Á sunnudagskvöld í Kórnum Kópavogi, ljúka okkar menn strembinni törn í byrjun Íslandsmótsins í efstu deild þetta árið. Þá verða þeir búnir að spila 7 leiki á innan við mánuði og rétt tæplega þriðjungur mótsins verður þá að baki.
Fyrir mót vissu allir að þetta margumtalaða "hraðmót" myndi vera erfiður tími eftir snúinn undirbúning í skugga heimsfaraldurs. Fyrir ekki lengra en mánuði síðan voru langflestir spekúlantar og aðrar mannvistbrekkur fullvissar um að leið litla, gæðalausa liðsins úr ghettóinu lægi beinustu leið niður aftur í Lengjudeildina. Breidd hópsins væri engin og sérstaklega svona margir leikir í byrjun gætu reynst liðinu það erfiðir að það liðið væri lurkum lamið áður en júní gengur í garð. En Siggi og strákarnir töluðu alltaf af yfirvegun og öryggi. Og þeir hafa sýnt það í hvívetna síðan. Það er ótrulegt hvað menn með smá trú á sjálfum sér og verkefninu geta smitað út frá sér. Það dettur fáum í hug núna, þó það sé mikið eftir af móti, að Leiknir sé ekki að fara að festa sig í sessi meðal þeirra bestu í að minnsta kosti eitt ár í viðbót.
Það var ekki einu sinni eitthvað stórkostlegt afrek að sigra stórlið FH á Domusnovavellinum síðasta þriðjudag. Eins og Siggi sagði eftir leik: "Við litum bara á þetta lið og þennan leik sem við vildum vinna og við unnum hann og það er bara áfram gakk". Það er einfaldlega þannig að allt er að virka eftir áætlun sem enginn utan búningsklefans innst á ganginum í Austurbergi 1 hafði hugmynd um að væri í gangi.
Já, Binni Hlö er jafnsjúklega mikilvægur liðinu og margir héldu. Já, Sævar Atli er Pepsi-kaliber sóknarmaður og jafnvel rúmlega það. Já, menn eins og Arnór Ingi og Birgir eru að stíga upp og eru hvergi hræddir í fyrstu skrefum sínum gegn sterkustu liðum landsins. Það hefur sáralítið farið úrskeiðis hingað til og svo margt til að dást að. Emil Berger er yfirburðarmiðjumaður og það er hægt að segja að "S-Ameríkutilraunin" sé bara bónus ef þeir Manga og Octa taka öll völd síðar á tímabilinu. Við sem héldum að þeir væru make or break fjárhættuspil Sigga og stjórnarinnar, voru greinilega ekki meðvitaðir um gæðin í liðinu. Þrátt fyrir að undirritaður hefur ekki verið spurður af einni manneskju af hverju hann er ekki að skrifa skýrslu um hvern leik þetta árið eins og þau síðustu tvö, þá var hann búinn að ákveða að gera það ekki í sumar. Þetta væri tíminn til að vera ekki að skjalfesta einhverja óánægju með einstaka hluti og vera í staðinn 100% meðvirkur enda þyrftu allir að róa í sömu átt til að eiga nokkurn sjéns á að halda liðinu í efstu deild.
Þvílíkur þvættingur! Siggi og strákarnir eru að spila þetta eins og þeir hafi aldrei gert nokkuð annað og mér líður núna eins og þessi pæling mín sé bara móðgun við þá. En ég ætla þó ekki að jinxa þetta og það er mikið eftir. Það er einhver alvöru dýfa framundan á tímabilinu einhvern tíma en andlegt atgervi liðsins í dag er einhvern veginn þannig að maður hefur fulla trú á því að liðið allt sé bara undir það búið og muni bara yppta öxlum þegar þar að kemur, dusta af sér rykið og fyrr en varir vera farnir að gera hinum liðunum í baráttu um Evrópusæti lífið leitt.
Eins og áður segir, lýkur þessu 7 leikja hraðmóti á sunnudag og það gegn liði sem hægt væri að segja að Leiknir gæti verið spenntast fyrir að líkjast. HK er búið að festa sig í sessi í efstu deild með yfirvegun og án þess að sprengja budduna eða neitt slíkt. Við heimsækjum þá á minnst spennandi heimavöll landsins, Kórinn. Þar sem undirbúningstímabilið fer fram og er innandyra. Það er ekkert aðlaðandi við að spila þennan leik. Ekkert nema það að við getum farið með 11 stig í stutt landsleikjahlé, búnir að vinna vel í haginn fyrir restina af tímabilinu og jafnvel þeir sama hafa svo lítið sem átt skyndikynni í 111 munu básúna um það að þeir séu grjótharðir Breiðhyltingar við alla sem vilja heyra það.
Það er nákvæmlega þess vegna sem þessi leikur er svo mikilvægur og svo áhugaverður. Hvernig tekst Sigga, Hlyn og Vali að fá strákana upp á tærnar fyrir svona leik. Þetta er klárlega ekki það sem menn sjá fyrir sér þegar þá dreymir allan veturinn um að spila í PepsiMax-deildinni. Spennustigið verður að vera stillt rétt þrátt fyrir brösuga byrjun heimamanna í maí. Þeir sjá örugglega fyrir sér að þetta sé þeirra tækifæri til að kippa nýliðunum niður á jörðina og fara inn í hléið með stoltið endurbætt aðeins.
Það er því mikilvægt að við fjölmennum sem stuðningsmenn í Kórinn á sunnudagskvöld. Við þurfum að sýna strákunum að þó þeir séu að spila inni á móti óspennandi andstæðingi, erum við til staðar og stigin 3 gegn þeim eru jafnmikilvæg og þau sem þeir hirtu gegn FH og Fylki. Ónefndur skottulæknir í Hlaðvarpi nefndi það líka í vikunni það væri engin press á Leikni því það væri enginn stuðningur á þessum litla grasbletti í ghettóinu. Sami kauði sagði um daginn að hörðustu stuðningsmenn tímabilsins séu HK-menn. Það er leikþáttur af bestu gerð en hann virkaði. Því við Leiknisljónin erum urrandi reið yfir þessu og ætlum að loka þessu hraðmóti með besta stuðningi sem nokkuð lið hefur fengið hingað til. Við ætlum að nýta bergmálið í Kórnum til að kæfa alla mótstöðu og öskra inn stigin 3. Eftir það er komið alvöru sumar og allir hræddir við Ofur-Breiðholt. Í framhaldinu afléttast samkomutakmarkanir enn meira og við förum að geta þjappað okkur og fyllt stúkuna.
Partýið er rétt að byrja en takk fyrir allt hingað til Siggi og strákarnir! Við mætum brjáluð í Kórinn.
Comments