Nú þegar Leiknir er að sigla inn í fimmtugt á næsta ári er gaman að sjá að metnaðurinn til að vaxa og þjóna stærri hópi fólks innan hverfins er drífandi í starfi félagsins. Á síðasta ári var stofnuð blakdeild innan félagsins og í haust var samið um yngra starf körfuboltans líka. Nú þarf félagið þína hjálp til að biðla til Reykjavíkurborgar og fá undir starfsemina íþróttahúsið í Austurbergi.
Markmiðið er að Leiknir verði svokallað hverfisfélag og þjónusti þannig fleiri iðkendur en bara þá sem laðast að knattspyrnu. Það hefur löngum verið áskorun að fá fleiri stúlkur og börn af erlendu bergi brotið til að verða Leiknisfólk og það liggur beinast við að íþróttahúsið sem er við hliðina á knattspyrnuvellinum okkar, sé nýtt af félaginu í 111. Þeir sem ekki þekkja til vita kannski ekki að það er núna ÍR sem hefur afnot af húsinu og Leiknir hefur hingað til þurft að láta sér nægja að nýta íþrótta"hús" Fellaskóla fyrir innanhússiðkendur sína.
Foreldrar í yngra starfi félagsins hafa því stofnað til undirskriftarlista sem beint er til Reykjavíkurborgar og biðlum við til allra sem styðja Leikni og hafa búið í hverfinu á einhverjum tímapunkti að gefa sér 2 mínútur til að kvitta á listann góða. Svo krossleggjum við fingur og vonum að aðstaðan fylgi þeim metnaði sem félagið hefur fyrir hverfið okkar.
Comments