top of page
Writer's pictureLjón

Pepsi Max-handbók allra Leiknisljóna

Þetta er að bresta á kæru Leiknisljón. Það er langur og strembinn vetur að baki og nú rúllar boltinn loksins af stað með öllu því sem fylgir þátttöku í efstu deild landsins. Eins og Siggi og strákarnir, höfum við fært okkar leik í Ljónavarpinu upp á næsta stig til að halda í við, og oft á tíðum slá við, bestu liðunum. Það er fullt, fullt af efni í boði fyrir ykkur til að kynna ykkur málin og við erum hvergi nærri hættir.


Strákarnir gefa lítið fyrir spá um fall hjá flestum sérfræðingum

Ef þú ert að vakna við vondan draum og fatta að tímabilið byrjar á laugardag og veist kannski lítið hvað er í gangi, þá komum við til bjargar. Allt sem þú þarft að vita fyrir tímabilið, og kannski rúmlega það, finnurðu í þessari grein okkar.



Við þurfum að sokka heiminn!

Það er klárt að langflestir sérfræðingar, sjálfskipaðir og raunverulegir, hafa spáð okkar liði einu af tveimur fallsætunum. Yfirleitt því neðsta. Flestir þeirra væru mjög glaðir að vera sokkaðir með þá skoðun en þeir falla ekki frá henni samt sem áður. Það verður því markmið Leiknis að einmitt sokka þessa aðila þegar talið verður upp úr stigapokanum í haust og við erum hólpin í Pepsi Max annað tímabilið í röð. En þetta eru ekki orðin tóm! Við erum með Sokkalistann þar sem við söfnum nöfnum og munum mæta þeim aðilum með sokk í hönd í haust. Vinsamlegast bendið okkur á spár og umsagnir fólks sem á heima á þessum lista. Þetta er einfaldlega við gegn öllum hinum. Ekkert flóknara en það. Við mælum líka með að fólk mæti á völlinn með sokkana rúllaða uppfyrir buxur eða bara áberandi sokka til að "hóta" heiminum að það er sokkun framundan. Engin spurning um annað. Þú getur nálgast uppfærðan Sokkalista hér.


Kynntu þér leikmannahópinn


Í vikunni fórum við yfir allan leikmannahópinn í Ljónavarpinu og þeir Juarez og Agon úr KB lögði sín vog á lóðarskálarnar þar. Það var svo mikið efni að við þurftum að skipta því tvennt. Þið getið fundið þáttinn um vörnina og þáttinn um miðjuna og sóknina á öllum hlaðvarpsveitum. Ef þið kunnið ekkert á svoleiðis getið þið hlustað á þættina með því að smella á þessa tvo hlekki:


Mest umtalaði nýi leikmaður félagsins er Andrés ´Manga´Escobar sem er með svaðalega ferilskrá og eins og eina eða tvær brenndar brýr að baki sér. Þessi geðþekki Kólumbíumaður settist niður með Guðnýju Sævins á dögunum og ræddi lífið á Íslandi hingað til og væntingarnar fyrir tímabilið. Það er margt leiðinlegra en að kynnast honum.



Hlustaðu á Sigga þjálfara


Siggi tók spjall við okkur núna í gær og svaraði hinum ýmsu spurningum um hópinn, nýju leikmennina, stemninguna og hvað honum finnst um hrakfallarspár sérfræðinganna. Við erum svo sannarlega heppin með þjálfara í Sigga og ef hann er ekki smeykur, þá getum við andað rólega, skilað okkar í stúkunni og látið okkur hlakka til sumarsins.

Ef þú vilt heldur heyra þetta spjall við Sigga í hlaðvarpsformi, þá liggur það á sama stað og öll hin Ljónavörpin. Í þinni hlaðvarpsveitu eða hér á síðunni.



Nærmynd á Leikmenn


Í vor hafa komið út tveir vinsælir þættir á YouTube þar sem við fengum að eyða deginum með þeim Bjarka Aðalsteins, turninum í vörninni, og svo Guy Smit sem stendur milli stanganna. Þættirnir heita 111% Stolt Breiðholts og þú finnur þá líka á YouTube rás Ljónavarpsins. Við mælum hiklaust með því að þú setjir Subscribe/Áskrift á þá rás til að geta étið efnið í þig um leið og við hlöðum því upp. Endilega kynnist þeim betur með því að glápa og segið okkur endilega hvernig ykkur finnst. Hverjum ættum við næst að fá að hanga með?


Sænski miðjumaðurinn Emil Berger, kíkti líka í stutt Ljónavarpsspjall fyrir nokkrum vikum. Þar er á ferðinni öflugur leikmaður sem við bindum miklar vonir við.

Nostalgíuþema yfir háveturinn


Áður en við einblíndum á Pepsi Max deildina síðustu vikuna, þá vorum við í smá fortíðarþrá og enginn annar en Davíð Snorri Jónasson kom í heimsókn í febrúar að ræða síðasta gullaldartímabilið þegar hann og Freysi réðu öllu í 111. Það þurfti tvo þætti til enda hafði hann frá miklu að segja varðandi þetta tímabil. Hvernig liðið tryggði sig upp í Pepsi með glæsibrag og hvernig þrautagangan 2015 var séð í innsta hring. Mælum eindregið með því að þú hlíðir á í góðu tómi.

Svo kom Helgi Óttar Hafsteins í heimsókn um daginn á gamla vinnustaðinn sinn. Hann lét af störfum sem framkvæmdastjóri Leiknis í haust eftir að hann hafði skilað 4 ára starfi, bókhaldinu í plús og liðinu í fremstu röð. Ekki amalegt það. Við fengum að hnýsast aðeins bakvið tjöldin með honum til að skilja hvernig menn fara að því að afreka svoleiðis.



Hvernig get ég stutt við bakið á Leikni?


Það eru ýmsar leiðir en félagið hefur útbúið nokkrar tegundir bakhjarlapakka sem innihalda árskort og alls konar glaðning. Við hvetjum ykkur að kynna ykkur málið hér á heimasíðu félagsins og slá til. Þið getið verið viss um að peningum ykkar er vel varið í starfsemina hjá Leikni.


Hver segir að við séum ekki peppuð í Efra-Breiðholti fyrir þessari veislu? Njótið vel kæru Leiknisljón. Og í guðana bænum hendið ykkur á völlinn með röddina að vopni.


Að síðustu mælum við með að þú splæsir í eitt follow á okkur á samfélagsmiðlum. Instagram er sérstaklega lifandi miðill hvað okkur varðar og allt sem viðkemur félaginu fer í gegnum okkar Instastory. @ljonavarpid á öllum social miðlum.


172 views0 comments

댓글


bottom of page