Nú er ljóst að Sigurður Heiðar Höskuldsson er tekinn við aðalþjálfarastöðu meistaraflokks karla hjá Leikni með innan við sólarhring til stefnu að undirbúa sig fyrir heimsókn suður með sjó. En hver er maðurinn?
Sigurð þekkjum við sem aðstoðarmann Stefáns Gísla hingað til og hann var reyndar aðstoðarmaður Vigfúss Jósepssonar í fyrrasumar þegar hann stýrði liðinu eftir brotthvarf Kristófers. Sigurður er 34 ára íþróttafræðingur sem ólst upp í Kópavogi. Hann er með UEFA A-próf frá KSÍ svo það er ljóst að hann er ekki að detta tilneyddur inn í starfið. Hann hefur reynslu af yngriflokkaþjálfun m.a. hjá Stjörnunni og Breiðablik.
Sigurður hefur spilað 85 leiki í meistaraflokki á Íslandi með hinum ýmsu liðum. Hann er reyndar ekki enn alveg hættur því hann hefur komið tvisvar við sögu í sumar með KB en það eru orðin 7 ár síðan hann náði tveggja stafa tölu í leikjafjölda í fótboltanum á einu sumri. Hann ólst upp í röðum Breiðabliks eins og hálf þjóðin og sumarið 2005 var hann á láni hjá 3.deildarliði Bolungarvíkur. Þar var hann valinn leikmaður ársins. Hann hefur spilað að mestu sem miðjumaður.
Vorið 2010 spilaði Sigurður pool við félaga sinn í 72 klukkustundir samfleytt til að safna fé fyrir MS-félag Íslands en þetta var heimsmet til heiðurs félaga þeirra sem hafði greinst með sjúkdóminn. Þegar gefur augaleið að Sigurður vann einvígið 426-420.
Sigurður hefur tekið þátt í vaxtarræktarkeppnum og orðið á grasinu er að hann sé alveg sérstaklega mikið fyrir að hafa lið sín í sem allra bestu formi með sem mest úthald. Það veitir ekki af þegar líður á tímabilið.
En að Leiknisliðinu og hvernig Sigurður mun stýra því. Í viðtali við Elvar Geir á facebook síðu félagsins (sjá hér fyrir neðan), er Sigurður nokkuð sprækur og lýsir því skýrt yfir að það verði í raun "engar breytingar" því Stefán Gísla hafi haft hann það mikið með í ráðum hingað til að þeir hafi verið á sömu blaðsíðu. Það er því vonandi að Sigurður haldi áfram og bæti í þá vinnu sem að baki er á þessu ári hingað til.
Við mætum að sjálfsögðu í stúkuna á Nettóvellinum í Keflavík annað kvöld og styðjum hann og strákana með ráðum og dáðum. Við óskum Sigga góðs gengis í þessu nýja/gamla verkefni sínu.
コメント