top of page
Writer's pictureLjón

HVERFIÐ KALLAR! Á stuðningsmannaráð?

Kæru stuðningsmenn. Það er komið 2021 og framundan er annað ævintýri meðal bestu liða landsins í Pepsi-Max deildinni. Síðast var gaman en nú verður partý! Vertu með okkur í að skapa ógleymanlega stemningu og stuðning við liðið með öllum tiltækum ráðum.


Við vitum öll að félagið okkar er lítið en við vitum líka að það er með stærsta hjartað. Það mun reyna á alla vöðva hjartans til að festa liðið okkar í sessi í deild þeirra bestu í sumar. En það er ekki endilega aðalatriðið. Að spila í efstu deild er sannarlega markmiðið en félagið okkar hefur alltaf sýnt að það stendur fyrir eitthvað meira en það. Leiknir er Stolt Breiðholts vegna þess unga fólks sem stundar þar knattspyrnu af elju og metnaði og kemst til manns undir vökulu auga fullorðna fagfólksins á þessum litla landskika milli Lönguvitleysunnar og Breiðholtslaugar. Það markmið er yfir öll önnur hafið hjá félaginu og gildir þá einu hvort meistaraflokkur spili í efstu eða neðstu deild. En eins og við vitum vel, er lífið bara aðeins betra þegar maður getur gengið um með kassann út sem stoltur Breiðhyltingur. Hvað þá stoltur efri-Breiðhyltingur úr 111? Félagið er hornsteinn samfélagsins hér og hefur óneitanlegt aðdráttarafl fyrir íbúa, núverandi og brottflutta. En til að endurtaka partýið frá 2015 og jafnvel bæta um betur hvað stemningu og árangur varðar, þá leitum við nú til ykkar allra með að skapa þá stemningu sem ykkur hugnast með okkur.


Það eru fordæmalausir tímar eins og þúsund sinnum hefur verið tugið í okkur á síðustu mánuðum. Erfiðisvinnan er á höndum stjórnar félagsins og þjálfara og leikmanna á vellinum. Við stuðningsmenn komum að litlum notum þar. En við getum hins vegar skapað okkar eigin gleði og gaman á sama tíma og þannig auðveldað þeim róðurinn til muna.

Við erum að tala um að fá þá stuðningsmenn að borðinu sem telja sig hafa eitthvað fram að færa. Í því felst engin skuldbinding til að gera nokkurn hlut frekar en þú vilt. Ef þér hefur alltaf fundist vanta hlaðvarp um einhvern anga félagsins og aldrei látið þá skoðun í ljós, þá er nú tækifærið. Ef þú ert með geggjaðan söng um Sævar Atla í maganum og vilt koma honum í "nefnd", vertu velkomin(n). Okkur langar að vera stuðningsmannahópurinn sem vekur aftur athygli fyrir frammistöðu í stúkunni og það kemur klárlega fram einhver kjarni grjótharðra stuðningsmanna sem munu leiða okkur áfram í gegnum rússíbanann sem framundan er. En akkúrat núna væri gaman að byrja með því að skoða umgjörðina.


Hvað ef áhorfendur verða ennþá eða aftur bannaðir í sumar? Hvernig gerum við leikina eftirminnilega með notkun samfélagsmiðla osfrv.? Hvernig kveikjum við í þeim sem hafa ekki komið á völlinn í nokkur ár? Hvernig þjónustum við þá grjóthörðu Breiðhyltinga sem búa ekki á landinu eða of langt í burtu til að komast til okkar? Allt og ekkert er til umræðu.

Markmiðið er að fá til liðs við okkur nokkur Leiknisljón sem eru tilbúin að hittast í það minnsta einu sinni og láta gamminn geysa saman og leggja einhver drög að hugmyndum að því hvernig við viljum sjá sumarið fyrir okkur. Svo fáum við tengilið stuðningsmanna hjá félaginu til að heyra okkur og förum svo af stað. Það eru fullt af hugmyndum þegar á borði svo ef þú hefur bara áhuga á að heyra þær og gefa skoðun á þeim, þá er það líka valkostur.


Vertu í bandi og við byrjum á að setja saman eins konar "stuðningsmannaráð" og tökum málið svo áfram. Við vonum innilega að sem flestir sýni þessu áhuga sem vilji láta sitt ljós skína, hvernig sem þeir skilgreina það.



167 views0 comments

Comentarios


bottom of page