson til KB (Á LÁNI)
Lánaðir úr 2.flokki í KB: Patryk Hryniewicki, Jamal Klængur
Kominn:
Daði Bærings frá Vermont (ekki félagaskipti)
Hvað þýðir þetta?
Stóru fréttirnar eru að Ingvar Ásbjörn, lykilleikmaður síðustu 3 sumur, hefur yfirgefið Leikni fyrir fullt og allt og slegist í hóp með fyrrum Leiknismönnum í Vogunum, þeim Óla Hrannari og Pape Mamadou Faye í 2. deildinni. Við höfum auðvitað ekki allar upplýsingarnar en ljóst var á fyrstu deildarleikjum og bikarleiknum að Ingvar var ekki ofarlega í plönum nýja þjálfarans þar sem hann kom ekkert við sögu. Í upphitunarhlaðvarpi Ljónavarpsins ræddum við stöðu Ingvars og menn voru ekki sammála um hvar á vellinum væri pláss fyrir þennan hæfileikapilt. Það virðist vera tilfellið þegar á hólminn er komið að uppstilling og skipulag Stefáns Gísla bjóði ekki uppá lykilhlutverk fyrir Ingvar Ásbjörn og hann fór því fram á að ræða við önnur félög fyrr í vikunni og málalyktir þessar. Undirritaður hefur miklar mætur á leikmanninum og hefði viljað sjá hann koma inná t.d. í Aftureldingarleiknum til að stappa stálinu í spil liðsins. Hann er skaphundur sem lætur finna fyrir sér og ég sé ekki alveg hver annar í hópnum fyllir það skarð. En það kemur auðvitað að engum notum á bekknum svo við verðum að treysta ferlinu og óska Ingvari alls hins besta á nýjum vígstöðvum.
Natan Hjaltalín hefur greinilega verið eitthvað veruleikafirrtur þegar hann gerði félagaskipti sín í vor því hann er sóknarmaður og það er ekki staða sem þú færð uppí hendurnar hjá Leikni. Sérstaklega ekki þegar þú hefur aldrei skorað fyrir utan 4. deild. Hann gekk því aftur í raðir Elliða í gær og spilaði strax með þeim í gær. Kom af bekknum og skoraði í 10-0 sigri á einhverjum. Vegni honum vel í framtíðinni.
Magnús Andri hefur ekki komið við sögu í bikar eða deild hingað til en hann var markhæstur í 2.flokki í fyrra eftir að hafa komið úr Stjörnunni. Hann fer nú á láni á heimslóðir í Álftanes í 3. deildinni þar sem hann mun raða inn mörkunum og vera klár ef kallið kemur úr Breiðholti í næsta glugga.
Daði Bærings er kominn heim! Þetta eru ekki beinlínis gluggadagstíðindi en þau báru upp á sama degi og almannatengill Leiknis hefur verið sáttur við það því það voru 6 manns sem láku út í gær en að fá engann í staðinn væri ekki eins skemmtilegt. Daði er auðvitað ein af ungu vonarstjörnum Leiknis. Uppalinn hæfileikamaður á miðjunni. Í spjalli á miðlum félagsins í gær gerði hann sér vonir um að fá einhverjar mínútur af bekknum gegn Njarðvík á morgun. Stefán er búinn að vera með sama byrjunarlið í báðum deildarleikjum hingað til en Ingó Sig verður í banni á morgun svo það gæti verið að hann komi eitthvað við sögu.
Gluggadagurinn að þessu sinni lokaður og gekk það áfallalaust fyrir sig. Miðað við hreyfingar annars staðar og jafnvel krísuklúbba eins og Val sem eiga í vandræðum með að skora, þá var alveg hugsanlegt að þeir gætu nartað í lykilmenn á við Sólon og Sævar og því er ágætisléttir að glugginn sé nú lokaður og við getum einbeitt okkur að því að komast á skrið með hópinn sem til staðar er.
Comments