Þeir Guy Smit og Dylan Chiazor komu aftur til Íslands í vikunni til að æfa með Stolti Breiðholts á ný. Með þeim kom líka Belgi sem ætlar að reyna að ganga í augun á Sigga og strákunum og reyna að tryggja sér pláss í hópnum.
Smitarinn kemur til landsins með nýjan samning í rassvasanum og spenntur fyrir því að mæta gamla félaga sínum honum Hannesi Þór í deild þeirra bestu í sumar. Hann er niðurnegldur okkar út tímabilið og hljóta allir Leiknismenn að fagna því ógurlega enda var hann kosinn besti nýji leikmaður félagsins eftir síðasta tímabil.
Dylan Chiazor kom til félagsins á miðju tímabili í fyrra og fékk alls ekki eins mörg tækfæri í liðinu og hann hefði viljað enda var liðið á fjandi góðu róli þegar hann kom og svo reyndist Máni Austmann ekki þurfa að fara til BNA í Háskólaliðið sitt á þeim tíma. En þeir okkar sem fylgdust grannt með, sáu fljótan kantmann sem getur látið þverslána finna fyrir því af krafti. Siggi vill greinilega fá að skoða leikmanninn aðeins betur og ef hann nær að ganga í augun á yfirþjálfaranum, verður hann í hóp þegar flautað verður til leiks í vor. Við vonum það besta og treystum auðvitað dómgreind meistara Sigga.
Svo er það laumufarþeginn. Nýji maðurinn. Til æfinga er mættur belgískur framherji, Oumar Diouck að nafni. Nei þetta er ekki Diouck! Djók! Kauði er 26 ára og spilaði með KF Fjallabyggð í fyrrasumar í 2. deildinni. Hann skoraði 12 mörk í 19 leikjum og var meðal annars valinn leikmaður umferðarinnar í 7. umferð deildarinnar. KF var spáð allra neðsta sæti deildarinnar og er hann lykilþáttur í að þeir voru langt frá því að falla um deild. Diouck var U-17 ára landsliðsmaður í Belgíu á sínum tíma og hefur spilað fyrir nokkur lið í heimalandinu áður en hann endaði í Fjallabyggð með eins árs stoppi í Edmonton árið á undan. Líklegt verður að teljast að leikmaðurinn sé hugsaður sem kantmaður sem sækir inn í teig, a la Vuk eða Máni. frekar en að hann eigi að fara að taka treyju #9 af Sóloni okkar Brekham! Að venju gerum við okkur grein fyrir því að við búum við þau einstöku lífsgæði að þurfa ekki að efast um dómgreind þjálfarateymis okkar. Þeir eru að byggja lið innan þess ramma sem félagið ræður við og ef þeir Diouck og Chiazor geta nýst í verkefninu sem framundan er, þá munum við sjá þá blómstra hér í Breiðholti!
Comments